„Að missa pabba minn, breytti mér“
Það er fallegt vetrarveður þegar blaðamaður heimsækir Eyþór Inga Jónsson, tónlistarmann og ljósmyndara, í Svarfaðardalinn þar sem hann hefur komið sér vel fyrir í kyrrðinni ásamt konu sinni Elvý Hreinsdóttur. Á hlaðinu er það ekki aðeins Eyþór sem tekur brosandi á móti gestinum, vegna þess að garðurinn ómar af fuglasöng, en hundruð smáfugla eru í daglegu fæði í Laugagerði.
Þegar straumhvörf verða í lífi fólks, taka oft breytingar við. Eyþór Ingi missti föður sinn fyrir tæpu ári síðan, en þeir voru mjög nánir alla tíð. Skyndileg veikindi pabba hans og fráfall, mörkuðu í raun upphafið að því að Eyþór ákvað að staldra við. „Það er svo margt sem mig langar til þess að gera, og engin ástæða til þess að bíða með það,“ segir hann við blaðamann akureyri.net, en um áramótin tók hann af skarið og breytti til.
Þetta er fyrsti hluti viðtalsins við Eyþór Inga. Annar hluti birtist á morgun á akureyri.net.
- Á MORGUN – „ÞAÐ ER STÖÐUG ÆFING, AÐ HÆGJA Á“
1. janúar hófst ársleyfi Eyþórs frá störfum sínum sem organisti í Akureyrarkirkju. „Ég tek samt fram, að ég er ekki hættur að spila við útfarir,“ áréttar Eyþór. „Ég get ekki hugsað mér að hætta því, það stendur hjarta mínu næst í þessu starfi. Ég hef örugglega spilað í á annað þúsund jarðarförum og það fylgir því svo mikil vellíðan. Einstaklega gefandi.“
Blaðamaður var svo heppin, að heimsækja Eyþór á föstudegi, vegna þess að stundum gerir hann vel við sig í lok vikunnar með því að skella croissants í ofninn. Eyþór er smekkmaður á kaffi, og dýrindis pressukönnukaffi er í boði á meðan við bíðum. Hundarnir Kría og Tinni hnusa í kring um borðið, og Kría er heldur ósátt við að vera ekki miðpunktur athyglinnar. Hún unir sér best í fanginu á Eyþóri, og fær yfirleitt sínu fram eftir stutt nöldur.

Óhætt er að kalla heimili og umhverfi Eyþórs, Elvýar, Kríu og Tinna sælureit. Mynd: RH
Byrjaði árið af krafti með plötuútgáfu
Eyþór sótti í fyrsta sinn um listamannalaun, og fékk 3 mánuði. Verkefnunum sem Eyþór fékk listamannalaun til þess að sinna, ætlar hann að dreifa yfir árið, og svo hefur hann tekið við hálfu starfi sem verkefnastjóri í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík þar sem hann mun halda utan um viðburðarhald og fleira. Auk þess ætlar hann að sinna tónlistinni og ljósmynda, en í öllu starfi Eyþórs má merkja næmni og tilfinningadýpt, hvort sem hann situr við hljóðfæri eða ljósmyndar íslenska náttúru.
Eyþór hóf árið 2026 með útgáfu nýrrar plötu, sem hann kallar XV, eða talan fimmtán með rómverskum tölustöfum. Platan kom fyrst út á streymisveitum, en stefnt er á útgáfu geisladisks á næstunni.

Plata Eyþórs, XV, er að miklu leyti unnin í sorgarferli eftir föðurmissinn. Þessa mynd birtum við með frétt um plötuútgáfuna fyrr í mánuðinum. Ljósmyndin er tekin af Sindra Swan og plötuumslagið hannaði Ragnar Helgi Ólafsson.
Lokalag plötunnar bættist óvænt við
„Ég ætla að æfa mig rosalega mikið núna í upphafi árs,“ segir Eyþór, en hann er með gott æfingaorgel heima við, og mjög góða aðstöðu í bílskúrnum í Laugagerði. „Ég er að undirbúa stórt verkefni í mars, auk þess sem ég ætla að halda útgáfutónleika þegar geisladiskurinn kemur út. Svo er ég með nokkur upptökuverkefni og tónleika sem dreifast yfir árið.“
Á plötunni eru fimmtán verk, eins og nafnið gefur til kynna, en upphaflega áttu þau bara að vera fjórtán. Fráfall föður Eyþórs varð til þess að fimmtánda verkið bættist við, en það er uppáhalds lag Eyþórs, Hvíl ég nú síðast huga minn, eftir Sigurð Sævarsson. „Afmælisdagur pabba var 15. ágúst, og ég hágrét allan tímann sem við tókum þetta verk upp. Mögulega hefur þurft að hreinsa upptökuna eitthvað af snökti,“ segir Eyþór, en vinur hans Håkan Ekman tók plötuna upp.
Kominn tími til breytinga
„Ég er með sirka sextíu verk sem ég ætla að æfa og spila í ár,“ segir Eyþór. „Nú ætla ég að spila allt sem mig hefur langað til þess að spila lengi. Sigrún Magna, kollegi minn í Akureyrarkirkju, hafði stungið upp á því við mig fyrir tveimur árum, að sækja um listamannalaun. Þá hafði ég engan áhuga á því, leið best í kirkjunni og var ekki að spá í að breyta til.“
Ég fór að líta í eigin barm á þessum tíma. Hvort að ég væri í raun og veru að gera það sem mig langaði mest
„Þegar maður eldist, þá fer heilsan eitthvað að trufla, sjónin að versna og líkaminn ekki eins snarpur og hann var,“ segir Eyþór, og grínast með að það sé kannski einhver miðaldra krísa, sem fékk hann til þess að skipta um skoðun, sækja um listamannalaun og fara í leyfi. „Ég fór að hugsa um þessi verkefni sem mig hefur langað til þess að sinna, en ekki komist í, og fann að það var kominn tími til þess að koma því í verk. Ég menntaði mig líka sem orgeleinleikara, og ég lofaði sjálfum mér að ég myndi einhvern tíma sinna orgelinu.“
„Ég vinn náttúrulega við að spila, þannig að fingurnir eru ferskir og ég er í mjög góðu spilaformi. Ég er jafnvel betri heldur en þegar ég var nýútskrifaður,“ segir Eyþór, en hann lærði orgeleinleik í Piteå í Svíþjóð fyrir rúmum tuttugu árum.

