Fara í efni
Mannlíf

Verðlaunaverkefni sem furðulítið er gert með

Á árunum 1991 til 1997 kortlagði hópur manna undir stjórn Ólafs Arnalds jarðvegsrof á Íslandi í tengslum við verkefni sem hlaut nafnið Jarðvegsvernd. Árið 1997 var afraksturinn gefinn út í skýrslu sem heitir Jarðvegsrof á Íslandi og ári seinna, fyrir hartnær 30 árum, hlutu Íslendingar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í fyrsta skipti. „Verðlaunin voru veitt fyrir þetta verkefni. Síðan hefur furðulítið verið gert með niðurstöðurnar. Til er fólk, jafnvel í ábyrgðarstöðum, sem hefur alla tíð afneitað vandanum sem ósjálfbær landnýting hefur leitt af sér. Þetta sama fólk vill sem minnst af þessu verðlaunaverkefni vita,“ segir Sigurður Arnarson í nýjum pistli í röðinni Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Sigurður segir: „Skýrsla þessi á enn fullt erindi við allan almenning og þá sem nýta landið á einn eða annan hátt. Síðan þetta grundvallarrit var gefið út hefur legið fyrir að ástand lands á Íslandi er víða slæmt. Jafnvel mjög slæmt. Á þeim tæpu þrjátíu árum, sem liðin eru frá útgáfu skýrslunnar, hefur mikið vatn runnið til sjávar og sem betur fer hefur landi sums staðar farið fram. Enn eru þó til mjög illa farin svæði á landinu. Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar sem eiga það flestar sameiginlegt að staðfesta niðurstöður skýrslunnar og renna styrkari stoðum undir þær ályktanir sem þar er að finna. “