Fara í efni
Mannlíf

Þórsarar klaufar að tapa fyrir toppliðinu

Kristófer Kristjánsson fór oft illa með varnarmenn Selfyssinga en það dugði ekki til. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Selfyssingar fögnuðu 2:0 sigri á Þór í kvöld í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Það er í raun með ólíkindum að gestirnir færu með öll stigin á brott því Þórsarar léku prýðilega, sóttu miklu meira og fengu góð tækifæri til að skora.

Segja má að heppnin hafi verið með toppliðinu í kvöld; í fyrsta lagi gat fyrirliðinn, framherjinn Gary Martin, prísað sig sælan að fá ekki rautt spjald eftir tæpan hálftíma og í öðru lagi fór boltinn í hönd Arons Einarssonar og hrökk þaðan til Gonzalo Zamorano sem gerði fyrra markið á 40. mínútu. En Zamorano gerði mjög vel, það má hann eiga.

Gary Martin fékk gult spjald fyrir brot á Harley Willard á 25. mínútu og aðeins um tveimur mín. síðar fór hann hressilega í Hermann Helga Rúnarsson sem lá eftir, en Pétur dómari Guðmundsson sá reyndar ekki einu sinni ástæðu til þess að blása í flautuna, sem var einkennilegt. Seint í leiknum braut Gary á Kristófer Kristjánssyni, Þórsarar fengu þá aukaspyrnu en Gary slapp við spjald og Dean Martin, þjálfari Selfyssinga, var fljótur að skipta fyrirliða sínum af velli eftir atvikið.

Varnarleikur Þórsliðsins á miðsvæðinu var slakur áður en Selfyssingar gerðu fyrra markið en boltinn fór í hönd Arons sem fyrr segir, þegar hann barðist um boltann við Bjarka Þór Viðarsson; höndin var ekki upp við líkamann en Pétur dómari var beint fyrir aftan Aron og sá  því væntanlega ekki atvikið og aðstoðarmenn hans ekki heldur. 

Það var Hrvoje Tokic sem gulltryggði sigur gestanna þegar hann skoraði með skalla á 58. mínútu. Lítil hætta virtist á ferðum; Selfyssingar áttu innkast vinstra megin, Aron Darri Auðunsson fékk nægan tíma til að taka boltann iður og senda fyrir markið þar sem Tokic var illa valdaður og skoraði auðveldlega.

Eftir fimm umferðir hafa Selfyssingar 13 stig á toppi deildarinnar en Þórsarar eru með fimm stig.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna 

Bjarki Þór Viðarsson, fyrirliði Þórs (númer 30), skallar að marki seint í leiknum. Boltinn small í stönginni og fór þaðan út í vítateiginn.