Fara í efni
Mannlíf

„Maður lærir að allt hitt skiptir engu máli“

Alfreð og Kara Melstað á mikilli kveðjuhátíð sem haldin var í keppnishöll THW Kiel vorið 2019, þegar Alfreð hætti sem þjálfari liðsins eftir magnaða sigurgöngu í rúman áratug. Mynd af vef THW Kiel.

Akureyringurinn Alfreð Gíslason er í einlægu viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Snorra Björns. Þar ræðir Alfreð m.a. um glæsilegan feril sinn sem handboltamaður og þjálfari, fjölbreytt áhugamál og um veikindi og andlát Köru Guðrúnar Melstað, eiginkonu hans til rúmlega 40 ára, sem lést fyrr á þessu ári langt fyrir aldur fram.

Kara veiktist árið 2019, stuttu eftir að Alfreð hætti sem þjálfari þýska handboltastórveldisins THW Kiel, en þar hafði hann verið við stjórnvölinn í liðlega áratug með frábærum árangri.

Alfreð segir frá því að dag einn þegar þau hjónin sátu við morgunverðarborðið hafi hann tekið eftir því að andlit Köru var slappara öðrum megin. Systir Köru, sem kom í heimsókn daginn eftir, tók líka eftir þessu.

„Eftir þessa helgi fórum við til Kiel í skoðun. Ég óttaðist að þetta væri vægt heilablóðfall en þá kom í ljós að hún var með krabbamein í heila,“ segir Alfreð í viðtalinu.

Stórkostlegasta manneskjan

Alfreð segir að eftir sex umferðir í krabbameinsmeðferð hafi allt litið mjög vel út og þau komið heim til Íslands fyrir rúmlega ári, mjög jákvæð og bjartsýn. „Eftir það fór hún í næstu sex umferðir til að ganga vonandi frá þessu. En áður en þessar sex umferðir voru búnar vorum við farin að taka eftir að eitthvað væri ekki í lagi. Þá var komið annað og stærra mein. Við fengum niðurstöðu úr því í byrjun maí og 31. maí dó hún. Það gerðist mjög hratt,“ sagði Alfreð.

Kara og Alfreð kynntust á unglingsaldri og höfðu verið saman í meira en fjóra áratugi. „Hún var ekki bara konan mín heldur besti vinur minn og harðasti gagnrýnandi minn. Hún er stórkostlegasta manneskja sem ég hef kynnst,“ sagði Alfreð.

„Nei!“

Alfreð tók við þjálfun þýska landsliðsins snemma árs 2020 en segist hafa ætlað að hætta þegar ljóst var ástand Köru væri að versna.

„Einhvern tímann, sérstaklega þegar þetta leit rosalega vel út og að við myndum sigrast á þessu, var það eiginlega hún sem vildi að ég færi aftur í þetta, væri með landslið og væri meira heima,“ segir Alfreð.

„Síðan þegar þetta fór í hina áttina, þegar ég kom heim úr landsliðslotu og við fórum til læknis til að fá niðurstöðu úr prófunum, voru fyrstu viðbrögð hjá mér að segja að ég væri hættur. Ég segi upp hjá [þýska] sambandinu, við förum heim til Íslands og eigum saman tíma heima. Á þessum tíma gat hún ekki talað, bara sagt já eða nei. Og hún hvæsti á mig: nei! Þá sagði ég að við færum samt heim en hún sagði nei.“

Berst við reiðina

Alfreð segir að fráfall Köru hafi breytt sýn hans á lífið. Hann geri sér vel grein fyrir því nú hvað skipti í raun máli í lífinu.

„Við vorum mjög gott teymi og ég lærði mikið af henni. Hún er heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst. Í fyrsta lagi berst maður við reiðina yfir þessari ósanngirni. Ef einhver hefði ekki átt að lenda í þessu var það hún. Af þessu lærir maður að allt hitt skiptir engu máli. Hvað er mikilvægt við handboltaleik eða smá áhyggjur af einhverju þegar maður upplifir svona?“

Hér hægt að horfa á viðtalið í heild:

Alfreð og Kara, umkringd fjölda leikmanna sem spilað höfðu undir stjórn Alfreðs, á glæsilegri kveðjuhátíð sem haldin var íþróttahöll THW Kiel vorið 2019 þegar hann var kvaddur með pompi prakt eftir einstakan feril sem þjálfari liðsins. Mynd af vef THW Kiel.