Fara í efni
Mannlíf

Þú mátt ekki gráta, það er svo gaman hérna!

Sigurveig Jónsdóttir og sonur hennar, Jón Steindór Valdimarsson, alþingismaður, stíga léttan dans í …
Sigurveig Jónsdóttir og sonur hennar, Jón Steindór Valdimarsson, alþingismaður, stíga léttan dans í Hrafnagilsstræti 35. Myndina birti Jón Steindór á Facebook síðu sinni í gær, í tilefni dagsins.

Brynjar Karl Óttarsson, kennari og rithöfundur, skrifar margskonar áhugaverðar greinar og birtir á vef sínum, Sagnalist. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti reglulega efni af Sagnalist og hér er fyrsta greinin; merkilegt viðtal við Sigurveigu Jónsdóttur leikkonu, sem Brynjar Karl ræddi við í febrúar árið 2003 þegar hann vann að efnisöflun vegna bókar um sögu berklasjúklinga á Kristneshæli. Sigurveig veiktist af berklum barn að aldri og dvaldist á Hælinu í tæpt ár. Greinin var birt á Sagnalist í gær og fer hér í heild, ásamt stuttum inngangi höfundar.

_ _ _ _

Sigurveig Jónsdóttir leikkona hefði orðið níræð í dag hefði henni enst aldur til. Hún fæddist á Ólafsfirði 10. janúar árið 1931. Á unglingsárum stundaði Sigurveig nám við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Síðar starfaði hún hjá Leikfélagi Akureyrar áður en hún flutti suður yfir heiðar. Sem leikkona lék hún vel á annað hundrað hlutverk á ferli sínum, ýmist á sviði, í útvarpi, sjónvarpi eða í kvikmyndum. Sigurveig lést 3. febrúar árið 2008.

Í febrúar árið 2003 átti undirritaður gott spjall við Sigurveigu á heimili hennar. Á þessum árum var bók um sögu berklasjúklinga á Kristneshæli í vinnslu. Tilgangur heimsóknarinnar var að afla heimilda m.a. með því að ræða dvöl Sigurveigar á Hælinu þegar hún var lítil stúlka. Góðan dagpart sátum við saman, Sigurveig, ég og bróðir minn, drukkum kaffi, gæddum okkur á jólaköku og skröfuðum. Mér er samverustundin eftirminnileg, ekki síst fyrir þær sakir hversu lifandi og skemmtileg Sigurveig var þegar hún sagði frá. Látbragð og andlitsgeiflur glæddu sögurnar hennar miklu lífi.

Aðeins hluti af frásögninni hefur komið fyrir sjónir almennings. Sagnalist skráir tæplega 20 ára gamalt samtal okkar bræðra við leikkonuna geðþekku og miðlar til lesenda á fæðingardegi hennar. Með leyfi aðstandenda birtist frásögn Sigurveigar Jónsdóttur nú í fyrsta skipti undir nafni. Blessuð sé minning hennar.

Kristnesi, 10. janúar 2021,
Brynjar Karl Óttarsson.

_ _ _ _

Ég hef sennilega farið á Hælið í mars. Ætli ég hafi ekki verið svona 10 mánuði. Það var voðalega gaman af því sko að… Hún fékk mig til að gera allan fjandann. [Hér er Sigurveig að tala um verðandi mágkonu sína] Mamma hennar kom svo oft í heimsókn því hún var á Akureyri. Ég fékk miklu sjaldnar heimsóknir því þeir máttu ekki koma sem höfðu ekki berklabakteríuna í sér. Þær fóru alltaf saman í göngutúr og ég fékk að fara með. Svo sagði einu sinni mamma hennar við mig: „Veistu að ég á strák sem er jafngamall og þú. Á ég ekki bara að gefa þér hann!“ Þannig að hún gaf mér hann þarna, 9 ára gamalli. Svo vorum við saman í skóla. Þar voru 3. bekkingar neyddir til að dansa við nýnemana. Einhverjir bentu honum á að þarna væri ein góð að dansa og hann bauð mér upp. Þá byrjaði bara ballið. Þetta var nú svona voða skrítið allt og fyndið. Hann kom aldrei á Hælið með mömmu sinni því hann hafði ekki berklabakteríuna.

