Fara í efni
Mannlíf

Sagnalist: Vigdís, Karl og málverkið

  • Brynjar Karl Óttarsson, kennari og rithöfundur, skrifar margskonar áhugaverðar greinar og birtir á vef sínum, Sagnalist. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti reglulega efni af Sagnalist. Þetta er sjöunda grein Brynjars Karls.

_ _ _

Í tveimur nýjum hlaðvarpsþáttum í þáttaröðinni Sagnalist með Adda og Binna ræða þeir félagar Arnar Birgir og Brynjar Karl um heimsóknir íslensku forsetanna sex til Eyjafjarðar á árunum 1951 – 2017. Heimsókn frú Vigdísar Finnbogadóttur sumarið 1981 er eins og rauður þráður í gegnum frásögnina.

Vigdís var stödd á Akureyri miðvikudaginn 15. júlí. Heimsókn hennar var hluti af vikulangri ferð forsetans um Norðurland. Ferðin var jafnframt fyrsta opinbera heimsókn Vigdísar í embætti forseta Íslands í landshlutanum. Í ágúst 1980, þegar Vigdís hafði setið á forsetastóli í tæpar tvær vikur, kom fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn að heimsækja hana á Bessastaði. Sá var reyndar verðandi þjóðhöfðingi á þeim tíma og átti eftir að þjóna sem slíkur næstu 42 árin, allt þar til hann varð konungur Bretlands í september síðastliðnum. Karl Bretaprins snæddi hádegisverð með Vigdísi áður en hann hélt leið sinni áfram til Vopnafjarðar. Hann skyldi renna fyrir laxi í Hofsá.

Frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands tekur á móti Karli Bretaprins á Bessastöðum í ágúst árið 1980.

Breski leikarinn Josh O´Connor í hlutverki Karls Bretaprins við veiðar í Hofsá í Netflix þáttaseríunni The Crown.

Karl þekkti vel til Hofsár þegar kom að veiðiferðinni í ágúst 1980. Hann hafði oft og tíðum veitt í ánni á áttunda áratugnum. Áin var í miklu uppáhaldi hjá prinsinum og þá sérstaklega svokallaður Tunguselshylur. Ein var sú veiðiferð Karls í Hofsá sem reyndist líklega örlagaríkari en allar hinar til samans. Hörmuleg tíðindi bárust erlendis frá um að írski lýðveldisherinn hefði ráðið ömmubróður Karls af dögum ásamt tveimur öðrum á meðan þeir voru á siglingu í Donegal-flóa við Írlandsstrendur. Mountbatten jarl og Karl voru mjög nánir. Hamagangurinn á bökkum Hofsár hefur því verið einhver þegar fréttirnar bárust prinsinum til eyrna þar sem hann stóð með veiðistöngina sína og átti sér einskis ills von.

Tveimur vikum eftir heimsókn Vigdísar til Akureyrar – upp á dag – miðvikudaginn 29. júlí var hún komin til London þar sem hún var viðstödd brúðkaup Karls og Díönu Spencer. Brúðkaup aldarinnar. Vigdís hafði í farteskinu málverk sem ætlað var brúðhjónunum. Gjöf frá forseta Íslands og íslensku þjóðinni. Listmálarinn Eiríkur Smith málaði myndina að ósk Vigdísar.

Mynd sem birtist í Morgunblaðinu af málverkinu sem Vigdís færði Karli og Díönu að gjöf 29. júlí 1981

Forsagan er sú að Vigdís setti sig í samband við Eirík í júlíbyrjun og óskaði eftir því að hann málaði mynd af Tunguselshyl í Hofsá. Aðdragandinn var stuttur og málarinn þurfti því að hafa hraðar hendur. Hann dreif sig norður til Akureyrar þaðan sem hann hafði ætlað sér að fljúga til Vopnafjarðar. Vont veður kom í veg fyrir flug en svo heppilega vildi til að á Akureyri hitti Eiríkur mann sem bauðst til að aka honum austur. Eiríkur þáði boðið og saman keyrðu þeir í leiðindaveðri til Vopnafjarðar. Þegar þangað kom hélt Eiríkur í fylgd góðra manna að Hofsá til að búa til skissur og taka ljósmyndir. Ekki batnaði veðrið svo málarinn ákvað að staldra ekki lengi við, heldur drífa sig aftur suður til að fullklára verkið. Vinnan gekk hratt og örugglega fyrir sig á vinnustofunni. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig fékk Eiríkur reynslumikla veiðimenn til að taka verkið út, „hvort myndin væri veiðileg og hvort litir árinnar og strengir í henni væru eins og þeir ættu að vera við þessar aðstæður.“ Mat þeirra var að veðrið hefði hjálpað til við að skapa rétt andrúmsloft í málverkinu þar sem dumbungur og rigningarsuddi væru kjöraðstæður veiðimannsins. Málverkið var tilbúið um það leyti sem Vigdís var að undirbúa brottför frá Akureyri til Reykjavíkur þann 16. júlí. Daginn eftir að hún kom heim úr fræknu ferðalagi sínu um Norðurland, mætti Eiríkur á Bessastaði með málverkið undir höndunum. Vigdís var ánægð með útkomuna og því ekkert eftir að gera annað en að pakka því í fallegan gjafapappír og koma því á áfangastað í London.

