Fara í efni
Mannlíf

Þórsarar taka á móti liði Þróttar úr Vogum

Bjarki Þór Viðarsson, fyrirliði Þórs, aðgangsharður við mark Selfoss á Þórsvellinum um daginn. Sigfús Fannar Gunnarsson fyrir miðri mynd. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tekur á móti Þrótti úr Vogum í kvöld klukkan 19.15 í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn fer fram á Þórsvellinum (SaltPay vellinum). 

Lið Þróttar er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins tvö stig að loknum sjö leikjum. Liðið hefur gert tvö mörk en fengið 14 á sig.

Þórsarar, sem eru í þriðja neðsta sæti, hafa átt misjafna leiki undanfarið; þeir léku illa gegn Aftureldingu í síðustu umferð og töpuðu í Mosfellsbænum. Frammistaðan hefur verið góð í sumum leikjum en liðinu hefur engu að síður gengið illa að skora. Þór hefur gert átta mörk í jafn mörgum leikjum og er með fimm stig.

Tveir leikmenn sömdu við Þór á dögunum og verða báðir löglegir í kvöld; Alexander Már Þorláksson, 27 ára framherji sem kom frá Fram, og Ian Perello, 24 ára spænskur miðjumaður. Hann kom til Þórs frá Hetti/Hugin sem leikur í 2. deild.