Lykillinn að vera til staðar fyrir hvort annað
Arna Sif Ásgrímsdóttir er nýflutt heim til Akureyrar og búin að semja við uppeldisfélagið sitt, Þór/KA. Hún segir að það hafi alltaf verið draumurinn að ljúka knattspyrnuferlinum þar sem hún hóf hann, og er glöð að vera komin norður aftur með sína menn. Hún er í sambúð með Hjalta Rúnari Jónssyni leikara og eiga þau saman soninn Ásgrím Jaka sem er nýlega orðinn 10 mánaða.
Þetta er þriðji og síðasti hluti viðtalsins við Örnu Sif Ásgrímsdóttur og Hjalta Rúnar Jónsson.
- FYRSTI HLUTI – „AUÐVELD ÁKVÖRÐUN AÐ FLYTJA HEIM AFTUR“
- Í GÆR – MEIRA DRAMA Á LEIKSVIÐI EÐA FÓTBOLTAVELLI?
Arna Sif þjálfaði 5. flokk kvenna hjá Val, og í vetur ætlar hún að taka að sér þjálfun samhliða æfingum og því að dúllast með drengnum. „Ég ætla að taka að mér einhverja þjálfun hjá kvennaflokkum, koma inn og hjálpa til. Mér finnst það mjög spennandi og finnst ótrúlega gaman að þjálfa, en ég hef þjálfað mikið samhliða því að vera leikmaður alveg síðan ég var 16 ára.“

T.v. Arna Sif þjálfaði 5. flokk kvenna hjá Val, en hún hefur mikla reynslu af þjálfun. T.h. Arna Sif var ekki há í loftinu þegar hún sparkaði fyrst í bolta í Þórsgallanum. Myndir: aðsendar
Bjartsýn fyrir sumrinu, en mikil vinna til stefnu
„Það er spennandi sumar framundan, og ég er ennþá í þeirri vinnu að koma til baka eftir meiðsli og barnsburð. Ég er ennþá svolítið fjarri mínu besta og mikil vinna framundan í vetur,“ segir Arna Sif. „Ég hef mjög mikla trú á því að við getum gert frábæra hluti í sumar hjá Þór/KA. Deildin er að breytast, leikmenn og þjálfarar að koma og mörg lið í því að yngja liðin sín og það verða óreyndari leikmenn inn á milli.“
„Það eru alveg tvö ár sem ég hef ekki getað verið með, og ég hlakka mikið til að vera all-in í sumar,“ segir Arna Sif, en það er mikill fengur fyrir kvennafótboltann á Akureyri að fá hana heim sem leikmann og þjálfara.

