Lítið, geðþekkt og snoturt – og 140 ára
Á Akureyri standa rúmlega 40 hús sem byggð eru fyrir 1890. Það er nokkuð athyglisvert, að af þeim eru glettilega mörg byggð árið 1886: Þau eru fimm eða jafnvel sex, segir Arnór Bliki Hallmundsson í nýjasta pistlinum í röðinni Hús dagsins.
„Hvort eitthvert sérstakt góðæri hafi ríkt þá og betur árað til húsbygginga en næstu ár á undan og eftir (sárafá hús byggð á bilinu 1881-85 og 87-90) er höfundi ekki kunnugt um. Þess má geta, að þetta sama ár var stofnsett Pöntunarfélag Eyfirðinga, síðar Kaupfélag Eyfirðinga eða einfaldlega KEA,“ skrifar Arnór Bliki. „Hins vegar ber að hafa í huga, að mörg húsa hafa týnt tölunni við niðurrif eða bruna og svo er lesendum þessara greina vel kunnugt um, að fyrirvari getur verið á byggingarárum elstu húsa bæjarins. Eitt þessara húsa, sem á 140 ára afmæli á hinu nýbyrjaða ári er lítið geðþekkt og snoturt timburhús, sunnarlega við vestanverða Norðurgötu á Oddeyri, nefnilega Norðurgata 13.“