Fara í efni
Mannlíf

Stelpurnar gerðu jafntefli við ÍBV

Leikmenn Þórs/KA fagna marki Colleen Kennedy gegn ÍBV í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA og ÍBV skildu jöfn, 1:1, í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum) í dag. ÍBV fór upp í fimmta sæti, hefur 13 stig eftir 10 leiki, en Þór KA er í áfram í sjöunda sæti með 12 stig eftir níu leiki. Þróttur er einnig með 12 stig en á einn leik til góða, gegn Tindastóli í dag.

Fyrri hálfleikur var í jafnvægi og heldur daufur, Stelpurnar okkar í Þór/KA fengu þó færi til að skora í tvígang en þau nýttist ekki. Það var svo þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik sem Colleen Kennedy skoraði fyrir Þór/KA, dýrmætt mark fyrir liðið og mikilvægt fyrir leikmanninn því þetta var fyrsta mark Colleen í sumar, í 10 leikjum. En slysalegt var það í meiri lagi: hún var með boltann úti á hægri kanti og sendi fyrir markið, sendingin var heldur slök og engin hætta á ferðum. Eða það héldu allir; Auður markvörður ÍBV hugðist grípa boltann en tókst ekki betur til en svo að hún skóflaði honum í netið. Markið skráist engu að síður á Kennedy, því boltinn stefndi á markið.

ÍBV jafnaði á 65. mínútu, Hanna Kallmaier renndi boltanum þá framhjá Hörpu markverði og í netið, var dauðafrí á markteignum og gat varla annað en skorað. 

Eitt stig er að sjálfsögðu betra en ekkert en þetta eina breytir litlu fyrir Þór/KA í baráttunni sem framundan er í neðri hluta deildarinnar. Þetta var fimmti heimaleikur liðsins í sumars, annað jafnteflið en þrír leikir hafa tapast.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Colleen Kennedy fékk gott tækifæri í fyrri hálfleik en Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving verði vel frá henni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, markvörður ÍBV, lék sér að eldinum í fyrri hálfleik en komst upp með það; fékk sendingu til baka og lék síðan á Karenu Maríu Sigurgeirsdóttir sem sótti að henni! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.