Fara í efni
Mannlíf

Sannfærandi sigur Þórs í Grindavík

Alexander Már Þorláksson, á innfelldu myndinni, gerði bæði mörkin í kvöld - í bæði skiptin eftir sendingu frá Elmari Þór Jónssyni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar eru komnir með 17 stig og upp að hlið Grindvíkinga og Kórdrengja í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, eftir 2:1 sigur á þeim fyrrnefndu í Grindavík í kvöld. Liði eru í áttunda til 10. sæti.n

Gengi Þórsara var upp og ofan framan af sumri, liðið lék oft vel en var í miklum erfiðleikum með að skora, en það breyttist eftir að Alexendar Már Þorláksson gekk til liðs við þá frá Fram; hann gerði bæði mörkin í kvöld og hefur þar með skorað fimm mörk í sex leikjum.

0:1 Alexander Már kom Þórsurum yfir á 16. mínútu með stórglæsilegum skalla; Elmar Þór vinstri bakvörður sendi boltann inn í miðjan teig utan af vinstri kanti og Alexander skallaði í bláhornið, óverjandi fyrir Aron Dag í markinu.

0:2 Fimm mínútum seinna skoraði Alexander Már á ný, aftur eftir sendingu frá Elmari frá vinstri, með lúmsku skoti úr miðjum vítateig.

1:2 Bæði lið fengu ágæt færi til að skora í seinni hálfleik en Dagur Ingi Hammer Gunnarsson var sá eini sem kom boltanum í netið; minnkaði muninn fyrir heimamenn á 82. mín. með frábæru skoti utan teig. Hann hamraði boltann upp í samskeytin.

Ekki er langt síðan Þórsarar voru rétt fyrir ofan tvö neðstu liðin en þeir hafa fjarlægst hættusvæðið hratt og örugglega undanfarið og hafa nú unnið fjóra af síðustu sex leikjum. Gaman er að sjá hve leikmenn hafa eflst upp á síðkastið, ungu strákarnir sem leika lykilhlutverk í liðinu sem verið er að byggja upp, geisla af sjálfstrausti og spennandi verður að fylgjast með framhaldinu.

Grindvíkingar gerðu harða hríð að marki Þórsara á lokamínútunum, þeir vörðust þá af miklum móð og náðu að auki nokkrum góðum sóknum og reyndar var með miklum ólíkindum að Þórsarar skyldu ekki bæta að minnsta kosti einu marki við, jafnvel tveimur.

Næsti leikur Þórs er á heimavelli eftir rúma viku, laugardaginn 6. ágúst, þegar Vestri kemur í heimsókn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Aron Birkir Stefánsson var góður í markinu hjá Þór í kvöld, öryggið uppmálið og varði einu sinni frábærlega. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson