Fara í efni
Mannlíf

Keppt um fyrstu verðlaun Björgvins!

Björgvin Þorsteinsson á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum 2018. Ljósmynd: seth@golf.is

Á Íslandsmótinu í golfi, sem hefst á Jaðarsvelli á morgun og stendur til sunnudags, verður keppt í fyrsta sinn um Björgvinsskálina. Hún verður héðan í frá veitt þeim áhugamanni sem leikur á lægsta skori í kvenna- eða karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi ár hvert. Þetta kemur fram á vef Golfsambands Íslands. 

Skálin er veitt til heiðurs Björgvini Þorsteinssyni en liðin eru 50 ár frá því hann varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í meistaraflokki, 18 ára að aldri á heimavelli sínum – Jaðarsvelli á Akureyri.

Björgvin er sexfaldur Íslandsmeistari, næst sigursælasti kylfingur á Íslandsmóti í karlaflokki. Hann varð fyrst Íslandsmeistari 1971, lenti í öðru sæti árið eftir en gerði sér svo lítið fyrir og varð Íslandsmeistari fimm ár í röð, 1973 til 1977. Það afrek hefur enginn leikið eftir.

Fyrsti verðlaunagripurinn!

Björgvin Þorsteinsson hefur ánafnað Golfsambandi Íslands umrædda skál, verðlaunagripinn sem hann fékk fyrir fyrsta Íslandsmeistaratitilinn af mörgum; þegar hann varð meistari í unglingaflokki 1970. 

Björgvin, sem er fæddur árið 1953, er enn einu sinni á meðal keppenda á Íslandsmótinu, á 69. aldursári. Hann lék á 55 Íslandsmótum í röð og er nú mættur á ný, eftir tveggja ára hlé, til að taka þátt í 56. mótinu. Björgvin er með 1,8 í forgjöf og er elsti keppandinn á Íslandsmótinu 2021 á gamla heimavellinum.

Eins og áður segir er Björgvin sexfaldur Íslandsmeistari, eins og Úlfar Jónsson. Aðeins Birgir Leifur Hafþórsson hefur sigrað oftar í karlaflokki, 7 sinnum. Birgir Leifur fagnaði sjöunda Íslandsmeistaratitlinum á Jaðarsvelli árið 2016. 

  • ATHUGIÐ Upphaflega greindi GSÍ frá því að umrædda skál hefði Björgvin fengið þegar hann varð fyrst Íslandsmeistari í meistaraflokki 1971,en síðan var það leiðrétt. Fréttinni hefur þar af leiðandi verið breytt.

Björgvin Þorsteinsson þegar hann var upp á sitt allra besta á áttunda áratugnum.