Fara í efni
Mannlíf

Það sem er og það sem er Orðið

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.

Séra Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur predikaði við hátíðarmessu í Akureyrarkirkju eftir hádegi í dag, jóladag.

Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Orðið varð hold. Ekki tapa þolinmæðinni gagnvart mér þó ég fari í örlitla trúfræði hér í upphafi ræðunnar, það gengur fljótt yfir og við taka skiljanlegri pælingar, nema mér takist að gera trúfræðina líka skiljanlega sem er alltaf möguleiki. En sem sagt Orðið varð hold, sem þýðir að Guð gerðist manneskja í Jesú Kristi sem var hér á meðal okkar og gekk um jörðina en tók síðan á sig breyskleika og takmarkanir mannsins, streittist ekki á móti krossfestingunni og reis upp til þess að sýna þeim sem þjást, meðal annars undan breyskleika og takmörkunum mannsins að það er alltaf von. Að í verstu mögulegu kringumstæðum lífsins er alltaf von. Og þetta gerði Guð í Jesú til þess að við getum komist í gegnum erfiðleika án þess að gefast upp og líka til þess að efla með okkur samúð og samkennd með þeim sem eru að ganga í gegnum þjáningar eða jafnvel helvíti. Þess vegna steig Jesús ekki niður af krossinum þó hann hefði vissulega getað það því hann vildi stíga niður til heljar með manneskjunni og reisa hana svo við. Og þetta gerði hann og fann til og var kvíðinn og einmana.

Þetta er kristin trúfræði í hnotskurn, í mjög fáum orðum en mikilvæg til að undirstrika það hversu mikið fagnaðarerindi það er á hverjum jólum að Orðið hafi orðið hold og búið með okkur fullt náðar og sannleika. Þetta skiptir ekki bara einhverju máli, heldur ÖLLU máli og gerir það að verkum við getum komist í gegnum allt, líka það sem okkur finnst óhugsandi að komast í gegnum. Og þrátt fyrir að Jesús hafi síðan stigið upp, horfið sjónum lærisveinanna þá sendi hann okkur anda sinn, hinn heilaga anda til að við gætum alltaf fundið fyrir honum og vitað hvar hann væri og haldið okkur þar. Meðal annars í náttúrunni og í alvöru tengslum við fólk og þegar við förum inn í sköpunarkraftinn okkar og nýtum hæfileikana, náðargjafirnar frá Guði og sköpum eitthvað sem hjálpar okkur og öðrum að sjá lífið frá nýju sjónarhorni. Og þegar við göngumst við breyskleika okkar, þegar við fyrirgefum og auðsýnum miskunnsemi og tökum ábyrgð á okkur í einu öllu sem fullorðið fólk, gerumst vitur. Þar er heilagur andi, þar er sjálfur Jesús með okkur að ég tali nú ekki um þegar við horfum í augu barna og meðtökum undrun þeirra, einlægni, fyrirvara og fordómaleysi og fölskvalausa gleði yfir flestu því sem er okkur að kostnaðarlausu. Börn hrífast nefnilega ekki af verðmiðum heldur andartökum þar sem er leikur og áhugi fullorðinna á hugarheimi þeirra. Og nú erum við í raun komin að því sem mig langaði að koma til skila í þessari jólaprédikun. Orðið varð hold og bjó á meðal mannanna.

