Pistlar um andlega og líkamlega heilsu

Guðrún Arngrímsdóttir og Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir, eigendur Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar á Akureyri, eru nýir pistlahöfundar á akureyri.net. Þær munu annan hvern þriðjudag deila margvíslegum fróðleik með lesendum er varða líkamlega og andlega heilsu. Fyrsti pistillinn birtist í dag og þar heldur Guðrún á penna.
Guðrún og Hrafnhildur kynntust í námi í jákvæðri sálfræði fyrir nokkrum árum, báðar drifnar áfram af ástríðu fyrir því að styðja við vellíðan og vöxt einstaklinga og samfélaga, eins og þær orða það. Báðar áttu þann draum að stofna heilsumiðstöð þar sem unnið væri með heilsu á heildrænan máta og árið 2020 varð sá draumur að veruleika þegar Sjálfsrækt heilsumiðstöð hóf starfsemi.
„Sjálfsrækt er lítil og persónuleg stöð í hjarta miðbæjarins, nánar tiltekið í Brekkugötu 3b“ segir Hrafnhildur. „Þar fær fólk rými til þess að staldra við, snúa athyglinni inn á við og hlúa að sér á eigin forsendum.“
Boðið er upp á fjölbreytta tíma og námskeið – allt frá djúpri slökun yfir í kraftmikla styrktartíma, segja þær. „Meginstefið í öllum tímum er núvitund og meðvituð hreyfing þar sem áherslan er á að skapa öruggt rými þar sem hver og einn getur tengst sér, aukið sína sjálfsþekkingu og fundið leiðir til að efla eigin vellíðan og jafnvægi,“ segir Guðrún.
Guðrún og Hrafnhildur hafa báðar starfað við heilsutengda þjálfun, kennslu og ráðgjöf frá árinu 2010 og byggja starfið í Sjálfsrækt á þeim grunni. Starfsemi Sjálfsræktar nær fyrir vikið út fyrir húsnæði heilsumiðstöðvarinnar. Þær halda reglulega námskeið, vinnustofur og fyrirlestra um málefni sem tengjast vellíðan og hamingju og hafa unnið með fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum að því að fræða og efla mannauð þeirra.
„Við vildum byggja upp hlýjan og lifandi vettvang á sviði andlegrar og líkamlegrar heilsu hér á Akureyri. Sjálfsrækt hefur vaxið jafnt og þétt frá opnun og okkur þykir vænt um að heyra að starfsemin okkar sé mikilvægur þáttur í lífi fjölda fólks á Akureyri og víðar,“ segir Hrafnhildur Reykjalín.
- Pistill dagsins, sá fyrsti í röðinni: