Fara í efni
Mannlíf

Þórsarar taka á móti Vesturbæjarliðinu KV

Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði tvö mörk í síðasta leik, gegn Þrótti úr Vogum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór fær Knattspyrnufélag Vesturbæjar í heimsókn í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmóts karla í knattspyrnu. 

Eftir níu umferðir í deildinni er KV í næst neðsta sæti með sjö stig og Þór aðeins einu stigi ofar.

Félögin leika nú í fyrsta skipti í sömu deild en hafa þó mæst einu sinni áður; í Lengjubikarkeppni KSÍ 26. febrúar í vetur í Boganum. Þá varð jafntefli, 3:3, og skoruðu þeir Harley Bryn Willard, Kristófer Kristjánsson og Sigfús Fannar Gunnarsson mörk Þórs.

Þórsurum hefur gengið illa að skora í sumar, þar til flóðgáttirnar opnuðust í síðustu umferð þegar þeir fengu Þrótt úr Vogum í heimsókn. Sá leikur fór 5:0. KV gerði sér lítið fyrir í síðustu umferð og lagði Vestra að velli á Ísafirði, 4:2, þannig að liðið er greinilega sýnd veiði en ekki gefin.

Leikurinn á Þórsvellinum (SaltPay vellinum) hefst klukkan 18.00.