Verslunarmannahelgi: hvernig verður veðrið?

Enn er litið til veðurs. Útlitið hefur almennt verið gott fyrir Akureyringa og gesti þeirra og virðist bara batna með hverjum deginum.
Veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir landið allt næsta sólarhringinn, unnin í morgun, er á þessa leið:
Spáð er vestlægri eða breytilegri átt, 3-8 m/sek. Skýjað verður með köflum og dálitlar skúrir á víð og dreif. Á morgun verður vaxandi suðaustanátt, 8-15 m/sek. og rigning með köflum síðdegis, en hægari og yfirleitt bjart norðaustantil. Annað kvöld hvessir og bætir í úrkomu - sjá nánar um gula viðvörun við suðurströndina og í Vestmannaeyjum neðar í fréttinni.
- Laugardagur: Gengur í sunnan 10-18 m/sek., hvassast vestantil, og víða rigning með köflum. Rofar til á Norðausturlandi og dregur smám saman úr vindi. Hiti 11 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.
- Sunnudagur: Suðvestan 5-13 m/sek. og skúrir, en að mestu bjart norðaustantil. Hægari um kvöldið og dregur úr vætu. Hiti breytist lítið.
- Mánudagur: Suðlæg eða breytileg átt, 3-8 og dálitlar skúrir, einkum síðdegis. Hiti 8 til 14 stig.
Hugleiðingar veðurfræðings
Veðurspá Veðurstofu Íslands fylgja eftirfarandi hugleiðingar veðurfræðings:
Hæglætisveður í dag, skýjað og smáskúrir vestantil á landinu, en bjartara fyrir austan en líkur á síðdegisskúrum þar.
Von er á djúpri lægð á morgun sem mun stjórna veðrinu alla verslunarmannahelgina. Vaxandi suðaustanátt með rigningu á morgun, sérstaklega þegar skilin frá henni fara yfir landið annað kvöld og aðra nótt (aðfaranótt laugardags) en þá má búast við talsverðu vatnsveðri og allhvössum vindi sunnan- og vestanlands. Lægðin ætlar síðan að hringsóla vestan við landið og viðhalda suðlægum áttum og vætu fram á mánudag, en það dregur smám saman úr henni og því ætti að draga úr vindi og úrkomu þegar líður á helgina. Það verður mun minni úrkoma á Norður- og Austurlandi og jafnvel bjart á köflum og hlýtt.
Gul viðvörun við suðurströndina annað kvöld
Fjögurra klukkustunda gul veðurviðvörun er við suðurströndina og í Vestmannaeyjum annað kvöld, föstudagskvöld, kl. 22:00-02:00 aðfararnótt laugardags. Þar er búist við suðasutan 13-18 metrum á sekúndu og talsverðri rigningu. „Tjöld geta fokið og fólk er hvatt til að huga að lausamunum. Einnig snarpar vindhviður við fjöll, varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind,“ segir meðal annars í viðvörun Veðurstofu Íslands.
Engin leið að kvarta
Það er engin leið að kvarta og algjör óþarfi fyrir Akureyringa því það eru góðir dagar fram undan. Að minnsta kosti ef fólk trúir veðurspám og ekki ljúga veðurfræðingar.
Svona er hádegisveðrið í dag og næstu daga á helstu stöðum á vef Veðurstofunnar, gottvedur.is. Skýjað og hlýtt, sól og hlýtt, bara hlýtt og ekki dropa að sjá, að minnsta kosti ekki á Akureyri á þessari mynd.
Engar blikur á lofti hjá Bliku
Blika.is, veðurvefur Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, er enn bjartsýn fyrir hönd Akureyringa, jafnvel þótt það sé á holti við Krossanesbrautina. Dregið hefur ský frá sólu á laugardag og hvergi vott að sjá.
Skaftafellssýslan góð í dag
Suðurlandið, nánar tiltekið hluti Skaftafellssýslunnar, fær sínar fimmtán mínútur af frægð í dag þegar litið er á besta veðrið á vefnum bestavedrid.is kl. 15-20 í dag. Lómagnúpur væntanlega hress með þessa stöðu.
Dásemd fram undan á Akureyri
Eins og áður látum við fylgja myndræna spá fyrir allt landið, tökum stöðuna kl. 15 í dag og næstu daga. Eins og í öðrum spám virðist þróunin vera Akureyringum og gestum þeirra hagstæð. Eiginlega bara dásemd fram undan.
Fimmtudagur 31. júlí kl. 15
Föstudagur 1. ágúst kl. 15
Laugardagur 2. ágúst kl. 15
Sunnudagur 3. ágúst kl. 15
Mánudagur 4. ágúst kl. 15