Fara í efni
Mannlíf

Stækkun Ráðhússins líklega frestað

Fyrirhugaður Ráðhúsgarður, vestan við húsið, skv. verðlaunatillögu Yrki arkitekta um viðbyggingu og endurbætur á Ráðhúsi Akureyrar.

Líkur eru á að stækkun Ráðhúss Akureyrar verði slegið á frest. Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, staðfestir það við Akureyri.net.

„Við erum á fullu að vinna framkvæmdaáætlun næstu ára og áherslur. Eitt af því sem hefur verið rætt er að fresta byggingu Ráðhúss og gefa okkur meiri tíma til þess að skoða þá uppbyggingu í tengslum við skipulagningu á Akureyrarvelli,“ segir Halla Björk. Þrátt fyrir þetta segir Halla Björk ljóst að fara þurfi í viðhald á núverandi Ráðhúsi.

Stækkun og endurbætur Ráðhússins var lang hæsti útgjaldaliðurinn skv. fjárhags- og framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun 2023 til 2025, sem samþykkt var samhljóða eftir síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar um miðjan desember í fyrra. Gert var ráð fyrir 1,7 milljarði króna í verkið á næstu þremur árum.

  • 2022 - 50 milljónir
  • 2023 - 300 milljónir
  • 2024 - 600 milljónir
  • 2025 - 800 milljónir

Markmið með stækkun og endurbótum Ráðhússins er að öll stjórnsýsla sveitarfélagsins verði á einum stað. Á fundi bæjarstjórnarfundar í desember, þar sem áætlunin var samþykkt, kom fram að vissulega væru miklir fjármunir settir í verkefnið á næstu árum en það myndi spara bænum fé til lengri tíma.

Frétt Akureyri.net í júlí 2021 – Yrki arkitektar hanna viðbyggingu við Ráðhúsið