Hvernig var tekið á móti þér þegar þú komst fyrst inn á Kristneshæli?

Ég gerði mér enga grein fyrir því að ég væri með sjúkdóm. Svo þegar ég kom inn á stofurnar og sá… æ, þið vitið teppin sem voru alltaf yfir… þá fóru að renna á mig tvær grímur. Þegar ég var komin þarna inn þá fattaði ég það samt ekkert strax að það væri bara ég sem yrði eftir. Svo kemur þarna kona, afskaplega almennileg og fer með okkur inn í dagstofuna og biður okkur að bíða þar. Mér leist bara vel á það, þar var orgel eða píanó. Svo kemur kona og segist ætla að sýna okkur herbergið. Það var alltaf talað um að sýna ykkur herbergið. Svo var farið með okkur þangað og ég er háttuð ofan í rúm. Ég hélt bara að mamma og pabbi hlytu að vera í næsta herbergi. Svo kemur hjúkrunarkonan inn til mín og segir: „Langar þig ekki að sjá þegar þau fara?“ Og enn fattaði ég þetta ekki. Úti var hundslappadrífa, stór snjókorn og hún fer með mig þarna út í glugga. Þá rennur bara allt saman og það var í fyrsta skipti sem ég fór að grenja. Af því þau voru að fara. Ég sá bara á eftir þeim og þá fór bara allt í móðu. Þá fattaði ég að þau ætluðu ekkert að vera hjá mér á Hælinu. Þannig að þetta var svolítið. Þegar ég kom á Hælið hafði ég aldrei sofið ein í rúmi. Svo var ég sett þarna út í horn og það var kona frá Svarfaðardal með mér á stofu og hún hafði svo gaman af því að segja draugasögur að það var ekkert venjulegt. Sagði að það væri reimt niðri í kjallara. Það endaði svo með því að ein konan sagði: „Æi vertu nú ekki að segja þetta, hún verður bara myrkfælin.“ Svo kemur að því að maður þarf að fara að sofa. Ég gat ekki sofið og ég þorði ekki að grenja því það voru þarna tvær konur á stofunni. Svo þegar hann kemur á stofugang hann gamli Rafnar, hann var alveg frábær, þá var hitinn kominn eitthvað mikið upp. Hann sá að ég hafði verið grenjandi alla nóttina og þá sagði hann rámri röddu: „Já þetta gengur nú ekki, þú mátt ekki gráta, það er svo gaman hérna. Svo færðu miklu fleiri gjafir ef þú ert ekki heima hjá þér.“ [Sigurveig hlær] Svo bara eftir þetta þá grenjaði ég aldrei því það var bara oft gaman að vera þarna. Það var svo mikið fjör. Það var farið mjög rólega af stað með mann. Klukkustund fyrst á fótum, svo tvær klukkustundir og svona. Svo var manni leyft að fara út í göngutúr. Mér leiddist aldrei en ég varð ansi fullorðin þarna.

Hvaða hugmyndir hafðirðu um Hælið?

Ég var á Ólafsfirði þegar ég veiktist. Þetta var erfiður vetur og vont í sjóinn. Það var náttúrulega ekkert hægt að fara nema bara með Ester gömlu og við fórum bara með henni. Þá var bryggjan þarna á Ólafsfirði, hún var bara lítil og plankarnir voru alltaf teknir ef það var mikið brim. Það var heilmikið vesen að koma mér um borð þarna því þá var búið að taka flekana af. Þetta var ævintýri bara. Svo fórum við bara með árabát út í skipið. Ég man nú ekki hvernig sú ferð gekk. Sjálfsagt gubbað eitthvað. Maður gerði það yfirleitt fyrir Múlann. Það var alltaf talað um Hælið en ég var ekkert viss um hvað Hælið var. Ég vissi sko ekkert hvert ég var að fara. Það var líka talað um að það væru margir frá Ólafsfirði þar, fullt af fólki sem ég þekkti. Nú mamma vildi ekki fara á mánudegi heldur sunnudegi, samanber sunnudagur til sigurs. Svo það voru bara settir hestar fyrir sleða og svo var svona smá bekkur. Þar var ég rúlluð inn í teppi og ég man eftir því að krakkarnir sem voru þarna úti að leika sér öskruðu: „Ertu með brúsa?“ Ég var bara pökkuð inn, það sást ekki í mig.

