Fara í efni
Mannlíf

Óskalagatónleikar í beinni úr Glerárkirkju

Ljósmynd: Daníel Starrason.
Ljósmynd: Daníel Starrason.

Á sunnudaginn, 20. desember, verður helgistund í formi óskalagatónleika í Glerárkirkju. Þennan fjórða sunnudag í aðventu sjá Valmar Väljaots, Margrét Árnadóttir og Petra Björk Pálsdóttir um tónlistina. Tónleikunum, sem hefjast klukkan 20.00, verður streymt á Facebook síðu Glerárkirkju og því hægt að fylgjast með í sjónvarpi, tölvu eða síma. Fólk getur ekki komið í kirkjuna til að hlýða á tónlistina.

Áður en stundin hefst verður birtur listi af lögum sem hægt er að velja úr auk þess sem fólk getur beðið um uppáhalds jólalagið sitt; ef tríóið kann það lag er aldrei að vita nema það hljómi. Lagalistann er að finna neðst í fréttinni og tónlistarfólkið tekur sem sagt á móti beiðnum um óskalög á meðan tónleikarnir standa yfir. 

Við athöfnina verður að auki sagt frá Jólaaðstoðinni, en frá árinu 2013 hafa Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar starfað saman um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Samstarfið hefur gengið vel og gert það að verkum að hægt hefur verið að styðja einstaklinga og fjölskyldur á svæðinu með veglegri hætti en áður. Nú hefur verið ákveðið að stíga skrefi lengra og hafa samstarfið á ársgrundvelli. Heitið breytist því úr Jólaaðstoð í Velferðarsjóð. Með þessari breytingu er vonast til að einfaldara verði að leita sér aðstoðar allan ársins hring og að betur sé hægt að halda utan um upplýsingar um þörfina í samfélaginu. Starfssvæði sjóðsins er Eyjafjörður, frá Siglufirði til Grenivíkur.

Þeim sem hafa áhuga á að styrkja Velferðarsjóðinn er bent á reikninginn 0302-13-175063, kt. 460577-0209.

Þar sem ekki verður boðið upp á helgihald um jólin stendur fólki til boða að koma í Glerárkirkju á milli jóla og nýjars, 28.-30. desember frá klukkan 17 til 19, „staldra við, kveikja á kerti og sækja jólafrið og ró inn í hversdaginn,“ eins og Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur, orðar það.

28. desember mun Valmar Väljaots organisti sitja við orgelið og leika fallega jólatónlist.

29. desember flytur Margrét Árnadóttir söngkona lög af nýrri plötu sinni, Hugarró.

30. desember situr Petra Björk Pálsdóttir við orgelið og flytur hugljúfa tóna.

10 manns geta verið í kirkjunni í einu og starfsmaður kirkjunnar gætir að fjöldanum.

Hér er lagalistinn, sem hægt er að velja af, á óskalagatónleikunum næsta sunnudag

Dansaðu vindur

Ó, Jesúbarn blítt

Hátíð fer að höndum ein

Jólakvöld (Kirkjuklukka hringir)

Betlehemstjarna

Frá ljósanna hásal

Jól (eftir Jórunni Viðar)

María í skóginum

Það á að gefa börnum brauð

Boðskapur Lúkasar

Það aldin út er sprungið

Jesús þú ert vort jólaljós

Jólin með þér (það er allt breytt vegna þín)

Er líða fer að jólum

Við kveikjum einu kerti á

Skín í rauðar skotthúfur

Bráðum koma blessuð jólin

Jólin koma

Meiri snjó

Kom þú, vor Immanúel

Jól, jól skínandi skær

Snæfinnur snjókarl

Söngur jólasveinanna (Úti er alltaf að snjóa)

Klukkurnar klingja

Í Betlehem

Aðfangadagskvöld

Á jólunum er gleði og gaman

Bjart er yfir Betlehem

Eitt lítið jólalag

Englakór frá himnahöll

Litla jólabarn

Hátíð í bæ

Heims um ból

Hin fegursta rósin er fundin

Hin fyrstu jól

Hringi klukkurnar í kvöld

Ó, Jesúbarn

Hvít jól

Jólafriður

Jólaklukkur (Þótt ei sjáist sól)

Jólakvæði (Nóttin var sú ágæt ein)

Jólasveinninn kemur í kvöld

Jólasveinninn minn

Jólin allsstaðar

Jólin held ég heima

Komið þið hirðar

Fögur er foldin

Litla jólabarn (Jólaklukkur klingja)

Ó, bærinn litli, Betlehem

Ó, helga nótt

Óskin um gleðileg jól

Skreytum hús með greinum gænum

Syng barnahjörð

Það aldin út er sprungið

Það heyrast jólabjöllur

Þá nýfæddur Jesú

Ave María

Yfir fannhvíta jörð

Gleði og friðarjól