Fara í efni
Mannlíf

Þór tapaði – rangur maður rekinn af velli

Orri Sigurjónsson, til vinstri, og Hermann Helgi Rúnarsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar urðu að játa sig sigraða á Selfossi í kvöld, 2:1, gegn heimamönnum í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. 

Byrjun leiksins var skrautleg því Harley Willard skoraði fyrir Þór þegar aðeins 20 sekúndur voru liðnar, eftir mistök í vörn heimaliðsins! Selfoss jafnaði úr víti eftir korter og eftir rúman hálftíma var Hermann Helgi Rúnarsson rekinn af velli fyrir meint brot á framherjanum Tokic sem var að sleppa í gegn. Hermann sætti við ekki við úrskurð dómarans, hins þrautreynda Erlends Eiríkssonar, og þrætti lengi við hann. 

„Hermann búinn að rökræða við dómarann í 3 mínútur og hann neitar að fara út af en strunsar út af þegar Erlendur hótar að halda á honum inní búningsklefana,“ sagði í lýsingu á leiknum á fotbolta.net. Skýringin á þessu kom í ljós síðar: Hermann var alsaklaus því það var Orri Sigurjónsson, samherji hans, sem hafði brotið á Tokic ...

Þórsarar léku vel þrátt fyrir að vera einum færri í tæpan klukkutíma, voru betri á köflum og nálægt því að skora en tókst ekki. Það gerði hins vegar framherjinn Gary Martin fyrir Selfyssinga á 62. mínútu. Markið var sannarlega óvenjulegt; Þórsarar áttu aukaspyrnu á vinstri kantinum, Stefán markvörður Selfyssinga greip boltann þegar hann kom fyrir markið og sparkaði strax hátt upp í loftið og langt fram völlinn. Boltinn skoppaði einu sinni og Martin tók hann svo í fyrstu snertingu, utarlega í teignum, og þrumaði í netið.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.