Það mátti ekki dansa á Hælinu. En fólk var nú samt svolítið fyrir það að sveifla sér svona. Og ég var þá „útkíkjari“ svona ef að einhver læknirinn var að koma. Þá settust allir niður. Ég var svona mikið fyrir að njósna, ég fylgdist voða mikið með. Það var löglegt að dansa einu sinni á ári en það var á afmæli Hælisins. Það voru alltaf einhverjir sem kunnu að spila. Það var ekkert barn þarna nema ég og ég fylgdist með hverjir voru svona…já…að ná saman og svona. Þá var ég eins og spæjari sko. Var að gá hvar þau voru. Ég vissi nákvæmlega hvar stefnumótin voru, já já. Það var alltaf eitthvert kelerí einhvers staðar. Þegar var hringt á kvöldin og verið að spyrja um sjúklinga og þá vissi ég alltaf hvar viðkomandi var. Það var til dæmis svona klefi inn á Hælinu sem sýningarstjórinn var inni í þegar var verið að sýna bíó. Við fengum alltaf bíómyndir sendar. Ég vissi það að þau voru oft inni í þessum klefa. Svo að ég sagði: „Já já ég skal reyna að finna hann.“ Svo fór ég bara og bankaði á klefann og sagði „heyrðu ég veit alveg að þið eruð þarna inni, það er verið að biðja um þig í símann.“ [Sigurveig hlær dátt þegar hún rifjar þetta upp] Þetta var allt svona sko. Prakkarastrik.

Það var oft sem var komið til að skemmta fólkinu á Hælinu. Ég man eftir því að…hvað hét hún nú? Hún var dökkhærð, alveg svona svart hár og í síðum kjól með rosalega stóru belti sem hún gerði hnút á. Hún var að dilla á sér maganum og gerði allavega kúnstir. Ég man ekkert hvað hún hét. Hún var með svona grín í þessu líka. Mér fannst þetta svo æðislegt. Ég gleymi því aldrei, hún söng lag sem ég man nú ekki hvað heitir, [Sigurveig tekur sig til og syngur bút úr laginu]

come on here
come on there
come on Alexander’s ragtime band.

Og karlarnir voru hafðir fremstir, þeir gömlu sem heyrðu svo illa og þeir stóðu allir upp og… já þetta var svo fyndið allt saman. Mér fannst hún svo skemmtileg og það var ekkert annað en það að niðri í kjallaranum, þar voru sko burstaðir skórnir og þar var nóg af brúnum og svörtum skóáburði. Ég fór þarna niður og makaði mig úr svörtum… hárið á mér var alveg kolsvart. Svo náttúrulega lak þetta niður á andlitið mitt. Svo fór ég upp á öll herbergi, svona kolsvört og söng og söng þetta lag. Svo var ég gripin og þetta ætlaði aldrei að nást. Það var heilmikið vesen. Það var skrúbbað en gekk ekki neitt. Þannig að það var svona ýmislegt sem mér datt í hug þarna. Jónas gamli Rafnar var hinn rólegasti yfir þessu. Hann var nú einhvern tímann spurður að því hvort það væri ekki alltof mikið svona… eitthvað… dúll þarna. Hann svaraði „ja þetta fylgir þessu, þetta fylgir þessum berklum. Það þarf eitthvað að dilla sér svona til að hafa það skemmtilegt.“ Ég man ekki hvaða kórar komu en það komu oft skemmti… nú svo sá ég náttúrulega allar kvikmyndir. Ég fékk að sjá þær allar þó þær væru bannaðar. Ég var eini krakkinn þarna, það var ekki hægt að láta mig vera eina utan við það. Í einni myndinni man ég að það var ein stúlka sem varð eftir í frumskógi og hún var alltaf að skjóta svona spjóti sér til matar og klifra upp í tré. Það var náttúrulega eins og við manninn mælt. Ég þurfti að fá spýtu og festist svo upp í trénu. Já já, það kom einhver hlaupandi til að ná mér niður. Já það var mikið fjör og fólkið skemmti sér vel. Það mátti ekki fara í sund og það var sundlaug þarna á Hrafnagili. Þeir stálust í það. Já já, þetta var allt svona skemmtilegt. Ég man ekki eftir því að sjúklingar væru að setja upp leikrit. Það var kona, ég held hún hafi verið frá Siglufirði og kölluð Gunna, sem var andskoti sniðug bæði með að gera svona vísur og… þetta er nú ekki að marka, ég er 72 ára og þetta var þegar ég var 9 ára.