T.v. Hjalti Rúnar er svo sannarlega orðinn góðkunningi leikhússlífsins á Akureyri, en hann hefur tekið þátt í flestum sýningum LA síðustu tvö ár. Hér fer hann mikinn í gervi Krýlu í Jóla-Lólu. T.h. Næsta stóra verkefnið er rokk-óperettan Birtíngur. Myndir: MAk
Jólaglögg og Jóla-Lóla
Það hefur verið mikið að gera í leikhúsinu hjá Hjalta undanfarið; hann var með sex sýningar helgina áður en þau Arna Sif ræddu við akureyri.net og sjö helgina þar á eftir, en síðan varð rólegra þegar nær dró jólum. „Jólaglögg og Jóla-Lóla eru skemmtilegar sýningar og það er svo gaman að sýna þær. Ég skrifaði Jóla-Lólu í fyrra ásamt hinum leikurunum og Bergi Þór leikstjóra, og okkur þykir mjög gaman að sýna hana aftur. Sýningin fékk tilnefningu til Grímu-verðlaunanna, sem við erum mjög stolt af.“ Jólaglögg er frumsamið verk úr smiðju atvinnuleikhópsins Umskiptinga, en Leikfélag Akureyrar lánaði Hjalta og Vigdísi Höllu Birgisdóttur til þess að taka þátt í sýningunni. „Jólaglöggið er mjög skemmtilegt, fólk er búið að vera að hlæja af sér rassgatið,“ segir Hjalti.
Margt í Birtíngi á ennþá við í dag, óþægilega margt kannski
Það sem tekur við eftir áramót er að byrja að æfa Birtíng, stóru sýningu vorsins hjá LA, sem verður frumsýnd í lok febrúar. „Mér líst rosalega vel á þetta verkefni,“ segir Hjalti. „Bergur Þór leikhússtjóri er að leikstýra og gerir leikgerðina, og þetta er allt í hans anda. Svo er Þorvaldur Bjarni í gríð og erg að leggja lokahönd á frumsamda tónlist. Verkið er byggt á bókinni eftir Voltaire frá 18. öld, en það er margt í henni sem á ennþá við í dag, óþægilega margt kannski.“
„Það er ótrúlega spennandi að vera með nýja tónlist, en það er búið að kynna þetta sem rokk-óperettu, þannig að það verður alvöru dæmi í gangi!“
Meiri skrif á sjóndeildarhringnum
Hjalti er í samvinnu við vini sína og kollega Kristinn Óla Haraldsson, Króla, og Vilhjálm B. Bragason, en meðal annars skrifuðu þeir saman gamansýningu í fyrra sem var sýnd í Háskólabíó, Ber er hver. „Við erum alltaf eitthvað að dútla, þó að það sé mikið að gera hjá öllum. Planið er að vera með einhver leikrit á næstu árum frá okkur, en ég hef ofboðslega gaman af því að skrifa fyrir leikhús. Þegar ég var nýútskrifaður sem leikari fékk ég ekkert að gera þannig að ég fór að prófa mig áfram við skriftir. Fyrst var það nú arfaslakt, en svo þegar ég hitti þá tvo, þá fundum við svona okkar rödd í þessu saman og yfirleitt er nú húmor að leiðarljósi. Einhver gefandi steypa!“

T.v. Hjalti leikur í Galdragáttinni, sem var sett upp árið 2019 í Samkomuhúsinu. Hér er hann með Vilhjálmi B. Bragasyni, en þeir hafa margt brallað saman við skrif og leik. T.h. Verkið 'Ber er hver' sem Hjalti skrifaði ásamt Vilhjálmi og Kristni Óla, en planið er að fleiri verk renni úr smiðju þeirra félaga næstu árin.
Ekki bara andleg steypa, líka alvöru steypa
Ekki allir vita að Hjalti grípur líka í múrverk annað slagið, en pabbi hans er múrarameistari auk þess að vera leikari. „Múrinn er svona ættardjobbið,“ segir Hjalti. „Ég gríp í þetta með pabba þegar ég get, og finnst mjög gaman. Það verður eitthvað um það í sumar örugglega.“
„Annars er bara á döfinni að læra eitthvað Akureyrarstöff, eins og að fara á gönguskíði,“ segir Hjalti brattur. „Það væri gaman að fara aftur á snjóbretti eins og ég gerði í gamla daga, njóta þess að geta farið í Hlíðarfjall og svona. Við vorum að ræða um þetta lýðheilsukort sem allir eru að tala um. Svo þarf að finna tíma náttúrulega í þannig stúss. Sjáum til hvernig það gengur!“
Fyrstu jólin hjá Ásgrími
Arna og Hjalti segjast ekki hafa verið mikil jólabörn áður fyrr, eða ekki spáð mikið í það allavega. „Við höfum verið undanfarin ár hérna fyrir norðan um jólin, og þó að við séum flutt norður erum við ekki komin í fast húsnæði, þannig að við verðum hjá fjölskyldunni hennar Örnu í ár,“ segir Hjalti, og segir að hann tengi jólin mest við sveitina og eflaust kíkja þau þangað í jólafríinu.
Það er eitthvað að koma yfir mig held ég!
„Ég hef aldrei verið að spá mikið í jólunum, en svo gerðist eitthvað fyrir svona tveimur árum,“ segir Arna Sif. „Allt í einu í nóvember langaði mig til þess að fara að hlusta á jólalög og skreyta, þannig að það er eitthvað að koma yfir mig held ég! Og þó að Ásgrímur sé nú bara 10 mánaða núna, þá er einhver spenningur líka fólginn í því að fá að upplifa fyrstu jólin með honum.“

