Fara í efni
Mannlíf

Akureyrarkirkja verði nefnd eftir Matthíasi

Akureyrarkirkja - séra Svavari Alfreð Jónssyni, sóknarpresti þykir tímabært að kalla hana það sem höfundar kirkjunnar vildu nefna hana: Matthíasarkirkju. Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Í Alþýðumanninum 16. mars árið 1943 er frétt um það þegar hafist var handa við að rífa gömlu Akureyrarkirkju inni í Fjöru. Þá voru rúmlega tvö ár liðin frá því að nýja kirkjan á Grófargilshöfðanum var vígð. Sú gamla var svo illa farin að ekki var um annað að ræða en að taka hana niður.

Þegar smiðurinn sem um verkið sá réðst til atlögu við altarið, það allra helgasta í kirkjunni, kom í ljós undir gólffjölunum lítill blikkbaukur. Inni í honum var samanbrotið blað og á því orðsending frá yfirsmið kirkjunnar, Jóni Chr. Stephánssyni, timburmeistara.

Jón fæddist í Ystabæ í Hrísey en ólst lengst af upp hjá afa sínum, séra Baldvini Þorsteinssyni, presti á Upsum á Upsaströnd. Hann lærði smíðar bæði hér á landi og úti í Kaupmannahöfn, þar sem hann fékkst við skipasmíði. Sú færni hefur komið sér vel þegar Jón tók til við að smíða kirkjuskip Akureyrarkirkju hinnar eldri.

„Margt er miður en ég hefði óskað ... “

Jón var merkismaður. Hann átti sæti í fyrstu bæjarstjórn Akureyrar og var áhugasamur um framfaramál í heimabæ sínum. Gamla apótekið við Aðalstræti er meðal annarra byggingarverka hans.

Orðsending hans í bauknum sýna, að smiðurinn hefði viljað vinna að kirkjubyggingunni inni í fjöru af meiri metnaði en efni og aðstæður leyfðu á þeim tíma. Í skilaboðunum, sem þessi grandvari maður sendi inn í framtíðina og skrifaði rúmum sjö áratugum áður en þau fundust, segir:

„Margt er miður en ég hefði óskað við kirkjuna, því efnin hafa orðið að ráða. Ég hefi unnið að henni eftir kröftum og af góðum vilja og vona því, að þessi ófullkomnu verk mín vel lukkist. Þeir sem að verða til að rífa hana eða breyta og kunna að sjá þennan miða, mega ekki leggja harðan dóm á mig, þar ég hefi orðið að taka af litlum efnum.“

Þessu næst telur Jón upp alla sem unnu að verkinu en gerist síðan forspár: „Það er líklegt, að bein mín liggi löngu fúin (guð veit hvar), þegar kemur að því að Akureyrarkirkja verður byggð aftur upp, en það gleður mig að vita af því, að reynt muni til að gjöra hana betur úr garði en nú var hægt.....“

Jón lætur ekki nægja að óska þess að næsta kirkja á Akureyri verði vandaðri. Hann segist viss um að ný kirkja verði betur byggð en sú fyrri - og þótt hann viti ekki hvar bein hans eigi eftir að fúna er hann glaður í þeirri vissu.

Neðst á miðanum í bauknum sendir hann þeim, sem að kirkju vinna á eftir honum „geti gjört það sér til gagns og gleði og þeirri nýju kirkju til góðra nota“.

Akureyrarkirkja er án efa mest myndaða hús bæjarins og skyldi engan undra. Eyþór Ingi Jónsson organisti birti nokkrar myndir á Facebook síðu sinni í vikunni af „afmælisbarninu“, meðal annars þessar, og veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta þær með grein séra Svavars.

Akureyrarkirkja, Þjóðleikhúsið og Háskólinn

Jón Chr. Stephánsson reyndist sannspár. Ný Akureyrarkirkja var byggð af slíkum metnaði að athygli vakti bæði innanlands og utan. Akureyringum var óspart hrósað fyrir framkvæmdina. Í Kirkjuritinu rúmu ári eftir vígslu Akureyrarkirkju er mynd af kirkjunni og staðhæft að hún sé „vafalaust veglegasta kirkja, sem reist hefur verið á Íslandi í lúterskum sið“. Þar er ennfremur greint frá því að nokkrir enskir blaðamenn sem ferðast höfðu um landið á vígsluári kirkjunnar hefðu sagt að „þrennt hefði sérstaklega vakið athygli þeirra fyrir fegurðarsakir í nútímamenningu Íslands“. Þar tilgreindu hinir ensku blaðamann Akureyrarkirkju, Þjóðleikhúsið og Háskólann. Kirkjuritið lýsir ánægju sinni með samhuginn sem ríkti meðal Akureyringa við byggingu kirkjunnar. „Hún er fagurt tákn um einn vilja og háa lífshugsjón,“ segir þar.

Í sama streng tekur Jónas Jónsson frá Hriflu, einn áhrifamesti stjórnmálamaður þjóðarinnar á þeim tíma, en í jólablað Tímans árið 1940, rúmum mánuði eftir vígslu Akureyrarkirkju, ritar hann langa og ítarlega grein um „mesta og fegursta guðshús, sem íslenzka þjóðkirkjan ræður yfir“ eins og Jónas orðar það. Eins og blaðamaður Kirkjuritsins hrósar Jónas Akureyringum fyrir samstöðuna við þessa miklu framkvæmd en minna má á að ráðist var í verkefnið á afleitum tíma, í miðri heimsstyrjöld, þegar bæði var erfitt um aðdrætti og byggingarvörur á uppsprengdu verði. „Akureyrarbúar unna bæ sínum, þykir hann fagur og vilja gera hann enn fegurri,“ skrifar Jónas og segir þá „kunna að leysa vandasöm verk í félagi. Framsóknarmenn, Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn á Akureyri hafa staðið í einni þjóðfylkingu um að gera kirkju sína sem veglegasta. Jafnvel hinar mestu andstæður, kaupmenn og kaupfélagsleiðtogar, hafa staðið hlið við hlið alla þá stund, sem unnið var að reisa kirkjuna á Sigurhæðum. Ef það á fyrir Reykjavík að liggja, að byggja dómkirkju á Skólavörðuhæðinni, þá verða Reykvíkingar að læra af hinum norðlenzka höfuðstað „að hafa samtök“. Það er líka gamalt kjörorð frá tíma Jóns Sigurðssonar.“

Samvinnumaðurinn Jónas lét ekki nægja að að nota þetta tækifæri til að lyfta sínum háu og fögru hugsjónum. Í greininni gerðist hann guðfræðilegur og vakti athygli á þeim nýja tóni í sambúð trúar og listar á Íslandi sem honum fannst sleginn með byggingu Akureyrarkirkju.

„Siðabótin taldi sér nauðsynlegt vegna kjarna kristindómsins, að útiloka mikið af fegurð og draumlyndi miðaldakirkjunnar. Það var að mörgu leyti óbætanlegur skaði fyrir helgistarf kirkjunnar, þegar listin var gerð útlæg að miklu leyti, en söfnuðinum boðnir guðfræðilegir fyrirlestrar í þess stað. Á þessu þarf að verða breyting hér á landi. Listin þarf aftur að halda innreið sína í kirkju landsins. Á Akureyri hefir hið fyrsta musteri hins nýja tíma verið byggt. Þar getur orðið forusta í sameiningarmáli kirkju og listar.“

Séra Matthías

Niðurlag greinar Jónasar Jónssonar á að minni hyggju ekki síður erindi við okkar samtíð en lesendur jólablaðs Tímans á því herrans ári 1940.

„Nálega engin listaverk eru svo fullkomin, að ekki megi sjá á þeim einhver lýti. Svo er og um kirkjumál Akureyrar. Framkvæmd þessi er öll hin lofsamlegasta, nema að einu leyti. Bæjarbúar eru ekki almennt farnir að heimta, að þessi kirkja sé kennd við sr. Matthías. Þessir menn muna eftir gömlum presti í bænum, sem var í öllum venjum og háttum eins og þeir, góðlyndur, bjartsýnn Akureyrarbúi, sem andaðist þar í hárri elli og var grafinn upp í kirkjugarði. Þessum mönnum finnst ekki nægilegt tilefni að helga honum þessa kirkju, þó að hann væri þjóðskáld. Hann hafi þó aðeins verið mennskur maður eins og þeir. Þessi gagnrýni samvistarmanna er engan veginn bundin við Akureyri. Jafnvel Jesús Kristur gat ekki gert kraftaverk í ættborg sinni. Þar mundi fólkið eftir því, að hann var sonur Maríu og trésmiðsins.

Annars staðar á landinu er þessi samtíðartilfinning horfin. Menn vita að vísu, að Matthías var veikur reyr, undirorpinn þjáningum og ófullkomleika hins mannlega lífs. En hann hafði undarlega gáfu. Gegnum vitund hans streymdi trúarlegur vísdómur í fullkomlega listrænu formi inn í þjóðlíf Íslendinga. Aðeins einu sinni á þúsund árum hefir þjóðin eignazt annað trúarskáld með því líka yfirburði. Yfir þann mann er, eftir meir en tvær aldir, verið að reisa minningarkirkju við Hvalfjörð. Á Akureyri hefir kirkja Matthíasar verið reist, rétt hjá heimili hans og dánarbeði. Söfnuður Matthíasar hefir reist þessa kirkju. Í henni mun um margar aldir hljóma trúarljóð Matthíasar Jochumssonar. Enginn annar Íslendingar mun setja jafn varanlega merki sitt á andlegar athafnir í þessari kirkju eins og sr. Matthías.

Akureyringum ber mikill heiður fyrir forustu sína í mörgum hinna stærstu þjóðmála. Þeir eiga líka skilið þökk og aðdáun samborgara sinna fyrir glæsilega forustu við að tengja saman kirkjulegar athafnir og listrænan hugsunarhátt. Það er mannlegt, að þeir sjá ekki enn sinn mesta andans skörung í hæfilegri fjarlægð. En hjól tímans snýst ótt. Eftir skamma stund verða hin fornu sóknarbörn sálmaskáldsins mikla komin í sömu aðstöðu og aðrir landsmenn. Þá lifir ekkert nema minningin um skáldið, sem leggur krans ódauðlegrar frægðar yfir turna og hvelfingu fegurstu kirkjunnar, sem Íslendingar hafa byggt á undangengnum tíu öldum.“

Grein Jónasar nefnist Matthíasarkirkja á Akureyri. Mín skoðun er sú, að nú sé komið að því að gera kirkjuna á Grófargilshöfðanum enn fegurri og kalla hana það sem höfundar hennar vildu nefna hana.

Matthíasarkirkja á Akureyri var byggð sem trúarlegt listaverk. Megi hún halda áfram að vera staðurinn við enda himnastigans, þar sem trúin og listin sameinast í anda mesta listamanns sem bærinn hefur eignast.

Og megi hún enn gleðja hinn gamla timburmeistara hvar sem bein hans fúna.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifar að beiðni Akureyri.net, í tilefni 80 ára vígsluafmælis kirkjunnar sem var á þriðjudaginn. Þetta er fjórða grein Svavars.

Fyrsta grein - Fegursta kirkjustæði hérlendis og erlendis

Önnur grein - Kirkjulegar hvalveiðar og ómetanlegt kvenfélag

Þriðja grein - Kamarsnið á turninum eins og dómkirkjunni