Fara í efni
Mannlíf

Þungur rekstur og undirmannað samband

Kvennalandsliðið í blaki vann Evrópumót smáþjóða um helgina. Mynd: bli.is.

Talsverð umræða hefur skapast um aðstæður landsliðsfólks í framhaldi af þátttöku kvennalandsliðsins í blaki á Evrópumóti Smáþjóða, ákvörðun sjö leikmanna meistaraliðs KA að gefa ekki kost á sér í verkefnið og yfirlýsingu þeirra í framhaldinu. Reyndar voru alls átta leikmenn sem fengu boð um að taka þátt í verkefninu, en gáfu ekki kost á sér, samkvæmt upplýsingum frá Blaksambandinu.

Segja má að þetta sé sameiginlegt vandamál minni sérsambandanna, ef svo má að orði komast, hjá sumum nær vandinn yfir bæði A- og yngri landslið, en öðrum ef til vill mest til yngri landsliðanna. Við skoðuðum aðeins aðstæður landsliðsfólks yngri landsliða í körfubolta og þar eru ógnvekjandi tölur um kostnað, ferðalög, fjölda daga sem fólk utan af landi þarf að dvelja í höfuðborginni ætli það að gefa kost á sér í verkefni og svo framvegis. Í umræðunni hafa fleiri íþróttagreinar verið nefndar, eins og íshokkí og handbolti.

Unnu engu að síður til gullverðlauna

Þegar Akureyri.net sagði fyrst frá stöðu mála varðandi kvennalandsliðið í blaki sendi miðillinn nokkrar spurningar til framkvæmdastjóra og formanns Blaksambandsins, en það var nánast í þann mund sem landsliðið var að fara utan og því gafst þeim ekki tími til svara fyrr en að móti loknu. Og vel að merkja, kvennalandsliðið gerði sér lítið fyrir og vann áðurnefnt mót, þrjár úr liðinu voru valdar í úrvalslið mótsins og ein þeirra besti leikmaður mótsins. Maður kemur í manns stað, það er margsannað.

En víkjum þá að þeim upplýsingum sem við fengum hjá Katrínu Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Blaksambandsins.

  • Ferðin á Evrópumót smáþjóða kostaði rúmlega 3,5 milljónir króna.
  • Hver leikmaður þurfti að greiða 120.000 krónur, sem samtals gera 1.680.000 krónur, eða tæplega helmingur af heildarkostnaði við ferðina.

Undirmannað sérsamband

Það hefur þekkst í gegnum tíðina að landsliðsfólk í þessari stöðu taki sig saman undir stjórn sérsambands síns og fari skipulega í fjáröflun fyrir svona ferðir. Við sögðum til dæmis frá verkefni Körfuknattleikssambands Íslands, Þinn styrkur – þeirra styrkur, þar sem almenningi gefst kostur á að leggja sitt af mörkum til að létta undir með unga fólkinu, landsliðsfólki yngri landsliðanna í körfubolta.

Í svari Katrínar kemur fram að Blaksambandið hafi einfaldlega ekki burði til að standa í fjáröflunarverkefnum fyrir þetta verkefni. Vegna þungrar fjárhagsstöðu sambandsins ráði það ekki við nema 1,5 stöðugildi en Katrín segir að til að reka sambandið af fullum krafti svo vel mætti vera þyrftu stöðugildin að vera að minnsta kosti þrjú.

„BLÍ leggur sig fram við að halda úti afreksstarfi því það er mjög mikilvægt að afreksfólk sjái fram á landsliðsverkefni. Því miður er það með þeim formerkjum að afreksfólkið þarf að taka sjálft þátt í kostnaði eins og staðan er núna. Afreksfólk okkar er hvatt til og hefur getað sótt styrki í sitt nærumhverfi, bæjarfélög og héraðssambönd, svo dæmi sé nefnt,“ segir Katrín. Hún segir að þegar valið hefur verið í lokahóp sé ferðakostnaður innanlands greiddur af Blaksambandi Íslands.

Akureyri.net lék forvitni á að vita hvort landsliðsfólk væri í meira mæli að taka þátt í verkefnum innanlands, en gefi svo ekki kost á sér af því að það veigri sér við utanlandsferðum með landsliðinu vegna kostnaðar. Sú vangavelta er ef til vill á misskilningi byggð – og reyndar byggð á sögusögnum einnig – en Katrín bendir á að verkefni landsliðsins hér innanlands séu ekki það mörg að slíkt sé marktækt. Hún segir þó ekki merkjanlegt að fleiri hafi gefið kost á sér í leiki sem spilaðir voru hér á landi á síðastliðnu ári, en kostnaður hafi þá einnig fallið á leikmennina.

Þegar upp er staðið eru líklega flest sammála um að staðan ætti ekki að vera eins og hún er. Fjárhagsstaða Blaksambandsins er mjög þung, eins og Katrín benti á, og segir hún mjög óæskilegt að afreksfólkið okkar sé að greiða sjálft fyrir verkefni sem það fer í fyrir hönd sambandsins, en því miður sé staðan þannig í dag. Sambandið sé undirmannað og ekki hafi gefist ráðrúm í rekstri þess til að leita að styrkjum.