Fara í efni
Mannlíf

Segir allt sem segja þarf – í örfáum línum

AF BÓKUM – 34

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Svala Hrönn Sveinsdóttir_ _ _

Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur
 
Fegurðin í flæðinu er ljóðabók sem fjallar um blæðingar, frá fyrsta dropa til hins síðasta. Ljóðin fjalla um líkama og líðan, daglegt líf, sorgir og sigra, og í raun allan tilfinningaskalann sem fylgir því að upplifa flæði blæðinganna.
Ester hefur þann hæfileika að segja allt sem segja þarf, í aðeins örfáum línum, og vakti upp fleiri tilfinningar hjá mér en ég bjóst við í byrjun. Ljóðin hennar eru nefnilega hugleiðandi en líka full af húmor og ég bæði hló upphátt og fann til, við lesturinn. Því bókin er svo margfalt meira en bara ljóð sem fjalla um blæðingar, þau fjalla þau líka um skömmina sem enginn talar um, sorgina sem stundum fylgir, ákveðna skekkju í umhverfismálum og jafnréttið sem við viljum öll. Þau fjalla vissulega um fegurðina í flæðinu.
Með samspili penna og vatnslita nær hún svo að fanga mjúka stemningu bókarinnar á einstakan hátt og setja punktinn yfir i-ið, teikningarnar eru einfaldar en áhrifamiklar, rétt eins og ljóðin hennar.
Ég hafði áður haldið að ljóðabækur væru ekki endilega fyrir mig en Ester hefur nú breytt þeirri skoðun. Ég mæli eindregið með bókinni hennar, bæði fyrir þau sem þekkja flæðið, en þó sérstaklega fyrir þau sem vilja skilja það betur.