Fara í efni
Mannlíf

Fiðringi hleypt af stokkunum í kvöld

Anna Lóa Sverrisdóttir, nemandi í 9. bekk Brekkuskóla, með farandverðlaunagripinn sem hún hannaði. Til vinstri: baksviðspassi sem allir keppendur bera, hannaður af Amöndu Eir Steinþórsdóttur, nemanda í 10. bekk í Naustaskóla.

Fiðringur, hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskóla á Norðurlandi, fer fram í kvöld í fyrsta skipti í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

  • Almenningi gefst kostur á að mæta í Hof í kvöld. Miðasala hófst í morgun og aðgangseyrir er 1.000 krónur. Smellið hér til að kaupa miða.

Fiðringur er að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi „og nú er komið að Norðurlandi að gefa grunnskólanemum í 8. 9. og 10. bekk kost á svona skemmtilegri, krefjandi og þroskandi hæfileikakeppni. Við hjá Menningarfélagi Akureyrar ákváðum að bretta upp ermar og koma þessu á koppinn með góðum fjárstyrk frá SSNE,“ segir í tilkynningu frá MAk.

Átta skólar á Akureyri og tveir nærsveitarskólar etja kappi. Hver skóli má senda eitt atriði sem er hámark sex mínútur að lengd og er atriðið alfarið þeirra sköpun. „Allar listgreinar eru undir og verður spennandi að sjá hvað hvílir helst á nemendum norðanlands, þetta er dýrmætur vettvangur til þess að láta rödd sína heyrast.“

Mesta fjörið að taka þátt

„Úrslitin eru kannski ekki aðalatriðið, mesta fjörið er að taka þátt í þessu ævintýri,“ segir í tilkynningunni.

  • Í dómnefnd sitja tveir fulltrúar úr ungmennaráði Akureyrarbæjar, Marta Nordal leikhússtjóri LA, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri SN og Anna Richardsdóttir dansari og gjörningalistamaður.
  • Kynnar verða leikararnir Árni Beinteinn og Þórdís Björk sem hafa gert það gott hjá Leikfélagi Akureyrar undanfarið.
  • Jói P og Króli voru kosnir af nemendum í gegnum Instagram til að troða upp og einnig kemur fram akureyrski rapparinn Ragga Rix.
  • Farandverðlaunagripur var hannaður af nemanda í 9. bekk Brekkuskóla, Önnu Lóu Sverrisdóttur, og verður hann afhentur sigurliðinu. Þá bera keppendur baksviðspassa sem hannaður var af nemanda í 10. bekk í Naustaskóla, Amöndu Eir Steinþórsdóttur.

Sýnt verður beint frá Fiðringi á RUV2. Útsending hefst klukkan 20.00.