Pabbi Eyþórs, Jón Jóel Benediktsson, gjarnan kallaður Nonni í Miðgarði. Mynd: Eyþór Ingi.
Myndaði Dalina og naut samvista við pabba
„Veikindi pabba höfðu mjög mikil áhrif á mig og hafa eflaust orsakað þessa stefnubreytingu,“ segir Eyþór. „Við vorum ofboðslega nánir og þegar hann greinist fyrir tveimur og hálfu ári með krabbamein, var það mikið áfall. Í lok nóvember 2024 fékk ég svo þær fréttir að baráttan væri vonlaus, en ég var einmitt að fara að syngja á risatónleikum með Skálmöld sama dag, sem var mjög erfiður. Eftir það tók við ár þar sem ég talaði daglega við pabba minn og bjó mér til ljósmyndaverkefni til þess að eyða meiri tíma með honum. 31. maí síðastliðinn var svo dagurinn sem pabbi dó.“
Eyþór er fæddur og uppalinn í Dölunum, þar sem pabbi hans og mamma bjuggu ennþá fyrir ári síðan, en ljósmyndaáhuginn og náttúrutengingin er eitthvað sem þeir feðgar hafa alltaf deilt. Eyþór ákvað að ljósmynda Dalina, og fór í fjölmargar ferðir vestur til þess að mynda náttúruna á heimaslóðunum og njóta samvista við foreldra sína.

Háey við Arnarbæli á Fellsströnd. Ein af fjölmörgum myndum sem Eyþór hefur tekið fyrir ljósmyndaverkefni sitt í Dölunum. Dalverjans lönd er heimasíða, þar sem hann sýnir myndirnar.
Spenntur fyrir einyrkjaárinu
„Ég fór að líta í eigin barm á þessum tíma. Hvort að ég væri í raun og veru að gera það sem mig langaði mest, þó ég væri í draumastöðu sem organisti í Akureyrarkirkju. Ég er mjög sáttur með ákvörðun mína, og ég er mjög spenntur fyrir þessu ári. Það er svo ágætt að fá þessa hálfu stöðu í Bergi með einyrkjaárinu mínu, þá þarf ég líka að hitta fólk og minni líkur á að ég verði algjör einsetukarl hérna í sveitinni, þó mér líði best hérna,“ segir Eyþór og gefur smáfuglunum í garðinum gaum.

Föstudagsmorgunverður með Eyþóri. Mynd: RH
Aldrei svangir fuglar við Laugagerði
Eyþór kemur með ilmandi bakkelsi úr ofninum, og við fáum okkur ábót á kaffið. Á hverjum degi fer hann út í garð til þess að fóðra sína fiðruðu vini, og í dag fær blaðamaðurinn að rölta á eftir honum um snævi þaktan garðinn. Karfa af eplum stendur við rennidyrnar út í garð, og hann grípur tvö stykki áður en hann labbar út.
Eftir að stinga tveimur eplahelmingum á greinar, við hliðina á hálfétnum eplum gærdagsins, fyllir hann stóra fötu af fræjum. Þeim dreifir hann um garðinn og setur litlar hrúgur af fræjum í fuglahús sem hanga hér og þar. Strax spyrst það út á meðal fuglanna að vinur þeirra sé mættur með góssið, og loftið ómar af fuglasöng. Nokkrir koma undir eins, alveg óhræddir við manninn með fræin, enda þekkjast þeir vel.
Þvínæst röltum við í hænsnakofann, en það þarf líka að gefa hænunum sem útvega Eyþóri og Elvý fersk egg daglega. Þær heita í höfuðið á vinum hjónanna, sem hjálpuðu þeim að flytja í sveitina um árið. Púturnar eru sáttar, og allt kvikt í grennd við Laugagerði verður vel nært þennan daginn, sem endranær.

Eyþór önnum kafinn við að ofdekra smáfuglana sína. Mynd: RH
Þetta var fyrsti hluti viðtalsins við Eyþór Inga Jónsson, tónlistarmann og ljósmyndara. Annar hluti verður birtur á morgun á akureyri.net.
- Á MORGUN – „ÞAÐ ER STÖÐUG ÆFING, AÐ HÆGJA Á“