Þeir sem voru þokkalega frískir voru mikið í handavinnu. Það voru margar alveg óskaplega mikið veikar. Og jú jú það var… það var verið að prjóna og allt mögulegt verið að búa til. Ég man til dæmis eftir, það var óskaplega fallegt, það var svona eins og mynda…þú veist. Maður tók þetta svona og þá voru myndir báðum megin, kannski af kærastanum. Voðalega fallegt á litinn, kannski úr rauðu silki og svona. Maður þurfti að vera svo flinkur til að geta gert þetta.

Var farið í ferðalög? Fengu sjúklingar heimsóknir?

Það var farið t.d. fram á Grund og kirkjan skoðuð. Það er einhver skógur þar minnir mig og við fengum að fara þangað. Ég man nú ekki eftir neinum ferðalögum. Ég fékk ekki mikið af heimsóknum, sko frá Ólafsfirði en systir mín kom nú þótt hún væri ekki með bakteríuna. Svo náttúrulega þeir sem komu til Sigrúnar heitinnar, mágkonu minnar, sem dóttir mín heitir í höfuðið á. Ég var alltaf í pilsunum á Stefaníu heitinnar, mömmu hennar.

Hvernig upplifðir þú jólin á meðan á dvölinni stóð?

Ég fékk að fara heim. Gamli Rafnar sagði við mig: „Viltu ekki bara vera hérna, þú færð miklu fleiri pakka ef þú ert hérna.“ Eiginlega var þetta prófun að leyfa mér að fara heim. Ég vildi það náttúrulega. En svo gekk þetta bara alveg ljómandi vel. Ég fór því ekkert heim um jól. Nei nei, Rafnar sagði að ég fengi miklu meiri pakka þarna og það reyndist rétt. Ég var náttúrulega eini krakkinn þarna. Það var skreytt og gert jólalegt. Svo man ég að það var búið til pils fyrir mig úr… [einhverju ákveðnu efni sem Sigurveig kemur ekki fyrir sér hvað er] og svo var eitthvað verið að reyna að gera mig fína og svo átti ég að syngja fyrir fólkið. Þeir sjúklingar sem ekki komust niður voru með einhver tól og þeir heyrðu hvað var verið að gera. Þá var ég að syngja eitthvað fyrir þá þarna og svo hringdi mamma í mig og þá sagði ég við hana: „Heyrðirðu ekki í mér í útvarpinu?“ Ég hélt að ég hefði verið í útvarpinu. [Sigurveig hlær innilega] Nei hún hafði alveg misst af því. Ég eignaðist smá aura því að þegar ég var nú að njósna eitthvað þá fékk ég stundum fimmeyring eða eitthvað lítið svona. Ég safnaði þessu öllu fyrir jólagjöf handa mömmu. Ég var búin að safna það mikið þegar kom að því að kaupa gjöfina að ég gat keypt lítinn dúk sem passaði á eldhúsborðið heima.

Fékkstu einhverja kennslu?

