Fara í efni
Mannlíf

Presturinn sem poppar upp kirkjuna

Séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sindri Geir Óskarsson er sóknarprestur í Glerársókn, umhverfis-aktívisti, áhrifavaldur, fjölskyldufaðir og frumkvöðull. Hann var einnig tilnefndur til verðlaunanna Framúrskarandi ungur Íslendingur sem JCI hreyfingin veitir árlega. Sindri Geir var einn af tíu sem valdir voru úr nær 300 tilnefningum til verðlaunanna og var tilnefndur fyrir störf á sviði mannúðar eða sjálfboðaliðamála.

Í samtali við Akureyri.net sagði Sindri Geir að þetta hefði komið sér á óvart. Og bætir við: „Svolítið skrýtið en ótrúlega gaman. Sýnir að maður er að gera eitthvað rétt og það sé tekið eftir því. Það er ákveðin viðurkenning.“

Fylgjendur á TikTok að nálgast 7000

Þegar maður gerir sér prest í hugarlund, þá er séra Sindri Geir ekki maðurinn sem kemur upp í hugann, enda stendur hann fyrir því að breyta ímynd kirkjunnar, gera hana opnari og nútímalegri. Á síðasta ári byrjaði hann á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hann hefur eflaust stuðað marga með alls kyns glensi og gríni innan veggja kirkjunnar. Það má ímynda sér að margir kirkjunnar menn hafi snúið sér í gröfinni við tiltækið; en Sindri Geir fer aldrei yfir strikið og ígrundar vel allt sem hann póstar á TikTok. Hann hefur fundið fyrir mikilli jákvæðni í sinn garð og kirkjunnar og fjöldi fylgjenda er að nálgast 7000 talsins.

Á TikTok sagði Sindri Geir meðal annars frá því að hann væri tvíkynhneigður og það vakti gífurlega athygli. En verður tvíkynhneigður prestur fyrir fordómum? „Nei, ekki innan safnaðarins. En ég hef fengið spurningu um af hverju ég sé að segja frá þessu þar sem ég er giftur konu,“ svarar Sindri Geir. Hann bætir við að sér finnist jákvætt að hafa deilt þessu og sér ekki eftir því. „Það hefur til dæmis verið svolítið að gera hjá mér í sálgæslu hjá hinsegin fólki og ég finn, að fyrst ég opnaði á þetta, er mér treyst fyrir þessu samtali. Ég opnaði dyr fyrir þeim sem óttast fordóma eða eru kannski leitandi og að reyna að staðsetja sig.“

Það eru ekki nema 11 ár síðan hjónabönd samkynhneigðra voru leyfð innan kirkjunnar. Margt hefur þó breyst og þróast á þessum árum. Það er því gott að leita til Sindra ef pör eru óviss með hvernig þau vilja, eða geta, látið gefa sig saman. Sindri Geir tekur sem dæmi að hann hafi verið beðinn um að gefa saman kynsegin par, þ.e. einstaklinga sem skilgreina sig ekki eftir hefðbundinni kynjatvíhyggju. „Þau voru óviss með það að fá prest með sér í stóra daginn en svo hittumst við og mótuðum athöfnina saman og þetta varð bæði falleg og hátíðleg blessunarathöfn fyrir þeirra sambandi.“

Þorpari sem bæði lærði, og kenndi, í Glerárskóla

Sindri Geir er uppalinn í Þorpinu og alla sína grunnskólagöngu var hann nemandi í Glerárskóla. Hann á góðar minningar þaðan og hrósar sérstaklega starfsfólkinu. Allir voru svo almennilegir og það var komið fram við krakkana af virðingu. Það var líka stór kostur við Glerárskóla að þar var bæði íþróttahús og sundlaug á staðnum svo ekki þurfti að fara í rútuferð til að komast í íþróttir.

Síðar meir fór hann sjálfur að kenna við skólann. „Það var svolítið gaman,“ segir Sindri Geir, „því stór hluti af starfsfólkinu sem hafði kennt mér var þarna enn. Gaman og pínu skrýtið að rölta með þeim inn á kennarastofu og fá sér kaffi!“

Sindri Geir var umsjónarkennari í 6. bekk og líkaði mjög vel að kenna á miðstiginu. Hann fór í kennaranám og á aðeins örfáar einingar eftir til að fá réttindin en finnur vel hvað kennaranámið kemur að góðum notum í fermingarfræðslunni og predikunum.

Passar að predikanir séu ekki of langar

En hvað er sóknarpresturinn lengi að skrifa eina predikun? „Það er plan fyrir árið,“ segir Sindri Geir, hvaða textar úr biblíunni eru lesnir hvern dag við messu. „Ég nota mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga til að lesa textann og melta hann, fer svo að skrifa á fimmtudegi, nema þetta séu alveg glataðir textar þá annaðhvort vel ég annan eða finn leið til að tala í kringum þá. En oft endurskrifa ég allt á laugardagskvöldi eða sunnudagsmorgni.“ Sindri Geir bætir við að hann passi upp á að predikanir séu aldrei lengri en 7-9 mínútur því eftir það fer fólk að detta út. Þriðjungur messugesta er yfirleitt fermingarbörn og það sé ekki hægt að bjóða þeim upp á langar ræður. „Ef hægt er að segja það sem skiptir máli á 5 mínútum þá gerir maður það.“

„Gæti ekki verið heppnari með samstarfshóp!“

Síðan Sindri Geir varð sóknarprestur í Glerársókn fyrir tæpum tveimur árum hefur Covid verið yfir og allt um kring. Hann getur ekki beðið eftir að samkomutakmörkunum verði aflétt svo starfið innan kirkjunnar komist í eðlilegt horf. En þrátt fyrir allar takmarkanir er Sindri Geir mjög ánægður með vinnuna sína og starfsfólk Glerárkirkju. Um það segir hann: „Góður hópur sem er að vinna þarna. Gæti ekki verið heppnari með samstarfshóp!“

Þegar Sindri Geir er spurður hvað sé skemmtilegast að gera sem prestur er svarið: „Fermingarfræðslan. Við höfum náð að halda góðum dampi í henni. Hann nefnir líka hvað sé ánægjulegt að hafa mikla fjölbreytni í embættisverkunum. „Ég var áður að vinna í Noregi, án covid, og á þaðan þessa dýrmætu reynslu af því hvað maður upplifir mikla breidd í starfinu Er kannski með þunga útför um morguninn og barnastarf um kvöldið, í sorginni fyrripart dags og lífsgleðinni seinnipartinn. Það er mikið af orku og tilfinningum í þessu starfi,“ segir Sindri Geir.

Ótrúlegt að vinna með Valmari

Sindri Geir hefur alltaf verið í tónlist, spilað á hljóðfæri og sungið í nokkrum kórum. Þótt hann sé prestur í Glerárkirkju er hann líka í kirkjukórnum. Hann vill þó ekki skipta sér af einu eða neinu, er bara með á æfingum til að geta sungið - ánægjunnar vegna.

Hann er bjarsýnn á framtíð kórsins því meðlimum hefur verið að fjölga og eru nú orðnir yfir 30 talsins Svo margir hafa ekki verið í kórnum í 3-4 ár. Valmar Väljaots er kórstjóri. „Það er ótrúlegt að vinna með Valmari, segir Sindri Geir að lokum. „Hann spilar á öll hljóðfæri sem til eru! Hann birtist með gítar, grípur því næst fiðluna - og svo framvegis.“

Messur í Glerárkirkju um jólin

Ein messa verða í Glerárkirkju á aðfangadag. Aftansöngurinn er klukkan 17 (í stað 18 áður). „Við þurftum að draga aðeins í land í ljósi samkomutakmarkana og viljum setja púðrið okkar í eina góða stund. Við breyttum tímanum í ár svo fólk gengur út í jólanóttina meðan kirkjuklukkurnar hringja inn hátíðina,“ segir Sindri Geir að lokum.

Kirkjugestir þurfa að framvísa neikvæðum hraðprófum sem eru ekki eldri en 48 klst. gömul.

Á jóladag verður hátíðarguðsþjónustu streymt inn á facebooksíðu Glerárkirkju.

Meira um Sindra hér

Meira um tilnefningu Sindra til verðlaunanna Framúrskarandi ungur Íslendingur hér

Hægt er að panta viðtalstíma hjá prestum Glerárkirkju hér

Facebook-síða Glerárkirkju er hér

Séra Sindri Geir í minningarstund við minnisvarðann um týnda og drukknaða sjómenn fyrir utan Glerárkirkju á sjómannadaginn í ár. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.