Fara í efni
Mannlíf

Listaverk sem ég get lesið aftur og aftur

AF BÓKUM – 41

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Reynir Elías Einarsson_ _ _

The Great Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald

Í framhaldsskóla var ég skikkaður til að lesa allskyns bækur og misgóðar. Inn á milli voru meistaraverk og langar mig að mæla með einu þeirra, bók sem ég segi oft að sé uppáhalds bókin mín. Þetta er The Great Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald.

Sagan gerist um miðjan þriðja áratuginn og er sögð frá sjónarhorni Nick Carraway. Hann vill læra verðbréfaviðskipti í New York og flytur því til Long Island og leigir lítið hús. Nágranni hans er hinn dularfulli milljónamæringur Jay Gatsby. Nick fylgist með íburðarmiklum veislum Gatsbys og kemst smám saman að því að þær eru allar settar á svið í þeim tilgangi að vekja athygli Daisy Buchanan, konunnar sem Gatsby elskar og vonast til að vinna aftur á sitt band.

Hluti af sjarmanum við þessa bók er tímabilið og sögusviðið, þar sem „art decoið“ nánast lekur af blaðsíðunum. Í lýsingum á húsi Gatsby, borgarlandslaginu og stemmingunni í veislum Gatsby gerir Fitzgerald lesandanum auðvelt að ímynda sér tíðarandann, tísku þessa tíma og íburðinn í þessu ríkra manna úthverfi New York. Bókin er fremur stutt, flestar útgáfur vel undir 200 blaðsíðum. En í fáum orðum ljáir Fitzgerald persónum sínum ótrúlega dýpt án þess að segja hlutina alltaf hreint út, heldur er ótrúlega mikið sem má lesa á milli línanna. Lesandinn er ekki mataður af ítarlegum persónulýsingum, en það má lesa í hvernig persónurnar tala og haga sér og þannig kynnast aukapersónum, eins og golfaranum Jordan Baker og Myrtle Wilson, eiginkonu bifvélavirkja, nánast jafn vel og aðalpersónunum. Þessi stíll gerir lestrarupplifunina virkari og gefandi og fannst mér ég vera að ráða í persónurnar og mynda mér skoðun á þeim sjálfur, rétt eins og maður gerir í raunveruleikanum.

The Great Gatsby er listaverk sem ég get lesið aftur og aftur. Fyrir þau sem það kjósa þá er hún líka til í íslenskri þýðingu Atla Magnússonar (Gatsby hinn mikli) en hana hef ég ekki lesið.