Fara í efni
Mannlíf

Sungið í sundi og ljósadýrð í bænum

Plöstuð söngtextablöð stóðu sundlaugargestum til boða. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyrarvöku var aflýst í ár en í tilefni 159 ára afmælis Akureyrarbæjar, sem er á sunnudaginn, er þó ýmislegt um að vera; hljómsveitin Súlur hélt til dæmis sönglagatónleika í Sundlaug Akureyrar síðdegis, þar sem laugargestum stóð til boða plastklædd textablöð til að og var fólk hvatt til þess að syngja með.

Blús- og djasstónleikar voru á kaffihúsinu Barr í Hofi og viðburður kvöldsins ber yfirskriftina Ljósin í bænum.

Í tilefni afmælis Akureyrarbæjar verða valin hús lýst á litríkan, listrænan og skemmtilegan hátt, segir í tilkynningu frá bænum. „Vídeólistaverk Heimis Hlöðverssonar, sem var unnið sérstaklega fyrir Menningarhúsið Hof í tilefni 10+1 árs afmælis þess, verður frumsýnt og einnig verður vídeólistaverkum varpað á Listasafnið á Akureyri. Önnur hús sem verða upplýst með ýmsu móti eru Akureyrarkirkja, Glerárkirkja og aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva, auk þess sem ljósadýrð verður í Lystigarðinum og víðar um bæinn.“

  • Menningarhúsið Hof – Catalysis #2 – Heimir Hlöðversson
  • Akureyrarkirkja – Bernharð Már Sveinsson
  • Glerárkirkja – Hinrik Svansson
  • Listasafnið á Akureyri – Arna Valsdóttir og Sigga Björg Sigurðardóttir
  • Aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva – Bernharð Már Sveinsson
  • Lystigarður Akureyrar – Starfsfólk garðsins og Bernharð Már Sveinsson
  • Upplýst svæði um bæinn – Starfsfólk umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar

Viðburðurinn Ljósin í bænum hefst klukkan níu í kvöld og stendur til klukkan hálf eitt eftir miðnætti.

Hljómsveitin Súlur á sundlaugarbakkanum síðdegis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.