Ekki í skóla, ekki á Hælinu. Ég var nú orðin læs og ég kunni að leggja saman og svona, einhverjar lágar tölur. Ég var búin að læra það. Það sem mér fannst dálítið vont þegar ég kom heim var að ég var látin fara í sama bekk og ég hafði verið. Þá voru þau farin að deila og svona miklu meira en ég gat. Síðan alla tíð fram á þennan dag finnst mér ég ekki geta reiknað. Þetta fór svo…já. Ég man nú ekki eftir því að ég skrifaði foreldrum mínum bréf en ég var búin að læra að skrifa. Eitthvað var nú um það að sjúklingarnir væru að fá póst. Það var bókasafn þarna. Það var alltaf hægt að fá bækur og það var mikið lesið.

Blómstraði ástin á Kristneshæli?

Já elskan mín, það var voða mikið um það. Hvað átti fólkið að gera? Rafnar sagði að þetta fylgdi berklunum. Þetta var fólk sem var bæði gift og svona en… ég man ekki eftir neinu hjónabandi sem varð til úr þessu. Ég vissi af fólki þarna frá Ólafsfirði sem var gift og makinn var á Ólafsfirði. Ég held ég gleymi aldrei þessari veru þarna og mér leiddist aldrei.

Hvernig var maturinn?

Ja ég át allt. Það getur vel verið að fólk hafi verið orðið leitt á matnum en ég setti það ekkert fyrir mig. Ég held ég hafi nú bara borðað ágætlega enda fitnaði ég alveg hreint. Krakkarnir sögðu þegar ég kom heim: „Þú ert ólétt, þú ert ólétt.“ Þá fór ég til mömmu og sagði; „mamma er ég ólétt?“ [Sigurveig hlær].

Það var alltaf haft opið. Það voru aldrei lokaðir gluggar því það var náttúrulega súrefnið sem… og svo var maður rekinn á göngu. Það var voða mikið atriði að fara út á göngu og þá var maður bara dúðaður ef það var vont veður og svona. Jú jú, það var heilmikið um það. Ég átti það nú til að fela mig einhvers staðar til að sleppa við þagnartímann en yfirleitt fundu þær mig sko. Þær vissu um hérumbil alla felustaðina sem ég var búin að finna. Maður lét sig svo bara hafa það að liggja þarna eins og dauð. Ég fór upp í fjall, í einhverjar skorður þar og upp í móa og alltaf fundu þær mig og komu mér upp í rúmið. Hjúkrunarkonan sem mér þótti vænst um, ég held hún hafi heitið Steinunn.

Varðst þú einhvern tímann vör við hræðslu og eða örvæntingu meðal sjúklinga? Dóu einhverjir á Hælinu þann tíma sem þú varst þar?

Það var ótrúlegt hvað… fólk talaði bara ekkert um þetta. Ég áttaði mig aldrei á hversu alvarlegt ástandið var, sem betur fer. Mér datt það aldrei í hug. Ef ég hafði verið 12 ára þá hefði ég kannski áttað mig á því. Já, já. Það var stelpa þarna sem kom framan úr Eyjafirði alveg frá Saurbæjarhreppi. Það komu sko alveg heilu fjölskyldurnar. Það kom ein 14 ára og ég sat hjá rúminu hennar meira og minna þó að hún væri… sko hún gat ekkert talað eða neitt. Mér náttúrulega datt aldrei í hug að hún væri að fara. Ég sá að þarna myndi ein vera komin sem ég gæti leikið mér við. Svo dó hún bara fljótt. Það voru alveg afskaplega margir sem dóu þarna. Ég skildi þetta ekki alveg og velti mikið fyrir mér hvers vegna fólkið væri að dansa og syngja þegar hún væri dáin. Ég var voða hneyksluð. „Já við vitum það“, sagði fólkið. Þetta var bara daglegt brauð.

Þetta var mjög merkilegur tími. Að vera svona lengi án mömmu og pabba. Maður tók út mikinn þroska á Hælinu.

(Viðtal var tekið 16. febrúar 2003)

Fleiri greinar á vef Sagnalistar