Það sem gerir það að verkum að traust til kirkjunnar mælist nú meira en fyrir hrun er auðvitað margt og ekki skal gera lítið úr einstaka persónum sem unnið hafa gott verk í hennar þágu en þegar öllum steinum er velt við blasir við að á þessum sautján árum sem liðin eru frá hruni hefur einsemd manneskjunnar aukist til muna. Þetta er ekki bara einhver persónuleg tilfinning sem ég hef fyrir aðstæðum heldur marktækar rannsóknir sem sýna að manneskjan glímir við sífellt meiri einsemd. Og ekki nóg með það heldur sýna rannsóknirnar líka hversu neikvæð áhrif einmanaleiki og einsemd hefur á heilsu fólks. Orðið varð hold eru fyrstu skilaboð Jesú til okkar um að við þörfnumst nærveru annars fólks. Við þurfum á mannlegri nærveru að halda, jafnvel þó sum okkar kunni vel að vera ein og þurfi jafnvel á reglubundinni einveru að halda. Það breytir þó ekki því að við þörfnumst jafnframt nærveru, þess vegna fæðumst við náttúrlega í fang foreldra og ölumst upp í fjölskyldu. Og þörfin er jafnvel svo sterk að þótt fjölskyldurnar geti reynst alveg snarvanvirkar á köflum þá elskum við þær samt og þrífumst á samvistum og þó geta samvistirnar verið kannski að hálfu leyti gleði, einn fjórði gremja og einn fjórði tuð. Þrátt fyrir það sækjum við í fólkið okkar þannig er það bara. Engar fjölskyldur eru fullkomnar, allra síst þær sem láta eins og svo sé. Á sama tíma og hrunið varð kom facebook til skjalanna og síðan þá á sirka sautján árum hafa samfélagsmiðlar tekið yfir líf okkar á vissan hátt, með kostum sínum og göllum og auðvitað verður aldrei farið til baka, þetta er komið til að vera enda lífið stanslaus þróun. Fyrir sautján árum var mjög vinsælt að hnýta í kirkjuna, tortryggja fagmennsku hennar og heilindi, meðal annars þegar kom að heimsóknum skólabarna og almennt var svona frekar hæðst að trúrækni í opinberri umræðu frekar en hitt. Á sama tíma var kirkjan bara að sinna því sem hún hafði alltaf sinnt og hélt því áfram vegna þess að það er einfaldlega erindi hennar. Daglegt líf kirkjunnar um landið er fólgið í samfylgd við þjóðina í gleði og sorg og góðu fréttirnar alltaf þær sömu að Guð gerðist manneskja, hann þjáist með þér og reisir þig við á þriðja degi hvort sem sá dagur kemur eftir þrjá daga, þrjár vikur, þrjá mánuði eða þrjú ár.

Það sem gerðist í Covidfaraldrinum var heldur betur neikvætt harmrænt og erfitt en á sama tíma og þegar við lítum um öxl kenndi sú þrautaganga okkur líka hve mikið við þörfnumst nærveru annarra, í holdi. Faraldurinn kenndi okkur það með góðu og illu. Já með því annars vegar að stýra okkur til langvarandi samvista við okkar nánustu og síðan algjörrar einangrunar. Sumir voru örugglega samt minna einmana á þessum tímum heldur en í dag þegar allt er komið á fulla ferð og hjól atvinnulífsins snúast á ógnarhraða.

Við eru smátt og smátt að uppgötva og átta okkur á því að við þörfnumst þess að vera saman í holdi og blóði og þótt möguleikarnir til þess séu fjölmargir þá eru þröskuldarnir mislágir, af því að þannig virka jú mannheimar. En þröskuldur kirkjunnar er enginn, hér á enginn neitt nema Guð, kirkjan er í raun fjárhúsið í Betlehem forðum. Í kirkjunni lútum við barninu en ekki valdinu, í kirkjunni erum við systkini en ekki samkeppnisaðilar, í kirkjunni eru fjárhirðar og vitringar samferða upp að altarinu og stöðutákn útmást og fátækt skilgreinist út frá getunni eða vangetunni til að sýna kærleika og góðvild. Og svona hefur þetta verið og mun alltaf vera. Pendúllinn mun hreyfast, nú er kirkjan vinsæl, hver veit hvað verður eftir tíu ár en eitt er víst að Orðið varð hold og það býr með okkur fullt náðar og sannleika og er ekkert á förum. Heilagur andi blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans án þess að fanga hann og því verður alltaf til kirkja, alltaf skjól, ekki bara um jól.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.