Fara í efni
Menning

Akureyrarbær styrkir kaup á hörpu

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Ljósmynd: Ármann Hinrik.

Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti í gær erindi frá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar, þar sem óskað er stuðnings við kaup á hörpu.

Eins og fram hefur komið hér á Akureyri.net fagnar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands 30 ára afmæli sínu með tónleikum í Hofi sunnudaginn 29. október. Af því tilefni var óskað eftir stuðningi frá Akureyrarbæ við kaup á hörpu og samþykkti bæjarráð að verða við þeirri beiðni. Hljómsveitin fær afmælisstyrk upp á eina og hálfa milljón króna til kaupa á nýrri hörpu. Harpan mun nýtast bæði til tónleikahalds og kennslu. 

Á áðurnefndum afmælisviðburði flytur hljómsveitin 9. sinfóníu Beethovens, Óðinn til gleðinnar. Þetta verður í fyrsta skipti, eftir því sem næst verður komist, sem kvæði Friedrichs Schillers (1759-1805) í lokaþætti sinfóníunnar, sem er eini sungni hluti hennar, verður sungið á íslensku þegar 9. sinfónía Beethovens er flutt í heild.