Hundruðustu jólin hjá Láru Brynhildi
Lára Brynhildur Eiríksdóttir, íbúi á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð, upplifir nú sín hundruðustu jól. Hún segist eiga góðar minningar frá æskujólunum og allt hafi verið með ró og spekt, þótt þær hafi verið 15 systurnar!
Spjallað er við Láru Brynhildi á vefsíðu hjúkrunarheimilanna á Akureyri og þar kemur fram að hún sé fædd og uppalin í Reykjavík en hafi flutt til Akureyrar upp úr aldamótum. „Þetta verða hundruðustu jólin mín, sem er svo skrítið því mér finnst ég ekkert vera gömul,“ segir Lára Brynhildur, sem fagnaði nýlega 99 ára afmæli sínu.
Lára segir að á æskuheimilinu hafi jólatréð verið skreytt á aðfangadag og systurnar fengu ekki að sjá það fyrr en klukkan sló sex. Alltaf var það sama í matinn á jólunum, lambalæri á aðfangadag og hangikjöt á jóladag. Súkkulaðibúðingur með rjóma og kokteilávextir í eftirrétt.
„Ég á voðalega góða minningar, við vorum 15 systur og alltaf biðum við spenntar eftir því að klukkan yrði sex á aðfangadag. Þá vorum við allar uppstrílaðar og okkur raðað við borðið,“ segir Lára og segir að þrátt fyrir stóran barnahóp hafi allt verið með ró og spekt á jólunum. „Allt var svo hátíðlegt, ekki var mikið af pökkum en við fengum alltaf falleg föt. Ég var mikið að lita og teikna þegar ég var lítil og ég fékk oft litabækur í jólagjöf, sérstaklega eftir að eldri systur mínar voru farnar að heiman þá voru þær duglegar að gefa mér,“ segir hún ennfremur.
Lára segir sínar jólahefðir hafa verið svipaðar þegar hún var að ala upp sín börn. Jólaundirbúningurinn byrjaði á því að sauma og prjóna föt handa börnunum. Síðan voru bökuð ósköpin öll af smákökum og brauði. Lára hélt í þá hefð að skreyta jólatréð og fengu krakkarnir ekki að sjá það fyrr en á aðfangadag. Börnin og húsið var puntað og gert fínt áður en sest var til borðs og alltaf var það á slaginu klukkan sex.
Í viðtalinu kemur fram að þegar Lára var orðin ein í heimili og flutt norður á Akureyri, hafi hún haldið að mestu í matarhefðir sínar á jólunum og verið um jólin með dóttur sinni sem er búsett hér. Hún segist þakklát fyrir góðar minningar og að líf hennar hafi verið gott. Hún sé skapgóð og telur það hafa hjálpað sér. Láru líður einstaklega vel í Lögmannshlíð og segist vera þakklát fyrir starfsfólkið, sem henni þykir afskaplega vænt um.
,,Það var alltaf gaman og ég á bara góðar minningar," segir Lára Brynhildur Eiríksdóttir.