Fara í efni
Mannlíf

Sannfærandi hjá Þór í Breiðholtinu

Atli Þór Sindrason, til vinstri, kom Þór yfir eftir fimm mínútur með fyrsta deildarmarki sínu. Til hægri er Sigfús Fannar Gunnarsson sem gerði tvö mörk í leiknum. Myndir: Ármann Hinrik

Þórsarar unnu mjög sannfærandi 4:1 sigur á Leikni í Reykjavík í kvöld í 2. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þeir eru því með fjögur stig að loknum tveimur umferðum.

Aðstæður voru ekki beinlínis til að hrópa húrra fyrir í Breiðholtinu; þriggja stiga hiti, bálhvasst og rigning – jafnvel slydda á köflum. Þórsarar léku undan vindi í fyrri hálfleik og höfðu mikla yfirburði. Þeir voru ekki lengi að brjóta ísinn og eftir 20 mínútur var staðan orðin 3:0. Þannig stóð í hálfleik.

  • Vinstri kantmaðurinn Atli Þór Sindrason gerði fyrsta markið strax á sjöundu mínútu. Hann fékk góða sendingu inn í vítateig frá Ibrahima Balde og sendi boltann laglega í fjærhornið.
  • Þetta var fyrsta mark Atla Þórs fyrir meistaraflokk Þórs í deildarleik.  Hann er 18 ára og þetta var aðeins annar leikur hans í deildinni, frumraunin var gegn HK í Boganum í síðustu viku.
  • Ekki liðu nema rúmar tvær mínútur þar til Sigfús Fannar Gunnarsson kom Þór í 2:0. Juan Guardia Hermida sendi boltann af hægri kanti inn á markteig þar sem Sigfús skallaði í markið. Til gamans má geta þess að síðasta mark Sigfúsar í deildinni var á sama velli í fyrrasumar.
  • Þór komst svo í 3:0 á 20. mínútu. Þar var að verki Vilhelm Ottó Biering Ottósson; Þór fékk aukaspyrnu á hægri kantinum, töluvert utan við vítateigshornið. Vilhelm sveiflaði vinstra fæti, sendingin var föst og hnitmiðuð, meðfram jörðinni ... og boltinn endaði markhorninu fjær, án þess að varnarmenn eða markvörður Leiknis fengju rönd við reist.

Boðið var upp á haglél um stund í byrjun seinni hálfleiks og hvort sem því var að þakka eður ei var meira líf í Leiknismönnum en verið hafði og þeir minnkuðu muninn þegar sjö mín. voru liðnar. Shkelzen Veseli skoraði þá eftir hornspyrnu.

Skömmu síðar náðu Þórsarar skyndisókn, Sigfús Fannar komst einn gegn Ólafi Íshólm en Leiknismaðurinn kom í veg fyrir fjórða mark gestanna með glæsilegri vörslu.

Leiknismenn kröfðust þess að fá víti á 67. mín. þegar boltanum var spyrnt af stuttu færi í hönd Vilhelms Ottós, en dæmd var aukaspyrna rétt utan við vítateiginn hægra megin. Hönd varnarmannsins var því sem næst eins nálægt líkamanum og kostur er, en fyrst dómarinn blés í flautuna hefði hann átt að benda á vítapunktinn því Þórsarinn var innan vítateigs. Skotið úr aukaspyrnunni var stórhættulegt og Þórsarar björguðu á línu.

Fáeinum augnablikum síðar dró aftur til tíðinda því þá komst dómarinn ekki hjá því að lyfta rauða spjaldinu. Leiknismaðurinn Sindri Björnsson braut gróflega á Einari Frey Halldórssyni og var rekinn af velli. Þórsarar voru því einum fleiri síðustu 20 mínúturnar.

  • Sigfús Fannar gerði fjórða mark Þórs á 88. mín. eftir einfalda skyndisókn. Þórsarar náðu boltanum á miðjum eigin vallarhelmingi, Balde sendi út til hægri á Sigfús sem var rétt framan við miðju, tók á rás og skoraði af öryggi framhjá Ólafi Íshólm úr miðjum vítateignum.

Sigur Þórs var mjög sanngjarn sem fyrr segir. Þeir voru niðurlægðir á Leiknisvellinum í fyrra, töpuðu þá 5:1, en augljóst var að allir sem einn voru staðráðnir í að fara brosandi norður í land að þessu sinni. Þórsarar komu gríðarlega vel stemmdir til leiks, höfðu algjöra yfirburði í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að Leiknismenn næðu að sýna tennurnar um tíma í þeim seinni létu Þórsarar það ekki á sig fá. Góð ára er yfir liðinu um þessar mundir, viljastyrkurinn er áberandi og samheldnin mikill.

Næsti leikur Þórs í deildinni er gegn Keflvíkingum á heimavelli eftir rúma viku, sunnudaginn 18. maí. Keflvíkingum var spáð mjög góðu gengi í sumar, þeir unnu Fjölni á útivelli í fyrstu umferðinni þeir töpuðu í kvöld á heimavelli fyrir Þrótturum.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni