Fara í efni
Mannlíf

Rut og Arna Valgerður aðstoða Andra Snæ

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Arna Valgerður Erlingsdóttir hafa verið ráðnar aðstoðarþjálfarar Andra Snæs Stefánssonar með kvennalið KA/Þórs í handbolta skv. heimildum Akureyri.net. Rut hefur verið algjör burðarás í liðinu síðustu ár og leikur að sjálfsögðu áfram með, Arna hefur einnig verið lengi í leikmannahópnum en lítið komið við sögu vegna þrálátra meiðsli í gegnum árin.

KA/Þór vann allt sem hægt var að vinna veturinn 2020 til 2021 – vann meistarakeppni HSÍ og varð síðan deildar-, bikar- og Íslandsmeistari – en féll út í undanúrslitum bæði í bikarkeppninni og Íslandsmótinu á síðasta keppnistímabili.

Miklar breytingar verða á liðinu næsta vetur. Þær þrjár lengst til vinstri á myndinni eru allar á förum: Rakel Sara Elvarsdóttir hefur samið við Volda í Noregi, Aldís Ásta Heimisdóttir er á leið til Skara HF í Svíþjóð og Ásdís Guðmundsdóttir hefur einnig ákveðið að söðla um en ekki er enn ljóst hvar hún leikur. Við hlið Ásdísar er Rut, þá Andri Snær, Unnur Ómarsdóttir, Martha Hermannsdóttir og Arna Valgerður.

Auk þeirra þriggja sem að framan greinir er markvörðurinn Sunna Guðrún Pétursdóttir á förum til svissneska liðsins GC Amicitia í Zürich.

Forráðamenn KA/Þórs leita nú að leikmönnum erlendis í stað þeirra sem eru á förum.