Fara í efni
Mannlíf

Lárus setti mótsmet, naumur sigur Stefaníu

Akureyrarmeistararnir að keppni lokinni í dag, Stefanía Kristín Valgeirsdóttir og Lárus Ingi Antonsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Lárus Ingi Antonsson og Stefanía Kristín Valgeirsdóttir urðu hlutskörpust í meistaraflokki á Akureyrarmótinu í golfi sem lauk í dag og eru því Akureyrarmeistarar. Mótið stóð í fjóra daga og keppt var í mörgun flokkum. Elstu menn muna vart eftir Akureyrarmóti þar sem veðrið hefur leikið við keppendur alla fjóra dagana en þessa móts verður m.a. minnst fyrir ótrúlega blíðu allan tímann.

Lárus Ingi setti mótsmet; fór hringina fjóra á samtals sjö höggum undir pari, sem enginn hefur afrekað síðan vellinum var breytt fyrir nokkrum árum. Hann lék fyrsta daginn á pari, fór því næst á einu höggi undir pari, lék frábærlega á þriðja degi og fór á fimm höggum undir pari, og lauk mótinu í dag með því að fara hringinn á einu höggi undir pari. Lárus Ingi varð Akureyrarmeistari annað árið í röð og var sigur hans mjög öruggur.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir hafði örugga forystu fyrir síðasta daginn í meistaraflokki kvenna, var 11 höggum á undan Ólöfu Maríu Einarsdóttur en náði sér alls ekki á strik í dag og aðeins munaði einu höggi á þeim Ólöfu þegar upp var staðið. Ólöf María lék mjög vel, fór hringinn á 74 höggum, en Stefanía á 84! Fram að því hafði hún leikið á 79, 77 og 77.