Fara í efni
Mannlíf

Söngkeppni MA í streymi á þriðjudagskvöld

Söngkeppni MA í streymi á þriðjudagskvöld

Söngkeppni MA 2021 fer fram í Kvosinni á Hólum í Menntaskólaum á Akureyri þriðjudagskvöld, en að þessu sinni verða engir áheyrendur í sal heldur verður keppnin í beinni útsendingu á YouTube síðu Skólafélagsins Hugins. Í þetta sinn eru 11 atriði skráð til keppni, sem er allmiklu færra en verið hefur undanfarin ár, en eins og allir vita hefur skólastarf verið með óvenjulegum hætti þetta skólaárið, eðlilegt skólalíf gat ekki átt sér stað á haustönninni, og það hefur vissulega áhrif á félagslífið. En atriðin eru þó ellefu og undirleikur í höndum fimm manna hljómsveitar nemenda. Það vill svo skemmtilega til að fjögur af þeim eru fyrstubekkingar. Tónlistarstjóri er Guðjón Jónsson. Dómararnir eru söngvarar og leikarar úr sýningunni Benedikt búálfur hjá LA, Árni Beinteinn, Kristján Óli (Króli) og Þórdís Björk. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þá sem lenda í þremur efstu sætunum, en áhorfendur fá að velja vinsælasta atriðið í kosningu á vefsíðunni www.huginnma.is

Söngkeppni MA hefur farið fram árlega síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Lengi vel fór keppnin fram í Kvosinni á Hólum og var þar oftar en ekki afar þétt skipaður salur. Reyndar var fjöldi áheyrenda orðinn langt yfir hættumörkum svo Skólafélagið Huginn ákvað fyrir nokkrum árum að færa keppnina niður í Hof, þar sem 500 manns gátu komist að í Hamraborg við bestu aðstæður. Söngkeppnin er eins og í öðrum framhaldsskólum nokkurs konar undankeppni fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna, en þar hafa komið fram sjörnur sem skína margar enn skært þótt liðnir séu áratugir. Sigurvegari nú verður fulltrúi MA í landskeppninni.

Þeir sem vilja sjá og heyra þessa beinu útsendingu á Söngkeppni MA ættu að fylgjast með viðburðinum Söngkeppni MA 2021 á Facbook eða síðu Skólafélagsins Hugins. Þar verður tengill á útsendinguna þegar að henni kemur. Keppnin hefst klukkan 20.00.