Lifandi safn – Arnold Arboretum í Boston

„Eitt af því sem vér Íslendingar gerum svo gjarnan er að fara til útlanda. Þær ferðir má nýta til að víkka sjóndeildarhringinn á einn eða annan hátt. Fyrir áhugafólk um gróður og garða er tilvalið að heimsækja grasagarða sem víða er að finna. Hver þeirra hefur sín sérkenni og þar sem gróður er misjafn eftir árstíðum er oft vel þess virði að heimsækja suma þeirra eins oft og kostur er.“
Þannig hefst nýr pistill Sigurðar Arnarsonar í röðinni Tré vikunnar, á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Pistillinn er sá fyrsti í umfjöllun um erlenda grasagarða. Sigurður fjallar um Arnold Arboretum garðinn sem er í eigu Harvard háskóla í Boston í Bandaríkjunum. Garðurinn er lifandi safn, segir Sigurður, og alls 113,7 hektarar. „Til samanburðar má nefna að Lystigarðurinn á Akureyri er 3,7 hektarar. Því má ætla sér góðan tíma til skoðunar. Rétt er þó að geta þess að ekki eru allir þessir hektarar samliggjandi. Garðurinn er hluti af kennslu- og rannsóknargögnum Harvard háskóla sem leggur metnað sinn í að gera hann sem aðgengilegastan og fróðlegastan fyrir allan almenning jafnt sem nemendur og fræðimenn við skólann.“
Pistill Sigurðar: Arnold Arboretum