Fara í efni
Mannlíf

Styrktu Lögmannshlíð til saumavélakaupa

Frá afhendingu styrksins í minningu Soffíu Georgsdóttur. Aftari röð frá vinstri: Margrét Sigurðardóttir, Pia Maud Pedersen frá Oddfellow, Bergþóra Guðmundsdóttir og Helga Sigurðardóttir. Fremst situr Svanhildur Sigurðardóttir. Helga og Svanhildur eru dætur Soffíu.

Gjafmildi er ein af fallegri fylgifiskum hátíðanna, en Rebekkustúkan nr. 2, Auður á Akureyri, kom færandi hendi á Lögmannshlíð í vikunni. Meðlimir stúkunnar gáfu heimilinu styrk fyrir kaupum á nýjum saumavélum, til minningar um Soffíu Georgsdóttur sem bjó á Lögmannshlíð.

Pia Maud Petersen frá Oddfellow ásamt dætrum Soffíu afhentu styrkinn. Þær Bergþóra Guðmundsdóttir og Margrét Sigurðardóttir aðstandendur og sjálfboðaliðar í Lögmannshlíð veittu styrknum móttöku en þær hafa verið sjálfboðaliðar í Smiðjunni síðasta árið. Þær fengu einni smá þakklætisvott frá Lögmannshlíð fyrir sitt framlag.

Búið er að festa kaup á saumavél og overlook vél og hafa þær reynst vel. Þær Bergþóra og Margrét hafa meðal annars saumað dúka fyrir öll heimilin, jóla og hversdags, stykki sem gefin hafa verið til leikskóla og hitapoka sem félagsstarfið selur, segir í fréttatilkynningu frá Heilsuvernd hjúkrunarheimilum.