Fara í efni
Menning

Aðventuævinýri Hnoðra og myndlist í Listagilinu

Frítt er inn á Listasafnið á Akureyri í dag, laugardag, og boðið upp á tvo viðburði.

  • Klukkan 14.00 til 14.40 fer fram örleiðsögn um allar níu sýningar safnsins sem nú standa yfir. Þar munu Hlynur Hallsson, safnstjóri, og fræðslufulltrúarnir Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir segja frá sýningunum og spjalla um verkin.
  • Klukkan 15.00 til 15.15 og 16.00 til 16.15 verður Tólf tóna kortérið á dagskrá. Þar flytur tónlistarfólkið Sóley Björk Einarsdóttir, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Emil Þorri Emilsson jólalega tóna á trompet, selló og slagverk. Á dagskrá verða gömul frönsk jólalög auk þess sem nýtt jólalag eftir Steinunni, Jól í hjarta, verður frumflutt. 

Tólf tóna kortérið er styrkt af Menningarsjóði Akureyrar og Sóknaráætlun Norðurlands eystra og unnið í samstarfi við Listasafnið á Akureyri.
_ _ _

Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri sem gerir út frá Akureyri sýnir jólaleikritið Ævintýri á aðventunni í Samkomuhúsinu á Akureyri í dag, laugardag og á morgun kl. 11.00 í samstarfi við Leikfélag Akureyrar.

Fyrir ári síðan ferðaðist hópurinn með sýninguna um allt Norðurland og skemmti grunnskólabörnum allt frá Vopnafirði til Hvammstanga í samstarfi við List fyrir alla - og sýndi alls 25 sinnum á átta dögum. Fyrir vikið hlaut Hnoðri í norðri Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar í vor fyrir framlag sitt til menningar á landsbyggðinni. Hópnum var svo boðið að taka þátt í barnasviðslistahátíðinni Bitolino í Norður-Makedóníu í sumar, sem þau og gerðu og sprönguðu um með gleði og jólastemningu í 30°C stiga hitabylgju.

Um síðustu helgi var Ævintýri í aðventunni svo sýnt í samstarfi við Stúdíó Handbendi á Hvammstanga og á grunnskólasýningum í Salnum í Kópavogi við mikla gleði.

  • „Ævintýri á aðventunni er eftir tón- og textasnillinginn Þórunni Guðmundsdóttur. Í verkinu koma fyrir misyndælar en rosa jólalegar persónur,“ segir í tilkynningu. „Grýlu finnst góðu börnin verst, en vondu börnin best - á bragðið! Jólakötturinn vill helst bara vera heima í helli að spila á harmonikku og fá börnin flutt þangað með heimsendingarþjónustu. Systurnar Solla (á bláum kjól) og Gunna (á nýju skónum?) verða viðskilja í jólagjafaleiðangri - enda kann Solla hvorki að bíða né að hlýða, þó hún fari nú reyndar jafnan að jólalögunum! Stúfur heitir í raun Sigurður (og dreymir um að eiga upphækkaðan jeppa).“
  • Flytjendur í verkinu eru Björk Níelsdóttir sópransöngkona, Erla Dóra Vogler mezzósópran og Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari. Leikstjóri og leikmyndahönnuður er Jenný Lára Arnórsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir er búningahönnuður.

Nýtt verk hópsins mun svo líta dagsins ljós í febrúar, en það er nýársverkið Skoffín og skringilmenni, sem nýtir allskonar þjóðlegt efni og hjátrú sem byggingarefni og verður einskonar gaman-hryllings ópera. Vonir standa til að nægir styrkir náist til að sýna verkið fyrir elsta stig allra grunnskóla á Norðurlandi sem og að troða upp í nokkrum félagsheimilum í landshlutanum með aðeins kabarettkryddaðri fullorðins útgáfu af verkinu.
_ _ _

Félagar í Myndlistarfélaginu opna myndlistarmessuna KORTER Í JÓL í Mjólkurbúðinni í dag, laugardag 9. desember kl. 14.00. Opið verður um helgar kl. 14.00 - 17.00 og dagana fyrir jól.

  • „Sýningin endurspeglar það sem listamenn hér fyrir norðan eru að fást við og ber vott um gróskumikið listalíf. Flest verkin á messunni eru til sölu. Við hvetjum alla til að koma við í Mjólkurbúðinni!“ segir í tilkynningu.
  • Eftirtaldir listamenn sýna verk sín: Ragnar Hólm Ragnarsson, Ásta Bára Pétursdóttir, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir, Pia Rakel Sverrisdóttir, Helga Björg Jónasardóttir, Hjördís Frímann, Jonna, Jónborg Sigurðardóttir, Karolína Baldvinsdóttir, Guðbjörg Ringsted, Ragnheiður Björk Þórsdóttir, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, Joris Rademaker, Björg Eiríksdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Aðalsteinn Þórsson, Sara Sif, Guðrún Bjarnadóttir, Jóna Bergdal Jakobsdóttir, Ólafur Sveinsson, Sigurður Mar, Rósa Kristín Júlíusdóttir, Karl Guðmundsson, Jónína Mjöll Þormóðsdóttir, Kristján Helgason, Elísabet Ásgrímsdóttir, Hrefna Harðardóttir, Anna Þóra Karlsdóttir, Brynhildur Kristinsdóttir, Jónína Björg Helgadóttir, Arna Guðný Valsdóttir, Erwin van der Weaver, Aðalheiður Eysteinsdóttir, Helga S. Valdemarsdóttir, Gillian Pokalo.