„Það er stöðug æfing, að hægja á“
Að missa foreldri er alltaf djúpt sár, sama á hvaða aldri fólk er. Eyþór Ingi Jónsson, tónlistarmaður og ljósmyndari, missti pabba sinn, Jón Jóel Benediktsson, í maí síðastliðnum eftir erfiða baráttu við krabbamein. „Það er svo skrítið að segja það, en þó að það hafi verið ólýsanlega erfitt að missa pabba, þá hafði það mjög góð áhrif á mig,“ segir Eyþór. „Ég hef dýpkað tengslin við systur mínar tvær og við erum í mjög miklum samskiptum, en þær búa báðar fyrir sunnan. Svo náði ég að kynnast pabba mínum ennþá betur á þessum tíma sem hann var veikur.“
Þetta er annar hluti viðtalsins við Eyþór Inga.
- Í GÆR – „AÐ MISSA PABBA MINN BREYTTI MÉR“
- Á MORGUN – NÁTTÚRAN OG ÚTIVERAN BESTA SORGARMEÐALIÐ
„Ég hafði aldrei þörf fyrir það, sem ungur maður, að vera mikið í samskiptum við fjölskylduna. Ég átti eitthvað erfitt með símasamskipti. En eftir að pabbi veiktist hringdi ég í hann daglega, fór miklu oftar vestur en ég hafði gert, og svo gaf þetta mér dýrmæta tengingu við æskuslóðirnar,“ segir Eyþór, en hann bjó sér til ljósmyndaverkefni þar sem hann ferðaðist um Dalina og tók myndir. „Ég ólst upp í sveit rétt hjá Búðardal, þar sem heitir Sælingdalstunga, en það er mikið söguhérað. Til dæmis gerist mikill hluti Laxdælu á þessu svæði, og ég er einmitt að hlusta á Laxdælu á hljóðbók í þriðja skipti núna! “
Veikindi pabba vöktu mig líka til umhugsunar um það, hvað ég hafði ekki gefið mér tíma til þess að njóta
Við grínumst með, að kannski sé Eyþór svona mikil tilfinningavera, vegna þess að hann ólst up á sögusviði Laxdælu, en eflaust mætti færa rök fyrir því að hún sé einna dramatískust af Íslendingasögunum. „Orka Guðrúnar Ósvífursdóttur hlýtur að svífa yfir vötnum enn í dag,“ segir Eyþór. Um tíma bjuggu foreldrar Eyþórs á Akureyri, en þau fluttu svo aftur í Dalina og hafa búið í Búðardal síðan. Mamma hans, Guðrún Ingvarsdóttir, flutti til Reykjavíkur þegar hún missti manninn sinn, en hún treysti sér ekki til að búa ein fyrir vestan. Systur Eyþórs, Margrét Kolbrún og Helga, búa einnig í bænum og mæðgurnar eru nánar. Eyþór talar um að samband sitt við mömmu sína og systur hafi dýpkað mikið við fráfall pabba.

Djúp náttúrutenging Eyþórs á rætur í útiveru og fræðslu frá pabba hans, sem var best geymdur utandyra eins og sonurinn. Myndir úr einkasafni Eyþórs.
Báðir miklar tilfinningaverur
Það er misjafnt, hvernig fólk mætir því að greinast með lífshættulegan sjúkdóm, og Eyþór segir að til allrar hamingju hafi pabbi hans strax verið opinn fyrir því að tala um það sem hann var að upplifa, enda alltaf verið viðkvæmur. „Við erum mjög líkir, að því leytinu til, að vera miklar tilfinningaverur. Hann var ekki í neinum vandræðum með að tala um krabbann, en hann var mjög hræddur og kvíðinn,“ rifjar Eyþór upp. „Hann veiktist frekar hratt, en meinið var í brisi, milta og í hryggnum.“
Alltaf verið vinnuþjarkur
„Veikindi pabba vöktu mig líka til umhugsunar um það, hvað ég hafði ekki gefið mér tíma til þess að njóta,“ segir Eyþór. „Við búum hérna í paradís, en ég hafði ekki leyft mér að hægja á og njóta þess. Ég hef alltaf unnið mikið, enda alinn upp í sveit og hef eiginlega aldrei kunnað að vera verkefnalaus. Ég hef margoft unnið yfir mig. Til dæmis, þegar ég var í tónlistarnáminu, þá æfði ég mig á nóttunni.“
Ég er að læra!
„Þetta er reyndar stöðug æfing, að hægja á, þó að ég sé búinn að koma auga á þetta,“ viðurkennir Eyþór. „Nú er til dæmis engin útför í næstu viku, og ég stóð sjálfan mig að því að örvænta yfir því að hafa ekkert að gera! Ég fór strax á flug í huganum, að plana ferð í Búðardal til að taka myndir og 8 tíma orgelæfingar hina dagana.
Svo rann upp fyrir mér, að auðvitað ætti ég að nota tækifærið og æfa minna hvern dag, sleppa því að fara að heiman í langa ferð og skreppa kannski bara að ljósmynda með vini mínum eitt síðdegi eða eitthvað í þeim dúr. Ég þurfti eiginlega að beita sjálfan mig hörðu, til þess að fylla ekki dagskránna strax. Ég er að læra!“

