Fara í efni
Mannlíf

Þrjú mörk og þrjú stig í sarpinn – MYNDIR

Þórsarar fagna öðru marki Alexanders Más Þorlákssonar í gærkvöldi. Frá vinstri: Harley Willard, Alexander Már, Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Kristófer Kristjánsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu annan leikinn í röð í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, þegar KV kom í heimsókn í gær. Leikurinn fór 3:1 og Þórsliðið hefur þar með gert átta mörk í tveimur leikjum.

_ _ _

FYRSTA MARK LEIKSINS
Óhætt er að segja að Alexander Már Þorláksson hafi byrjað vel með Þór. Hann kom frá Fram á dögunum og hefur nú gert þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjunum. Alexander náði forystunni í gær á 47. mín. eftir mjög góða sendingu Nikola Kristins Stojanovic inn fyrir vörnina; markaskorarinn kom boltanum framhjá Ómari Castaldo Einarssyni markverði með fyrstu snertingu og eftirleikurinn var auðveldur.

_ _ _

ALEXANDER SKORAR AFTUR
Þór komst í 2:0 á 54. mínútu. Harley Willard sendi boltann hárnákvæmt á milli miðvarða KV, Alexander Már stakk þá af og skoraði framhjá Ómari markverði.

_ _ _

WILLARD GERIR ÞRIÐJA MARKIÐ
Harley Willard gerði þriðja mark Þórs á 75. mínútu. Þórsarar náðu boltanum á miðju vallarins og Aron Ingi Magnússon tók á sprett í átt að vítateig KV. Þegar varnarmaður sótti að Aroni sendi hann boltann til hægri á Willard, sem skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í fjærhornið.

_ _ _

KV MINNKAR MUNINN
Björn Axel Guðjónsson skoraði fyrir KV á 88. mínútu eftir hornspyrnu. Boltinn var skallaður niður til Björns þar sem hann var óvaldaður í grennd við fjærstöngina og átti auðvelt með að koma KV á blað.