Fara í efni
Mannlíf

Þórssigur í fyrsta leik – MYNDIR

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fengu óskabyrjun í Lengjudeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi þegar þeir sigruðu Kórdrengi 1:0 í Boganum í skemmtilegum hörkuleik. Það var Harley Willard sem gerði eina markið þegar skammt lifði leiks.

Hér er umfjöllun Akureyri.net um leikinn og myndasyrpa hér að neðan.

_ _ _

Líf og fjör Viðureign liðanna var athyglisverð, hart barist eins og vera ber, fínt spil á köflum, og mikið fjör innan sem utan vallar.

_ _ _

„Hvolpasveitin“ Þrír leikmenn í byrjunarliði Þórs í gær eru fæddir 2004; Bjarni Guðjón Brynjólfsson, á efstu myndinni hér að neðan, varð 18 ára í febrúar en Aron Ingi Magnússon fyrir miðju, sem vildi fá víti í þessu tilfelli en fékk ekki, og Kristófer Kristjánsson á neðstu myndinni, ná þeim áfanga á síðari hluta ársins. „Við köllum þá hvolpasveitina,“ sagði Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, í léttum dúr í viðtali við fotbolta.net eftir leikinn

_ _ _

Ekki alveg sammála! Sveinn Arnarsson dómari lyfti gula spjaldinu nokkrum sinnum í gær. Leikmenn eru sjaldnast sammála þeim úrskurði dómarans og Guðmann Þórisson, fyrirliði Kórdrengja, var það svo sannarlega ekki þegar Sveinn áminnti hann fyrir brot á framherjanum Jewook Woo snemma í seinni hálfleik.

_ _ _

Víti? Bjarni Guðjón Brynjólfsson þrumaði á markið frá vítateigslínu á 66. mínútu, Guðmann Þórisson henti sér fyrir boltann og leikmenn Þórs og stuðningsmenn heimtuðu vítaspyrnu. Dómarinn var ekki sammála en ekki er annað sjá en boltinn hafi farið í báðar hendur leikmannsins. Það er svo dómaranna að meta hvort hendur hafi verið í náttúrulegri stöðu, eins og það er kallað.

_ _ _

1:0 Það var á 88. mínútu, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af hefðbundunum leiktíma, að Harley Willard gerði eina mark leiksins. Jewook Woo fékk boltann á vinstri kantinum og átti glæsilega sendingu á milli varnarmanna á Willard, sem komst einn gegn Óskari Sigþórssyni markmanni. Willard lék á markmanninn, var í þröngu færi nærri endalínu vinstra megin en gerði mjög vel að skora. Kórdrengir töldu Willard rangstæðan en á efstu myndinni hér að neðan sést í fót varnarmanns lengst til hægri sem augljóslega er nær marki sínu en sóknarmaðurinn þegar boltanum er spyrnt.

_ _ _

Fögnuður Þórsarar voru himinlifandi í leikslok, eftir dýrmætan sigur í upphafi móts. Á efri myndinni eru Jewook Woo og Þorlákur Árnason, þjálfari, og þeirri neðri Kristófer Kristjánsson, Harley Willard og Sammie McLeod.