Fyrstu jólin hans Ásgríms Jaka renna upp innan skamms, og það er eftirvænting hjá litlu fjölskyldunni. Mynd: RH
En hver er dramatískastur?
Í upphafi viðtalsins stilltum við upp spurningu sem væri gaman að kafa í, en hver er dramatískastur í hópi atvinnuleikara, íþróttamanns og ungabarns? Hjalti og Arna viðurkenna bæði að hafa mikla þörf fyrir að tala og 'ranta' um lífið í vinnunni, en bæði eru þau í líflegri og síbreytilegri vinnu. Ásgrímur Jaki er súkkat enn sem komið er, en það verður spennandi að sjá hvort hann nái að toppa foreldra sína þegar fram líða stundir.
„Ég áttaði mig alls ekki á því hvað íþróttalífið er mikið bras og hvernig hugarfar íþróttamanns þarf að vera,“ segir Hjalti, „en ég hef alltaf gaman af því að hlusta á það sem gengur á.“ „Já, ég tek undir það,“ segir Arna. „Mér finnst mjög áhugavert að heyra um það sem gengur á í leikhúsinu og mér finnst ég oft geta tengt við það.“
Við erum reyndar frábær í því bæði að ráðleggja hvort öðru í dramaköstum
Bæði fótboltinn og leikhúsið ganga mikið út á liðsheild, þar sem mannleg samskipti eru gríðarlega mikilvæg. „Svo er þetta náttúrulega í grunninn skemmtun, bæði íþróttaleikir og leiksýningar,“ bendir Hjalti á. „Fólk hefur oft miklar skoðanir og væntingar í sambandi við það sem við erum að gera, sem getur verið flókið að díla við, sem skemmtikraftur eða íþróttamaður.“

Allt í himnalagi, að vera bæði svolítið dramatísk, því þau eru í sama liði. Myndir: aðsendar
Leikarinn trompar í dramatík
Arna og Hjalti komast að þeirri niðurstöðu, að leikarar séu dramatískari en íþróttamenn, og eru sammála um það. „Arna sagði mér frá einu sem mér fannst svolítið áhugavert,“ segir Hjalti varðandi dramatík í vinnunni. „Á æfingum voru þær með eitthvað sem hét að 'dramasekta', en þá mátti segja DRAMASEKT ef einhver var að missa sig eitthvað og þá var yfirleitt málið dautt.“
„Ég er að spá í að reyna að koma þessu á koppinn í leikhúsinu,“ bætir hann við og hlær. „Það er nú reyndar talað um það, bæði hjá okkur og í boltanum hjá Örnu, að maður skilur sitt persónulega drama eftir heima þegar maður mætir í vinnu, þó að það gangi kannski misvel að fara eftir því.“
Ólíkir heimar sem vinna vel saman
„Ég er dramatískari,“ segir Hjalti. „Eða ég veit það ekki, ég er allavegana gjarnari á að dramatísera smáatriðin! Við erum sennilega þarna bæði, en blessunarlega þá hafa dramatímabilin okkar ekki skarast alvarlega, og getum þá verið til staðar fyrir hvort annað!“ Arna tekur undir og segist sjálf vera frekar dramatísk. „Við erum reyndar frábær í því bæði að ráðleggja hvort öðru í dramaköstum, þar sem við þekkjum það vel að vera þarna sjálf!“
„Kannski ætti það ekkert endilega að fara vel saman, að leikari og afreksíþróttamaður búi saman,“ segir Hjalti. „Þetta er náttúrulega um margt ólíkir heimar,“ bætir Arna við. „En það hefur nú gengið merkilega vel. Við höfum líka passað upp á að við erum líka tveir einstaklingar, þó að við séum saman. Og við berum mikla virðingu fyrir því sem hinn aðilinn er að gera.“

Þetta var síðasti hluti af þremur, af viðtalinu við Örnu Sif og Hjalta Rúnar.
- FYRSTI HLUTI – „AUÐVELD ÁKVÖRÐUN AÐ FLYTJA HEIM AFTUR“
- ANNAR HLUTI – MEIRA DRAMA Á LEIKSVIÐI EÐA FÓTBOLTAVELLI?