Fara í efni
Menning

Óðurinn til gleðinnar í fyrsta skipti á íslensku

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fagnar 30 ára afmæli sínu með flutningi á 9. sinfóníu Beethovens, ásamt kór Akureyrarkirkju og Mótettukórnum, á tónleikum í Hofi sunnudaginn 29. október undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Þetta verður í fyrsta skipti, eftir því sem næst verður komist, sem kvæði Friedrichs Schillers (1759-1805) í lokaþætti sinfóníunnar, eini sungni hluti hennar, verður sungið á íslensku þegar 9. sinfónía Beethovens er flutt í heild. Einsöngvarar verða Herdís Anna Jónasdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gunnar Björn Jónsson og Oddur Arnþór Jónsson, en ásamt þeim syngja kór Akureyrarkirkju og Mótettukórinn.

Beethoven hugsaði út fyrir boxið

Sinfónían er í fjórum þáttum og í lokaþætti hennar bregður svo við að einsöngvarar og kór hefja upp raust og syngja Óðinn til gleðinnar (An die Freude), eða réttara sagt hluta úr þessu kvæði Schillers sem kom fyrst út á prenti 1786. Það sem var óvenjulegt við þessa útfærslu Beethovens á sínum tíma var að þá þekktist ekki að í sinfóníum kæmu fram einsöngvarar eða kór. Ludwig van Beethoven (1770-1827) varð fyrstur til að semja þannig þátt inn í sinfóníu. Gagnrýnendur þess tíma tóku uppátæki Beethovens misvel.

Hann samdi sjálfur stuttan inngangstexta, Æ, vinir, ekki þessa tóna! Syngjum heldur ljúfari söngva, og gleðilegri!, sem leiðir inn í kvæði Schillers, An die Freude. „Hann hugsaði út fyrir boxið og var ekki bundinn af því sem var í gangi í samfélaginu,“ eins og Bjarni Frímann, stjórnandi verksins orðar það þegar rætt er um þessa útfærslu Beethovens.

Friedrich Schiller (1759-1805) orti kvæðið An die Freude sem Matthías Jochumsson (1835-1920) þýddi að hluta.

Listin á að rista dýpra

Kvæði Schillers var einkennandi fyrir tíðarandann í aðdraganda frönsku byltingarinnar þar sem skáldið tjáir hugmyndir um frelsi, jafnrétti og bræðralag, hugmyndir sem féllu vel að hugsunarhætti Beethovens enda hafði hann lengi haft í huga að semja tónverk við þetta kvæði Schillers. Hann samdi 9. Sinfóníuna á árunum 1822-24, eða tæpum fjórum áratugum eftir að kvæðið birtist á prenti. Margt hafði breyst í pólitík og tíðaranda á þeim fjórum áratugum.

Spurður um þann pólitíska jarðveg sem kvæði Schillers og sinfónía Beethovens eru sprottin úr segir hann að honum finnist verkum á borð við þetta of oft vera flaggað í pólitískum tilgangi og nefnir fall Berlínarmúrsins í því sambandi. Hann segist þó ekki vilja gera lítið úr pólitísku hlutverki listarinnar en vill horfa á málin í stærra samhengi.

„Ég lít svo á að skáldið og tónskáldið hafi hugsað þetta í miklu stærra samhengi,“ segir Bjarni. „Ég lít svo á að listin eigi að segja okkur eitthvað um okkur sjálf. Ég er ekki að segja að listin eigi ekki að vera pólitísk og er ekki að gera lítið úr því, en listin þarf að vera miklu meira, rista dýpra en það.”

Mikill talsmaður þess að syngja á íslensku

Níunda sinfónían er eitt af mest fluttu verkum tónlistarsögunnar og hefur oft verið flutt hér á landi, en textarnir í lokaþættinum þó ávallt sungnir á þýsku. Matthías Jochumson (1835-1920) þýddi þann hluta kvæðis Schillers sem Beethoven notaði í lokaþætti sinfóníunnar. Bjarni segir Matthías hafa þýtt kvæðið með söng í huga, ekki eins og hefðbundinn kveðskap til lestrar. Hann er ekki í vafa um að nota íslensku þýðinguna og verða þannig frumkvöðull í flutningi verks eftir annan frumkvöðul.

„Ég er mikill talsmaður þess að syngja á íslensku þegar verk eru flutt fyrir Íslendinga, annað finnst mér tilgerðarlegt. Mér finnst menningarlega mjög þýðingarmikið að syngja á íslensku,“ segir Bjarni og segir kórana sem flytja munu verkið vera með á þeim nótum.

Barnsleg einlægni Matthíasar heillar

Hann segir þýðingu Matthíasar líka mjög góða. „Ég er mikill Matthíasarmaður. Það er þessi barnslega einlægni, þó hann sé ekki naívur, en hann er ekki að gera mjög flókna hluti, það er bara hrein lund og góð persóna sem skín í gegn.“

Bjarni Frímann Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Ljósmynd: Tjörvi Jónsson/Facebook síða Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands

Það sem helst hefur verið fundið að þýðingu Matthíasar, eða verið ástæða þess að þessi texti hefur ekki verið sunginn þegar sinfónían er flutt, er að málfarið sé uppskrúfað og jafnvel torskilið á köflum. En íslenska þýðingin er þó mun yngri en frumtextinn því það eru 237 ár frá því kvæðið kom fyrst út á prenti. Þýska Schillers er því ekki eins og fólk talar hana í dag.

„Merkingin skilar sér þó það sé ein og ein lína séu kannski vandræðalega orðaðar, eins og í þýskunni,” segir Bjarni.

Akureyrartengingin augljós

Það ætti ekki að vefjast fyrir Akureyringum að sjá tenginguna á milli þess að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytji verkið með íslenskri þýðingu Matthíasar Jochumssonar, né heldur aðkoma kórs Akureyrarkirkju. Kirkjan heitir Akureyrarkirkja - kirkja Matthíasar Jochumssonar.

„Það er viðeigandi að nýta texta Matthíasar, því þó hann hafi verið Þorskfirðingur getum við sagt að ef hann átti sér einhvern heimabæ þá var það Akureyri,“ segir Bjarni. Hann nefnir í því sambandi að honum finnist skrýtið að Akureyringar haldi ekki Matthíasarnafninu meira á lofti sem nafni kirkjunnar þar sem Akureyrarkirkja sé, líkt og Hallgrímskirkja í Reykjavík, ein af táknmyndum bæjarins.

Tók við góðu búi af Herði

Kór Akureyrarkirkju og Mótettukórinn í Reykjavík sameinast í söngnum, en Mótettukórinn hefur einmitt verið tengdur Hallgrímskirkju, nær órofa böndum þar til fyrir fáeinum misserum. Akureyringurinn Hörður Áskelsson hefur verið hjartað og sálin í Mótettukórnum til margra ára, en Bjarni tók við stjórn kórsins, að minnsta kosti tímabundið, í leyfi Harðar.

Bjarni er ekki í vafa um að kórarnir muni hljóma vel saman enda naut hann þess að hlýða á kór Akureyrarkirkju í jólamessu í fyrra og segir hann einn af bestu kirkjukórum landsins. Hann er heldur ekki í vafa um gæði Mótettukórsins. „Ég tek við góðu búi frá Herði. Þetta eru einfaldlega svo flinkir og góðir söngvarar, góður andi og mikil samheldni í kórnum, sem ég held að sé arfleifð frá þeim hjónum.“