Fara í efni
Mannlíf

Jafnaði KA-metið en Alli á Íslandsmetið!

Einar Rafn Eiðsson jafnaði félagsmet KA þegar hann fór hamförum í 33:33 jafnteflinu geg Gróttu í KA-heimilinu á sunnudaginn, í Olís deild Íslandsmótsins. Einar gerði 17 mörk í leiknum.  Arnór Atlason átti metið, hann gerði 17 mörk gegn Þór 11. nóvember 2003. Þetta er rifjað upp á heimasíðu KA í dag.

„Þessi stórbrotna frammistaða Einars hefur eðlilega vakið mikla athygli en þessi magnaði leikmaður gerði 10 af mörkum sínum úr opnum leik og 7 af vítalínunni. Ekki nóg með það að þá var skotnýtingin algjörlega til fyrirmyndar en hann klikkaði einungis á þremur skotum í leiknum sem gerir 85% skotnýtingu,“ segir í skemmtilegri upprifun á KA-síðunni.

Einar Rafn er markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar í vetur. Hefur gert 100 mörk í fyrstu 12 leikjum vetrarins sem gera 8,3 mörk að meðaltali í leik, eins og rifjað er upp á heimasíðu KA. „Undanfarin tvö ár hefur KA átt markakóng deildarinnar en báðir eru þeir örvhentir rétt eins og Einar. Árni Bragi Eyjólfsson var markakóngur 2020-2021 með 163 mörk sem gera 7,4 mörk að meðaltali og Óðinn Þór Ríkharðsson var markakóngur á síðustu leiktíð með 149 mörk eða 7,1 mark að meðaltali í leik.“

Arnór Atlason átti KA-metið einn fyrir stórleik Einars en hann gerði 11 af sínum 17 mörkum úr opnum leik gegn Þór og 6 af vítalínunni, að því er segir á KA-síðunni. Hann er reyndar einnig í öðru sæti, ef svo má segja, á markalista KA; Arnór gerði 16 mörk í ótrúlegum 35:34 sigri KA á Íslandsmeisturum Haukum í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar og KA-menn urðu svo bikarmeistarar um vorið.

„Arnór varð markakóngur efstu deildar þennan vetur en hann gerði alls 237 mörk sem gera 9,48 mörk að meðaltali í leik. Hann var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar og sá efnilegasti en þetta afrekaði hann aðeins 19 ára gamall,“ segir á heimasíðu KA í dag.
 _ _ _

ALFREÐ Á ÍSLANDSMETIÐ

  • Vert er að geta þess að enn einn KA-maðurinn á Íslandsmetið; hefur skorað flest mörk allra í einum leik í efstu deild Íslandsmótsins. Sá er enginn annar en Alfreð Gíslason. Hann gerði hvorki fleiri né færri 21 mark í leik sem fram fór í Laugardalshöllinni föstudagskvöldið 19. mars 1982.
  • KA-menn fögnuðu þó alls ekki það kvöld því Alfreð, sem lék með KR þennan vetur, gerði öll þessi mörk gegn KA í lokaumferð Íslandsmótsins. Hann varð markakóngur með 129 mörk í 14 leikjum en KA-menn urðu neðstir í deildinni og féllu.
  • Handbolti.is rifjaði upp að Alfreð bætti þetta kvöld 19 ára gamalt met Ingólfs Óskarssonar, leikmanns Fram, um eitt mark.

Alfreð Gíslason skorar fyrir KA gegn Þór í Íþróttaskemmunni sálugu á Oddeyri, veturinn 1978 - 1979. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson