Fara í efni
Mannlíf

Tillögur um miðbæinn kynntar bæjarbúum

Tillögur að framtíðaruppbyggingu í miðbæ Akureyrar liggja fyrir og verða kynntar á streymisfundi á fimmtudaginn, 10. desember, klukkan 17. Gera má ráð fyrir miklum áhuga bæjarbúa, miðað við umræðuna síðustu ár. Sumum þykir allt of hægt hafa þokast og verður fróðlegt að sjá hvaða sjónarmið koma fram á fundinum. Nægt pláss verður fyrir alla því hver og einn verður „viðstaddur“ þar sem hann kýs, svo fremi hann hafi tölvu eða annað snjalltæki við höndina.

Tillögurnar eru settar fram sem drög að breytingu á deiliskipulagi. Skipulagsráð samþykkti í fyrra að hefja vinnu við breytingar á skipulaginu sem tók gildi 2014, stýrihópur var myndaður í byrjun þessa árs og skilaði hópurinn niðurstöðum í haust.

Breytingar sem nú verða lagðar til eru í samræmi við niðurstöður stýrihópsins. Stefnt er að því að hægt verði að hefja uppbyggingu á hluta svæðisins hið fyrsta.

Fundinum á fimmtudaginn verður streymt á Facebook-síðu Akureyrarbæjar þannig að hver sem er getur fylgst með. Sagt verður frá skipulagsvinnunni og ferlinu framundan, tillögurnar kynntar ítarlega og spurningum svarað. Íbúar og aðrir áhugasamir geta spurt spurninga jafn óðum með því að skrifa í athugasemdir - Comment - og verður þeim svarað í lok fundarins.