Eyþór er með frábæra aðstöðu til æfinga heima við, en hann er með gott rafmagnsorgel í bílskúrnum. Þar hefur hann komið sér vel fyrir með hilluraðir af nótum, bókum, þjóðlegum fróðleik og tónlistargræjum. Mynd: RH
Nýtir tímann vel við morgunverðarborðið
Eyþór er með bók á borðinu, við hliðina á kaffibollanum, sem er opin fyrir miðju. „Ég get eiginlega ekki borðað morgunmat án þess að gera eitthvað með,“ segir hann og hlær. „Ég þarf helst að lesa bók á meðan eða eitthvað slíkt. Helst þarf líka að vera tónlist í gangi. Það er reyndar þannig, að þá daga sem ég er heima að æfa mig, þá reyni ég að vera góður við sjálfan mig. Þá má morgunmaturinn taka svolítið langan tíma, og ég er lengi úti að gefa fuglunum. Mér gengur betur að æfa, þegar ég er í hægu tempói, og ég afkasta meira.“
Tregafull tónlist og dýrmæt plata
Nýútgefin plata Eyþórs, XV, ber þess merki, að hann hafi verið í sorgarferli þegar hún varð til. „Ég byrjaði að undirbúa plötuna fyrir tveimur árum og verkefnið fylgir svolítið veikindum pabba,“ segir Eyþór, en platan er tregafull, og yfir henni er ákveðin melankólía sem Eyþór segist finna sterkt fyrir þegar hann hlustar á sjálfan sig spila. „Ég er ekkert viss um að ég hefði spilað margt af þessu eins, ef ég hefði ekki verið í þessari stöðu, að fylgja pabba mínum í þessum erfiða sjúkdómi. Mér þykir vænt um það, hvernig platan hljómar.“
„Ég er mikill barrokkáhugamaður, og hef mestan áhuga á tónlist sem er samin fyrir 1700, og svo einnig nútímatónlist,“ segir Eyþór en hann er hrifinn af talnaáhuga barrokkskáldanna og nýtir þau fræði á nýju plötunni. „Nafnatala J.S.Bach er fjórtán, og þess vegna valdi ég upphaflega fjórtán verk á plötuna. Það er margt sem tengist tölum og talningu sem liggur að baki tónverkum hans, og mér finnst svo heillandi að bæta þessari vídd við hinar margslungnu víddir tónlistar.“ Eyþór hefur verið að deila fróðleik um tölur og verkin á plötunni sinni á Facebook síðu sinni, sem er fróðlegt að lesa.

Eyþór gefur smáfuglunum í garðinum sínum á hverjum degi. Korn fyrir þá, en tónlist og ljósmyndir fyrir okkur hin. Mynd: Eyþór Ingi
Sjö hefur alltaf verið uppáhalds talan
„Ég tek reyndar fram að ég lifi ekki eftir einhverri talnaspeki,“ segir Eyþór. „Þetta tengist bara tónlistinni og mér finnst einstaklega heillandi að spá í þessum undirliggjandi strúktúr. Sjö hefur verið uppáhalds talan mín, alveg frá því að ég var krakki og heimtaði alltaf að fá að vera númer sjö í fótbolta. Hún er svo eiginlega alheimstala, þar sem himinn og jörð mætast - hin heilaga þrenning (3) sameinast jörðinni, höfuðáttunum fjórum (4). (3+4=7). Á fyrri plötunni minni var ég mikið að vinna með sjöuna, og núna er það tvisvar sinnum sjö sem gerir fjórtán.“
Ég valdi lög, þar sem mér finnst orgelið syngja
„Ég gaf út mína fyrstu plötu fyrir fimm árum síðan,“ segir Eyþór. „Ég veit alveg að plata með orgeltónlist höfðar kannski ekki til fjöldans, en ég fékk eitthvað kikk út úr því að taka upp og gefa út. Upptökuferlið er skemmtilegt, en vinur minn Håkan Ekman tekur upp. Ég ákvað því að gera þetta aftur og ef satt skal segja þá er ég svolítið hvatvís og þegar ég fæ einhverjar svona hugmyndir þá læt ég bara vaða. Ég lít á mig sem konseptlistamann, þannig að plata sem ég gef út er heildarverk, ekki samtíningur. Nýja platan hefur þemað söngur orgelsins. Ég valdi lög, þar sem mér finnst orgelið syngja.“
Eins og segir í fyrsta hluta viðtalsins við Eyþór, þá er platan komin út á streymisveitum eins og er, en stefnan er á geisladiskaútgáfu á næstunni. Þá má búast við útgáfutónleikum.

Feðgar á gúmmítúttum. Hvort að Eyþór áttaði sig á því, þegar hann sendi blaðamanni myndapakka - að þessar myndir samhljómuðu svona dásamlega - er óvíst. T.v. Eyþór á kirkjuloftinu í Flatey, þar sem honum var kippt inn í fermingu (Mestu "sparifötin" sem ég var með í eyjunni voru slitnar gallabuxur og gúmmískór. En þannig eru bara allir klæddir þarna, móðir fermingarbarnsins var einmitt í gúmmískóm og fermingarbarnið sjálft í stígvélum, segir Eyþór), T.h. Nonni í Miðgarði tekur kaffipásu á dráttarvélinni. Myndin tekin af mömmu Eyþórs, Guðrúnu Ingvarsdóttur.
Þetta var annar hluti viðtalsins við Eyþór Inga. Á morgun birtum við þriðja og síðasta hluta viðtalsins á akureyri.net.
- Í GÆR – „AÐ MISSA PABBA MINN BREYTTI MÉR“
- Á MORGUN – NÁTTÚRAN OG ÚTIVERAN BESTA SORGARMEÐALIÐ