Fara í efni
Mannlíf

Lumarðu á góðum sögum úr vinnunni?

Starfsmenn Slippstöðvarinnar voru mest liðlega 300 um 1970, þegar strandferðaskipin Hekla og Esja vo…
Starfsmenn Slippstöðvarinnar voru mest liðlega 300 um 1970, þegar strandferðaskipin Hekla og Esja voru smíðuð - og því án efa margar sögur til! Þetta er mynd frá 1967, tekin um það leyti sem Eldborg GK13 var afhent eigendum, annað stálskipið sem smíðað var í Slippnum.

Stefnt er að því að bjóða gestum Iðnaðarsafnsins á Akureyri upp á hljóðleiðsagnir sem fólk getur hlustað á í snjallsímanum þegar það gengur um safnið. Nú stendur því yfir söfnun frásagna starfsmanna hinna ýmsu iðnfyrirtækja bæjarins í gegnum tíðina og Iðnaðarsafnið biðlar til fyrrverandi starfsfólks Sambandsverksmiðjanna, K. Jónssonar, Lindu, Slippstöðvarinnar, Kjötiðnaðarstöðvar KEA og allra hinna iðnfyrirtækja bæjarins á síðustu öld. Frestur til að skila inn frásögnum er til 26. janúar.  

Hugmyndin er að safna saman stuttum frásögnum; sögum af skemmtilegum atvikum, sérkennilegum vinnuaðstæðum, minnistæðum vinnudögum og vinnufélögum, auk þess að safna saman algengum orðatiltækjum og vísum sem kunna að hafa orðið til, heyra af miklu vinnuálagi, af vináttu og félagsstarfi á vinnustöðum, svo fátt eitt sé nefnt.

Fólk getur hvort sem er skrifað eigin frásagnir eða sagt frá og aðrir skrifa. Einnig er hægt að taka upp frásagnir þeirra sem vilja segja frá og spila þær þegar þar að kemur. 

Þeir sem vilja skrifa niður sögur geta sent þær í pósti á netfangið idnadarsafnid@idnadarsafnid.is eða sem einkaskilaboð á Facebooksíðu Iðnaðarsafnsins. Einnig er hægt að hringja í safnstjórann, Jónu Sigurlaugu í síma 863 1355 eða Sóleyju Björk Stefánsdóttur stjórnarformann í síma 844 1555 og segja þeim frá.