Þegar þarna er komið sögu fer heimildum um málverkið fækkandi. Ekki voru þær margar fyrir. Upplýsingar og ljósmyndir af málverkinu virðast þannig vera af skornum skammti. Sömu sögu er að segja um ljósmyndir af Vigdísi í brúðkaupinu. Sagnalist lék forvitni á að vita hvort veraldarvefurinn geymi upplýsingar um afdrif málverksins eftir stóra daginn í júlí 1981. Hvað gerðu brúðhjónin við myndina af Tunguselshyl? Eru yfirhöfuð einhverjar upplýsingar aðgengilegar um brúðargjöfina sem við öll gáfum brúðhjónunum í brúðkaupi aldarinnar? Óformleg könnun á netinu skilaði litlu sem engu - fyrir utan tvær áhugaverðar ljósmyndir.

Búið að raða brúðargjöfunum upp sem Karl og Díana fengu í brúðkaupi aldarinnar. Fyrir miðju er glerskál frá Ronald og Nancy Reagan. Til vinstri hangir málverk Eiríks Smith af Tunguselshyl í Hofsá, gjöf frá Vigdísi og íslensku þjóðinni.

Önnur er tekin í Dóm­kirkju heil­ags Páls þar sem brúðkaupið fór fram. Nancy Reagan forsetafrú Bandaríkjanna er fyrir miðri mynd með þjóðarleiðtoga allt um kring. Eiginmaður hennar, Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, er hvergi sjáanlegur. Hann átti ekki heimangengt sökum anna heima fyrir. Þá hefur hann kannski verið að ná sér eftir morðtilræðið við hann í Washington fjórum mánuðum fyrir brúðkaupið. Ekki verður annað séð en að konan sem situr Nancy á hægri hönd í Dómkirkjunni sé Vigdís Finnbogadóttir. Hin myndin sýnir brúðargjafirnar sem Karl og Díana fengu, þar sem búið er að koma þeim haganlega fyrir eftir brúðkaupið í betri stofunni (Throne Room) í St. James´s Palace. Fremst á myndinni sést forláta glerskál sem Ronald og Nancy Reagan gáfu Karli og Díönu. Til vinstri á myndinni má sjá nokkur málverk sem búið er að koma fyrir á hvítum bakgrunni. Enginn vafi leikur á því að þarna hangir Tunguselshylur Eiríks Smith, gjöfin sem við gáfum Karli og Díönu.

Gaman væri að vita hvar málverkið er niðurkomið. Hangir það á vegg í alfaraleið í einum af köstulum konungsfjölskyldunnar? Kannski laðar það fram nostalgískar minningar konungs um rólegar og notalegar stundir ungs prins í tilhugalífi í íslenskri náttúru. Kannski ýfir málverkið upp gömul sár og erfiðar minningar um sáran ástvinamissi og togstreitu í einkalífi. Lengra kemst Sagnalist ekki í þessari óformlegu könnun á örlögum Tunguselshyls.

Hvítklæddar Vigdís Finnbogadóttir og Nancy Reagan sitja hlið við hlið í Dómkirkju heilags Páls og fylgjast með þegar Karl og Díana ganga í hjónaband.

Stuðst var við eftirtaldar heimildir: 

Morgunblaðið – 194. tölublað (28.08. 1980) forsíða & baksíða.

Morgunblaðið – 158. tölublað (18.07. 1981) bls. 2.

Morgunblaðið – 167. tölublað (31.07. 1981) bls. 3.

Tíminn – 170. tölublað (02.08. 1981) bls. 8.Þjóðviljinn – 189. tölublað (21.08. 1980) bls. bls. 2.

https://www.huffingtonpost.co.uk/entry/royal-wedding-gifts-history_uk_5a6b37d0e4b0ddb658c5bb3f

https://www.prints-online.com/royal-wedding-1981-nancy-reagan-4488215.html

  • Hægt er að hlusta á þættina tvo - Forsetar á faraldsfæti - á Spotify-síðu Sagnalistar með því að smella á slóðirnar hér að neðan.

https://open.spotify.com/episode/48TMYpWANTrzzFOKjUS0Pa?si=64b0a75a5e5a491e

https://open.spotify.com/episode/5knz3xWEn7gZkNAwPsgy03?si=e37b2ee8e6c446df