Fara í efni
Mannlíf

„Sá eini sem getur orðið alþjóðleg stjarna!“

Birkir Blær syngur með tilþrifum í kvöld. Skjáskot af TV4.

Birkir Blær Óðinsson var kosinn áfram í næstu umferð í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4 í kvöld. Birkir söng í kvöld lagið A Change Is Gonna Come, afar fallegt lag sem Sam Cooke flutti upphaflega fyrir áratugum.

Eftir kvöldið standa 11 keppendur eftir. Það eru sjónvarpsáhorfendur í Svíþjóð sem kjósa og í kvöld var Birkir Blær dæmdur fyrir flutninginn á laginu Húsavík (My Home Town) úr húsvísku Hollywood myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem hann söng fyrir viku. Hann var með slæma hálsbólgu þá en flutti lagið afar vel að mati dómaranna, og sænskir sjónvarpsáhorfendur voru á sama máli! 

Óhætt er að segja að Birkir hafi sungið sig inn í hug og hjörtu dómaranna fjögurra í keppninni – og í kvöld heillaði hann þá enn einu sinni upp úr skónum. Var þó greinilega ekki búinn að ná sér af hálsbólgunni og sagði röddina ekki hafa náð nema um 70% styrk.

„Birkir, þú ert sá eini í hópnum sem getur orðið alþjóðleg stjarna!“ sagði einn dómaranna eftir flutning Birkis á A Change Is Gonna Come.