Fara í efni
Mannlíf

Minnið er ofurmáttur mennskunnar

Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.

Séra Hildur Björk Hörpudóttir sóknarprestur predikaði við aftansöng í Glerárkirkju á aðfangadag.


Náð sé með yður og friður frá Guði og Drottni Jesú Kristi. Amen

Gleðilega hátíð – gleðileg jól.

Við lifum á öld hinna miklu breytinga.

Fáar kynslóðir hafa upplifað jafn miklar breytingar og kynslóð eldra fólksins okkar í dag. En þetta er fólkið sem man eftir því þegar að nasistar komust til valda í Þýskalandi, mundi jafnvel eftir því þegar bresku dátarnir komu til Íslands, þegar landssíminn kom til, þegar Hekla byrjaði að gjósa 1947 og það sá möguleg bjarmann, þegar skarlatssóttin og lömunarveikin urðu farsóttir hér og þau voru meðal þeirra sem sáu Winston Churchill hjá Alþingishúsinu. Einhver þeirra voru meira að segja viðstödd merkisatburðinn 17. júní 1944 á Þingvöllum og þetta er svo sama kynslóðin sem á seinni hluta ævi sinnar er krafin þess að borga alla reikninga í heimabanka á netinu í Ipadnum, svo miklar breytingar hafa orðið á einni ævi.

Á sama tíma er þetta fólkið okkar sem man allskonar jól og hefur borið á örmum sínum til okkar fallegu jólahefðirnar og helgi jólanna, sagt okkur jólasögur og sungið jólasöngva, kennt okkur að elska, sakna og minnast á jólum og takast á við dimmasta tíma ársins með kærleika og ljósi lífsins.

Minnið er ofurmáttur mennskunnar og fylgir hverri manneskju, fjölskyldu, ætt og tengslum. Það er minnið sem er ofurmáttur manneskjunnar og minnir okkur á að lífið er til þessa að lifa því. Í minninu og minningunum felst leiðarvísir um það að standa stöðug og minnka ekki, heldur stækka og þroskast. Minnið hefur máttinn til að minna okkur á hver við erum og hvað okkur er mögulegt því samkvæmt rannsóknum er það kraftaverk að ég og þú skulum yfirleitt vera til.

Því það eru til kerfi sem taka mennskuna frá fólki og gera þau þreytt og dofin en minnið segir okkur að svona kerfi hafa alltaf verið til og við höfum í samtakamætti alltaf náð að yfirvinna þau ... og að við erum manneskjur í stöðugri þróun, og það er mikilvægt að muna og í raun kjarni jólasögunnar.

Jólasagan er kraftaverkasaga því hún er holdi klædd setning öldungsins sem sagði „Drama kristninnar er lífið sjálft“.

Hvað er barnsfæðing annað en drami og algjör breyting á veröld okkar og þessi sérstaka barnsfæðing í fjárhúsi í Betlehem breytti ekki bara okkar veröld heldur öllum heiminum. Jesúbarnið og fæðingarsaga þess sem hefur enn áhrif á hjörtu manna og huga. Barnið, sem breytti heimssýn okkar, olli ákveðnum heimsendi í trúarlífi ótal fólks og hóf ferð nýrra minninga byggða á sterku minni fyrir.

Heimsendir er máttugt hugtak og mönnunum hugleikið. Við getum séð það á mjög bókstaflegan og dómsdaglegan máta, en við getum líka séð það sem hugtak sem taka má í þegar veröldin okkar breytist með þeim afleiðingum að hún verður aldrei eins. Það varð til dæmis ákveðinn heimsendir þegar við fengum fyrstu myndirnar frá nýja stjörnusjónaukanum, James Webb sjónaukanum. Hann hefur á 4 árum með myndum sínum umbylt nær allri þekkingu okkar á stjarnfræði og stjarneðlisfræði. Honum tekst meira að segja að ná myndum af fortíð en ekki bara nútíð, af vetrarbrautum og stjörnum. Tíminn sjálfur er eitthvað sem þarf nú að fara að meta og benda og beygja.

Heimsendir, breytingar og ný þekking þýða ekki að allt sé ónýtt eða til einskis eða eins og segir í einni bók Stefáns Mána um Bretana sem setja upp merkið „out of order“ ef eitthvað er bilað. Þeir setja ekki „broken“ sem væri brotið eða bilað, heldur „out of order“, utan reglu.

Því mögulega erum við orðin of ferköntuð og höldum að regla sé það sem er algilt og best en ekki lengur minni og sköpun. En raunin er sú, eins og Jen Shoop vinkona okkar sagði svo fallega, að velþóknun Guðs yfir manneskjum og gott líf getur líka falið í sér mistök, hræðilegt upphaf, lokaðar hurðir, endalausar ósvaraðar spurningar, gagnrýni, rok og rigningu, að henda öllu út og byrja upp á nýtt, að sakna, að biðja um hjálp, breytingar og að labba í ranga átt. Rétt eins og jólasagan öll ber í sér og gerir hana svo ómótstæðilega og sérstaka, sögu til þess að festast í minninu og berast á örmum fólks kynslóð eftir kynslóð til þess að muna að von, kærleikur og mildi bætir allar aðstæður.

Jólaævintýrið og heimurinn er nefnilega ekki svart/hvítur ... ekki frekar en myrkur og ljós … heldur hlaðinn skuggum sem leika með ólíkum tónum og litbrigðum á öll svið lífsins. Meira að segja myrkrið getur verið mjúkur og uppörvandi staður þar sem ljósið er getið og verður til og á sér sérstakan og dýrmætan stað í hjörtum okkar. Þar með eru bæði ljós og myrkur heilög og bera bæði í sér líf og og minni.

Það er þess vegna sem sagan um litla Jesúbarnið hrífur kynslóð eftir kynslóð og situr föst í minninu, því hún er sístæð og gerist aftur og aftur. Því enn eru ungar konur, jafnvel stúlkur, að eignast börn án þess að vilja eða geta, enn eru til foreldrar sem þurfa að flýja með börnin sín í leit að betri stað eða einfaldlega öryggi sem fæst ekki lengur innan veggja heimilisins og enn eru börn að fæðast í Betlehem á svæði sem er hernumið og aðstæður eru erfiðar og krefjandi, ekki ólíkt jólasögunni. Enn er fólk allsstaðar, bæði við og þið, að lenda í aðstæðum sem það hefði aldrei viljað upplifa eða þurfa að takast á við og enn verður til ákveðin heimsendir í lífi allra foreldra í hvert skipti sem barn fæðist, því lífið verður aldrei eins fyrir þau sem það elska, heldur svo miklu meira.

Við megum heldur ekki gleyma því að jólasagan er líka saga af allskonar manneskjum með ólík hlutverk og köllun sem heila og gera allt betra í kringum sig og minnið þekkir svo vel og heldur fast í og þetta fólk stendur sem elskandi fyrirmyndir kynslóð eftir kynslóð, líkt og ómissandi vitaverðir í stormi. Fólk sem við elskum, söknum og minnumst sérstaklega á jólum.

Hvað voru vitringarnir annað en áfallasérfræðingar síns tíma, mættir með gjafir sem til þess eins voru gefnar að heila huga og líkama fólks sem leið illa. Gull til að gefa eitthvað fallegt fyrir augun að horfa á og til að tryggja öruggari ferðalag heim fyrir þetta litla viðkvæma barn og foreldra þess sem höfðu upplifað mikil áföll og erfiðleika. Mirra sem var smyrsli eða krem þessa tíma og hvað felur krem annað í sér en snertingu og fátt hefur jafn heilandi áhrif og snerting. Reykelsi, sem felur í sér góða lykt, en allar þessar gjafir voru til þess að hafa áhrif á skynfærin og helstu áfallasérfræðingar heimsins í dag mundu mæla með til þess minna á að lífið er fallegt og gott í innsta kjarnanum og ekkert heilar áföll eins og hlustun, nærvera, snertning og öryggi.

Og hvað voru hirðarnir annað en besta fréttaveita heims, samfélagsmiðlar okkar tíma. Þeir voru sérvaldi af Guði til að tilkynna heiminum fæðingu Jesúbarnsins. Fjárhirðar frá Beit Shour, litla þorpinu undir hlíðum Betlehem þar sem þau fátæku og smáðu bjuggu. Elskulegar kjaftaskjóður sem kjöftuðu öllu sem þeir heyrðu eða fréttu, ólíkt íbúum Betlehem sem hafa alltaf verið taldnir óttalega inn í sér og mjög lítið fyrir kjaftagang hvort sem það snýr að þeim persónulega eða samfélagslega.

Þess vegna er enn þann dag í dag sögð sú saga í Palestínu að Guð hafi sko valið nákvæmlega rétta fólkið til að tilkynna öllum heiminum fæðingu Jesúbarnsins í staðinn fyrir einhverjum háttsettum, nei, frekar þeim sem sögðu öllum, hvort sem þau vildu heyra eða ekki, meðtaka eða meðtaka ekki.

Nákvæmleg svona er jólasagan. Full af kraftaverkum, fólki með pokana fulla af gjöfum, heilun og köllun í það sem þau gera best, öll útvalin af kostgæfni af Guði og öll gerðu þau það sem þau þekktu í minninu og þjónuðu lífinu og köllun sinni af auðmýkt og fegurð.

Það er því okkar hlutverk að bera auðmýktina, fegurðina og kraftaverkið áfram, að lifa söguna í minninu og minningunum og gefa henni stöðugt og gott viðhald, því öll kraftaverk þurfa viðhald og umhyggju.

Látum þessi jól vera jól bæði minninga og sköpunar mennskunnar. Líkt og skáldið Victoría Ericson skrifaði svo fallega. Hún sagði að mögulega væru bestu jólin þau sem væru haldin í skýrleika, þar sem við bærumst til af ásettu ráði, þar sem við leiðum flæði jólanna af kærleika, eigum hnitmiðuð samskipti, erum jarðbundin og stöðug í okkur sjálfum. Þar sem við treystum sjálfum okkur og minninu, þar sem við syndum í eigin orku á meðan við erum rótföst í nærandi jarðvegi. Það eru hin nýju djúpu jól, líkt og jólasaga frelsarans krefur okkur um.

Þannig lifa sögur Biblíunnar og gefa okkur sérstaka túlkunarlykla fyrir hvert og eitt okkar. Þannig getum við mátað eigið líf og tilfinningar inn í veröld hins sameiginlega minnis og það er þar sem við uppgötvum að manneskjur er alltaf að glíma við sömu tilfinningarnar og tengslin sem verða til í huga og hjarta og snúa að þeim sjálfum, fólkinu í kringum þau og Guði, algjörlega óháð tíma.

Ekkert okkar er „out of order“ né án minnis né hlutverks né köllunnar, hvorki fyrir rúmlega tvö þúsund árum á stjörnubjartri og undursamlegri nótt í fjárhúsi í Betlehem né hér í kvöld.

Ég óska ykkur öllum enn og aftur gleðilegrar hátíðar og bið elskandi Guð að gefa okkur öllum og ástvinum okkar jólafrið og hin djúpu jól.

Amen.