Fara í efni
Mannlíf

„Öll í einu“ festa sig vonandi í sessi

Magni Ásgeirsson á Akureyrarvelli í gær. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarvöllur verður aðalsvæði hátíðarinnar Einnar með öllu um komandi helgi, verslunarmannahelgina, eins og áður hefur komið fram. Þar verða tívólí alla helgina, sparitónleikarnir – hefðbundinn endapunktur hátíðarinnar – verða á vellinum á sunnudagskvöldinu og sú nýbreytni verður í ár að stórir tónleikar verða á svæðinu á laugardagskvöldið.

  • Rétt er að árétta að tónleikarnir á laugardagskvöldið, Öll í einu, eru ekki hluti hátíðarinnar Einnar með öllu þótt notast sé við sömu aðstöðu, og selt er inn á þá tónleika.

Fallegt og gott svæði

„Ég vona að fólk fjölmenni á laugardagskvöldið og skemmti sér bæði vel og fallega,“ sagði rokksöngvarinn Magni Ásgeirsson þegar Akureyri.net hitti hann á Akureyrarvelli í gær. Hann er einn þeirra sem kemur fram á tónleikunum á laugardagskvöldið, ásamt hljómsveit sinni – Á móti sól.

Magni er nýkominn úr sinni gömlu heimabyggð, Borgarfirði eystri, þar sem tónlistarhátíðin Bræðslan var haldin í 20. skipti um síðustu helgi. Bræðurnir Magni og Heiðar Ásgeirssyni settu hátíðina á laggirnar árið 2005 og hún hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Íbúar á staðnum er um 100 en hátíðina sóttu að þessu sinni um 5.000 manns. „Íbúar“ voru sem sagt 50 sinnum fleiri um helgina en aðra daga ársins!

„Sturluð!“ svaraði Magni um leið og spurt var hvernig Bræðslan hefði verið í ár. Þar með málið að mestu útrætt enda söngvarinn farinn að huga að næsta verkefni, tónleikunum Öll í einu á laugardagskvöldið. „Ég vona sannarlega að þessir tónleikar festi sig í sessi á Akureyrarvelli, þessu fallega og góða svæði. Það væri óskandi að völlurinn yrði notaður meira en verið hefur undanfarin ár,“ sagði Magni í gær.

„Sannkölluð tónlistarveisla,“ sagði í tilkynningu frá tónleikahöldurum á dögunum. Þeir sem koma fram á laugardagskvöldið eru:

  • Friðrik Dór
  • Emmsjé Gauti
  • Birnir
  • GDRN
  • Páll Óskar
  • Á móti sól

Miðar eru seldir á tix.is en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.

Búið er að koma fyrir tívolítækjum á moldarvellinum sem svo var kallaður á árum áður; grassvæðinu austan við Akureyrarvöll, og í gær var hafist handa við að setja upp svið fyrir viðburðina á laugardags- og sunnudagskvöld.

Á sparitónleikunum á sunnudagskvöldið verður einnig valinn maður í hverju rúmi. Þá koma fram:

  • Herra Hnetusmjör
  • Aron Can
  • Friðrik Dór
  • Saint Pete
  • Kristmundur Axel
  • Skandall
  • Tinna Óðins
  • Rúnar Eff
  • Ágúst Þór

Í lok sparitónleikanna sá svo Súlur, björgunarsveitin á Akureyri upp á glæsilega flugeldasýningu að vanda. 

Arnar Freyr Sigþórsson var í þann mund að klára úr málningarrúllunni við aðalhlið Akureyrarvallar þegar Akureyri.net bar að garði síðdegis í gær.