Fara í efni
Mannlíf

Lundarskóli fagnaði sigri í Fiðringi

Lið Lundarskóla sem varð hlutskarpast í hæfileikakeppninni Fiðringi.

Lundarskóli stóð uppi sem sigurvegari í Fiðringi á Norðurlandi sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi á fimmtudagsvköldið. Þar er um að ræða hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskóla á Norðurlandi sem haldin var í fyrsta skipti.

Yfir 100 nemendur í áttunda, níunda og tíunda bekk frá átta skólum á Akureyri og nærsveitum stigu á svið. Þetta var í fyrsta sinn sem Fiðringur er haldinn en hann er að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi.

María Pálsdóttir, verkefnastjóri Fiðrings, segir orkuna í Hofi hafa verið einstaka. „Það var ansi magnað að fá að sjá hvað krökkunum liggur á hjarta. Áhorfendur fengu góða innsýn í þeirra veruleika, sem getur oft verið ansi flókinn,“ segir María í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar (MAk).

Kynnar kvöldsins voru leikararnir Árni Beinteinn og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Norðlenski rapparinn Ragga Rix tók tvö lög og sömuleiðis Jói Pé og Króli.

Eins og áður segir var það Lundarskóli sem stóð uppi sem sigurvegari með atriðið Body sem fjallar um líkamsímynd. Í öðru sæti var Oddeyrarskóli með atriðið Kæra dagbók og í þriðja sæti var Naustakóli með Það breytist aldrei neitt, sem fjallaði um áreitni sem konur hafa orðið fyrir kynslóð eftir kynslóð.

„Þau dönsuðu frumsamnda dansa og sungu frumsamin lög sem og þekkta slagara, léku heilu frumsömdu örleikritin og einfaldlega blómstruðu á sviðinu. Vonandi var þetta bara fyrsti Fiðringur af mörgum,“ segir María.

Fiðringi hleypt af stokkunum í kvöld