Markmið um áramót eða ásetningur
„Áramótin marka ákveðin þáttaskil. Einu ári lýkur og annað hefst. Fyrir marga er þetta tími uppgjörs og nýrra áforma, tími þar sem við erum hvött til að horfa fram á við, setja okkur markmið og ákveða hverju við viljum breyta,“ segir Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir í heilsupistli dagsins á akureyri.net. „Fyrir suma vekja áramótin þeim eldmóð í brjósti og skýrari sýn. Fyrir aðra geta tímamótin verið sem enn ein pressan um að standa sig betur og kallað fram streitu eða þreytu. Fyrir marga er þetta blanda af þessu öllu.“
Kannski þurfa áramótin ekki endilega að vera kveikjan að enn einum „to do“ listanum, segir Hrafnhildur. „Kannski getum við frekar litið á þau sem tækifæri til þess að staldra við og líta yfir farinn veg. Tækifæri til að sjá hvað við lærðum af sigrum og sorgum síðustu mánaða. Tilhneigingin er oft sú að muna það sem ekki gekk upp. Markmið sem ekki náðust eða áformin sem runnu út í sandinn. En þegar við hægjum á, þökkum fyrir gjafirnar sem lífið færði okkur og finnum samkenndina á erfiðum stundum, þá sjáum við einnig tengslin sem skiptu okkur máli og augnablikin sem héldu okkur gangandi eða gáfu lífinu lit.“
Hrafnhildur Reykjalín og Guðrún Arngrímsdóttir, eigendur Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar á Akureyri, skrifa pistla fyrir akureyri.net sem birtast annan hvern þriðjudag.
- Pistill Hrafnhildar: Ásetningur á áramótum