Fara í efni
Mannlíf

Stóraukið lóðaframboð – tekjulágt eldra fólk fær lýðheilsustyrki

Bæjarfulltrúar meirihlutans og bæjarstjórinn, frá vinstri: Hlynur Jóhannsson, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Heimir Örn Árnason, Gunnar Líndal Sigurðsson, Elma Eysteinsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Ásthildur Sturludóttir, sem verður bæjarstjóri áfram. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Málefnasamningur nýs meirihluta á Akureyri, L-listans, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks var kynntur á kaffihúsinu LYST í Lystigarðinum á Akureyri í dag. Meðal annars er stefnt að því að stórauka lóðaframboð, komið verður á laggirnar lýðheilsustyrk fyrir tekjulágt og eignaminna eldra fólk og dregið úr kostnaðarþáttöku foreldra og forráðamanna í leik- og grunnskólum svo dæmi séu nefnd.

Meirihlutinn sendi frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu:

  • Í málefnasamningnum kemur fram að nýr meirihluti mun hafa aukna velferð, verðmætasköpun og bætt lífskjör fyrir alla íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi í sínum verkum. Áhersla verður lögð á að nýta þann meðbyr sem blæs við að byggja bæinn upp með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Nýr meirihluti vill stórauka lóðaframboð og bjóða nýja íbúa hjartanlega velkomna og taka næstu skref við að móta framtíðarsýn fyrir svæðisborgina Akureyri.
  • Aukinni uppbyggingu fylgja auknar tekjur og þær vill meirihlutinn nýta til þess að veita íbúum sveitarfélagsins betri þjónustu. Við viljum styðja áfram við það öfluga og framsækna starf sem unnið er í leik- og grunnskólum bæjarins og leggja ríka áhersla á að skoða möguleikana á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa. Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla verður brúað með fjölbreyttum leiðum og dregið úr kostnaðarþátttöku foreldra og forráðamanna í leik- og grunnskólum.
  • Komið verður á laggirnar lýðheilsustyrk fyrir tekjulágt og eignaminna eldra fólk og áhersla lögð á að ljúka við fyrstu aðgerðaáætlun í málefnum eldra fólks og hefja undirbúning að næstu. Uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk verður flýtt eins og kostur er og unnið jafnt og þétt á biðlistum.
  • Við ætlum að taka örugg „græn skref“ þannig að Akureyrarbær verði áfram í forystu í flokkun, endurvinnslu og nýtingu á úrgangi. Hálkuvarnir á Akureyri verða teknar til endurskoðunar og „Græni trefillinn“ nýttur sem vettvangur fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til þess að kolefnisjafna starfsemi sína.
  • Megináhersla verður lögð á lýðheilsu almennings og fjölbreytt tómstundastarf í samvinnu við íþróttafélög og félagasamtök og farið verður í endurskoðun á forgangsröðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja.
  • Áfram verði tryggð fjölbreytt og öflug menningarstarfsemi á Akureyri og rík áhersla lögð á stuðning við að listnám á háskólastigi verði í boði á Akureyri.
  • Öguð fjármálastjórn er forsenda þess að allt annað geti blómstrað. Því leggur nýr meirihluti áherslu á trausta og ábyrga fjármálastjórn, vandaða áætlanagerð og eftirfylgni. Leitað verður leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa.
  • Meirihluti L-listans, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks er bjartsýnn og hlakkar til að takast á við umfangsmikil og spennandi verkefni sem eru framundan í sveitarfélaginu. Samið verður við Ásthildi Sturludóttur um að gegna áfram starfi bæjarstjóra.
  • Gunnar Líndal Sigurðsson oddviti L-listans segir virkilega spennandi tíma framundan, góður andi sé í hópnum og einhugur um að gera sitt allra besta fyrir íbúa Akureyrarbæjar. Undir þetta tekur Heimir Árnason oddviti Sjálfstæðisflokksins sem segir bjarta tíma framundan og uppgang vera í atvinnumálum og ferðaþjónustu. Ég hef trú á því að bæjarstjórnin sem heild muni vinna vel saman að velferð og velsæld.
  • Hlynur Jóhannsson oddviti Miðflokksins segist lítast mjög vel á samstarfið, þar sem þessir flokkar hugsi um Akureyri sem heild með alla málaflokka undir.