Fara í efni
Mannlíf

„Loksins saMAn“ eftir tveggja ára Covid hlé

Nýstúdentar myndaðir á lóð MA 17. júní. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Júbílantahátíð stúdenta Menntaskólans á Akureyri verður loks haldin á ný 16. júní eftir tveggja ára hlé vegna Covid faraldursins. Hátíðin er að vanda í umsjá 25 ára stúdenta en árum saman hafa um 1.000 manns komið saman í íþróttahöllinni kvöldið fyrir þjóðhátíðardaginn og gert sér glaðan dag í góðra vina hópi. 

„Yfirskriftin okkar er Loksins saMAn því fólk er að koma sér úr Covid gírnum og er loksins farið að hittast á ný; nú er hægt að njóta samveru og halda áfram að rækta vinaböndin!“ segir Elín Guðnadóttir við Akureyri.net. Hún er 25 ára stúdent og í skipulagsnefnd hátíðarinnar. 

Að kvöldi 16. júní taka eins árs stúdentar niður hvíta kollinn í íþróttahöllinni og þar verða einnig 5 ára, 10 ára, 25, 30, 40, 50 og 60 ára stúdentar.

„Það er frábært að halda hátíðina á ný og við erum mjög spennt; ég heyrði í fulltrúum árganganna á undan okkur og þeir sakna þess mikið að hafa ekki getað komið saman því hátíðin er orðin svo mikill partur af því að hafa útskrifast úr MA. Mér finnst mikilvægt að efla tengsin við Akureyri og skólann; ég er ekki frá Akureyri en tengist þangað í gegnum skólann og það er mjög mikilvægt fyrir bæinn að svona hátíð sé haldin.“

Elín segir að allt verði með hefðbundnu sniði í Höllinni 16. júní. „Við erum alls ekki að boða neinar breytingar! Hefðbundin skemmtiatriði verða frá árgöngum júbílanta, matur frá Bautanum og dansleikur,“ segir hún.

Hljómsveitin Möðruvallakjallarinn leikur fyrir dansi í aðalsal íþróttahallarinnar; söngvarar þeirrar sveitar eru Magni Ásgeirsson og MA-ingurinn Jón Jósep Snæbjörnsson, Jónsi úr Svörtum fötum. Á efri hæðinni verða gamla dansarnir eins og hefð er fyrir. 

Dagana á undan. 14. og 15. júní, hittast júbílantar jafnan og rifja upp liðna tíð. „17. júní er á föstudegi þannig að þetta er kjörið tækifæri fyrir fólk til þess að eiga langa helgi fyrir norðan,“ segir Elín.

Nánari upplýsingar á jubilantar.is

Miðasala er á tix.is