Fara í efni
Mannlíf

„Safngripir“ sjá um að sýna Iðnaðarsafnið

„Safngripir“ sjá um að sýna Iðnaðarsafnið

Iðnaðarsafnið á Krókeyri verður opnað á ný eftir breytingar á morgun, fimmtudag. Safnið verður opið fjóra daga í viku, fimmtudag til sunnudags, frá klukkan 13.00 til 16.00. Aðra daga er einungis opið fyrir hópa, sem óska eftir því að koma.

Vegna slæmrar fjárhagsstöðu safnsins er enginn fastur starfsmaður þar lengur; safnstjóranum var sagt upp á dögunum og hætti um mánaðamótin, eins og Akureyri.net fjallaði um í janúar. Meðlimir í Hollvinafélagi Iðnaðarsafnsins munu standa vaktina þá daga sem safnið verður opið og Þorsteinn E. Arnórsson sinna verkefnum safnstjóra þar til úr rætist.

Hollvinafélag Iðnaðarsafnsins samanstendur að mestu leyti af fyrrverandi starfsfólki þeirra fyrirtækja sem mynda grunninn að Iðnaðarsafninu og því má að vissu leyti segja að safngripir sjái um að halda safninu opnu, eins og Þorsteinn komst að orði!